Tónlistarkonan og leiklistarneminn Elín Hall gefur út lagið Komdu til baka, í næstu viku. Hún spilar í dag á Skuggabaldri, á lítilli djasshátíð sem þar er haldin um helgina. Elín, sem er ein af efnilegustu tónlistarkonum landsins, segist hafa verið heppin og náð að taka nokkra smærri tónleika ein síns liðs milli bylgna.

„Ég gat meira að segja haldið tónleika með öllu bandinu mínu í Máli og menningu. Það var ótrúlega skemmtilegt kvöld enda bandið ekki leikið saman á tónleikum í meira en ár.

Núna er liðið ár síðan ég gaf út plötuna mína og ég er fyrst að byrja að geta spilað hana að einhverju ráði núna. Það skemmtilegasta við það að fara út með gítarinn er að hitta nýtt fólk sem hefur verið að hlusta á plötuna í vetur og gefur sér tíma í að koma og sjá mig spila. Ég er eiginlega alltaf hissa að sjá fólk mæta til að hlusta á mig sem ég hef ekki séð áður,“ segir hún.

Elín gaf nýverið út myndband af lifandi flutningi sínum á laginu Dalurinn sem tekið var upp í Akranesvita, í tilefni eins árs afmælis plötu hennar.

„Við Gunnar Bjarki, sem tók það upp, frumsýndum það á Loft Hosteli í júlí. Satt að segja fæ ég svo mikið af hugmyndum á sama tíma að mér var ráðlagt að hugsa bara um eitt skref í einu. En ég er samt alltaf að vinna í plötu, það er bara spurning hvenær hún kemur út.“

Fékk innblástur frá Grease

Elín var að horfa á söngvamyndina Grease í vor og varð fyrir innblæstri frá tónlist sjötta áratugarins og þeim hljóðheimi.

„Lagið Komdu til baka vitnar því svolítið í þá stemningu. Ég er mjög hrifin af öllu sem er á einhvern hátt retró svo þetta var fyrst og fremst mjög skemmtilegt lag að semja. Mér finnst samt eiginlega enn skemmtilegra að spila það en það hefur virkað vel til að gleðja fólk á tónleikum hingað til,“ segir hún.

Elín tók upp myndband við lagið fyrir stuttu.

„Ég fékk til þess að láni Cadillac-bíl frá sjötta áratugnum. Mér fannst svolítið fyndið að standa fyrir framan svona glæstan bíl með rafmagnsgítar í dragt og hælum. Ég hafði fyrir fram ekkert velt fyrir mér þeim sterku kynjatáknum sem fylgja flottum bílum og gítörum og síðan dragtinni. Ég valdi bara hlut og útlit sem mér finnst ógeðslega kúl. Ég vona bara að ég „púlli“ það og í besta falli brjóti einhverja staðalímynd,“ segir Elín.

Forðaðist neikvæðni

Elín nýtti tímann vel í faraldrinum, þá sérstaklega til að æfa sig.

„Gáfaður tónlistarmaður sagði mér einu sinni að lagasmíðar væru vöðvi sem þyrfti að halda í þjálfun. Ég hef tekið þessu mjög bókstaflega og faraldurinn hefur gefið manni enn þá meiri lausan tíma til að æfa sig.

Ég er stundum hrædd um að lögin gætu farið að verða heimaskrítin ef ég fer ekki að spila þau fyrir aðra. Ég hef mjög djúpstæða þörf til að spila fyrir aðra sem hefur bara farið vaxandi, því það er jú meginástæðan fyrir því að maður er að þessu.“

Fannst þér ástandið hafa einhver áhrif á lagasmíðar þínar?

„Eini virkilegi munurinn sem ég fann á sjálfri mér þegar ég leit yfir þetta tímabil er að ég skrifaði meira jákvætt um ástina og lífið. Ég held ég hafi ekki haft kraftinn í að vera neikvæð inni í stúdíói þegar það var nóg um það úti í samfélaginu. Kannski er þetta einmitt kjarninn í þörfinni til að skapa og flytja tónlist? Að vinna með andstæðar tilfinningar og skoða allan tilfinningaskalann óháð því hvernig líðanin er hverju sinni.“

Spennandi samstarf

Elín verður líkt og áður kom fram með tónleika á Skuggabaldri við Austurvöll á eftir.

„Svo verð ég í Máli og menningu 11. og 25. ágúst. Ég vil bjóða fólki í sögustund, spila útgefin lög og margt nýtt líka, bæði á íslensku og ensku. Ég verð bara með einn hljóðfæraleikara með mér á hverjum tónleikum, fyrir utan mig, þannig að þetta verður mínímalískt en vonandi kraftmikið. Á eftir verður Reynir Snær gítarleikari með mér og við gerum eitthvað næs.“

Elín hefur alltaf stefnt að því að vinna frekar með öðrum tónlistarmönnum til að þroskast og víkka út listformið, eins og hún orðar það.

„Núna er ég svo lánsöm að vinna með Jose Luis Andervel að lagi sem verður bæði á bæði íslensku og spænsku og er væntanlegt í haust. Lagið er byggt á ljóði sem ég fann eftir ömmu mína Iðunni Steinsdóttur sem Jose þýddi svo yfir á spænsku. Annars ætla ég bara að halda áfram að gefa út tónlist og spila eins mikið og ég get. Mig langar að tengja enn betur við þá sem koma að hlusta og er að þróa alls konar hugmyndir til að gera meira fyrir áheyrendur á tónleikum, jafnvel að virkja þá í gegnum tónlistina.“

Tónleikarnir á Skuggabaldri fara fram klukkan 16.00 í dag og lagið Komdu til baka kemur á allar helstu streymisveitur 6. ágúst.