„Ég mun aldrei líta glaðan dag aftur ef ég verð ekki stórmeistari eins og Bragi bróðir,“ segir Björn Þorfinnsson, alþjóðlegur meistari í skák - en ekki stórmeistari - í samtali við Fréttablaðið. Björn, sem er blaðamaður á DV, skrifaði í helgarblaðið frétt um þann áfanga litla bróður síns, Braga Þorfinnssonar, að verða stórmeistari í skák. Í fyrirsögn er því slegið upp að Bragi, sem er fæddur 1981, sé elsti maðurinn í Íslandssögunni til að verða stórmeistari.

Björn, sem sjálfur hefur um árabil freistað þess að verða stórmeistari í skák, upplýsir í fréttinni að hún hafi verið skrifuð að undirlagi ömmu þeirra bræðra, Ömmu Bíbí, sem hafi lítið þótt fara fyrir umfjöllun fjölmiðla um stórmeistarann Braga. „Það er ekkert í veröldinni mikilvægara en að hlýða ömmu sinni í einu og öllu og því er tíðindunum hér með komið á framfæri á kostnað faglegrar nálgunar minnar sem blaðamanns,“ skrifar Björn í DV. Hann lætur þess getið að gamla konan hafi lagt grunninn að skákferli þeirra bræðra.

Björn skrifar að ekki hafi náðst í „rígmontinn“ litla bróður við vinnslu fréttarinnar en viðurkennir svo að hafa ekki reynt það. „Það að slá því upp, þótt rétt sé, að hann sé elsti Íslendingurinn til þess að verða stórmeistari er aðallega gert til að lækka aðeins í honum rostann,“ skrifar hann.

Björn segir við Fréttablaðið að Bragi, sem er yngri en Björn, þurfi að vera á undan í öllu. Hann hafi ekki aðeins orðið fyrri til að verða stórmeistari heldur hafi hann líka orðið fyrri til að eignast fyrsta barn, annað og þriðja, sem Birni hafi ekki auðnast að leika eftir. Það sama gildi um alla fyrri titla í skákinni, háskólanám, trúlofun, giftingu og svo framvegis. Bragi hafi alltaf orðið fyrri til.

Björn bindur vonir við að verða stórmeistari einn daginn, enda hafi reynslan kennt honum að þeir vegir séu honum einir færir sem litli bróðir hafi rutt.

Aðspurður segir Björn að skákum þeirra bræðra lykti oftar en ekki með jafntefli. „Einu skiptin sem við neyðumst til þess að berjast og annar hvor vinnur þá endar það bara í slagsmálum eða þá að báðir eða annar fer að grenja,“ segir Björn kíminn.