Þar sem heimurinn bráðnar er yfirskrift sýningar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, á um 80 ljósmyndum eftir Ragnar Axelsson. Sýningin stendur til 9. maí.

Ljósmyndarann Ragnar Axelsson (RAX) þarf vart að kynna. Ljósmyndir hans hafa sem dæmi sé tekist birst í Life, Time, GEO, El País, Newsweek, Stern, Polka og ótal fagtímaritum. Segja má að ljósmyndir hans séu stöðugt sýndar einhvers staðar í heiminum. Ragnar hefur hlotið margháttaðan heiður fyrir verk sín.

Breyttar aðstæður

Sýningarstjóri sýningarinnar í Hafnarhúsinu er Einar Geir Ingvarsson sem hefur brotið um og séð um útlit á ljósmyndabókum Ragnars; Andlit norðursins, Jökull og Hetjur norðurslóða. „Ég þekki myndir hans vel og valdi úr töluverðu magni fyrir þessa sýningu og Ragnar lagði síðan blessun sína yfir það val. Við Ragnar erum búnir að vinna saman síðan 2014 og höfðum frekar góða hugmynd um það hvernig sýningu við vildum gera með Listasafni Reykjavíkur. Við vildum sýna myndir úr þremur flokkum, myndir frá norðurslóðum, jöklamyndir og myndir frá Íslandi,“ segir Einar. „Uppistaðan er úr nýjustu bók Ragnars, Hetjum norðurslóða. Svo eru þarna nýjar jöklamyndir sem hafa hvergi birst og að lokum eru 39 myndir úr Andlitum norðursins og Fjallalandi, sem tengjast Íslandi.“

Hér má sjá myndir á ljósmyndasýningunni í Hafnarhúsinu.

Einar segir viðfangsefni sýningarinnar ríma við titil sýningarinnar Þar sem heimurinn bráðnar. „Grænlenski sleðahundurinn og veiðimenn eru í breyttum aðstæðum og bæði hundunum og veiðimönnunum fækkar ótrúlega hratt. Svo erum við með jöklana sem vísindamenn segja að verðir horfnir eftir 150-200 ár. Svo eru myndir sem sýna íslenska bændamenningu sem breytist hratt. Þannig að Ragnar hefur verið að skrásetja hverfandi heim.“

Bók sem slær í gegn

Spurður hvað geri Ragnar að hans áliti afburða ljósmyndara segir Einar: „Hann ber mikla virðingu og auðmýkt fyrir viðfangsefninu og vill skrásetja það á sem sannastan hátt. Hann hefur stórkostlegt auga og svo er hann ótrúlega duglegur og iðinn. Ég dáist að kraftinum og metnaðinum sem hann sýnir.“

Síðasta ljósmyndabók Ragnars, Hetjur norðurslóða, hefur fengið afar góðar móttökur hérlendis sem erlendis. „Á einum mánuði var fjallað um bókina í The Guardian, Time Magazine, Deutsche Zeitung og í stórblöðum í Frakklandi, Ítalíu, Hollandi, Portúgal og Belgíu. Bókin kemur út í Bandaríkjunum í sumar og það verður gaman að fylgjast með móttökum þar,“ segir Einar.

Ragnar er heimsþekktur fyrir myndir sínar. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari