Það þótti lengi vel til siðs að borða lélegasta fiskmeti ársins á Þorláksmessu en sú hefð kemur úr kaþólskum sið þar sem venjan var sú að fasta áður en jól ber að garði.

Sú hefð hefur ekki haldist þar sem fæstir fasta fyrir jólin nú til dags og hefur hugarfar gagnvart fiskmetinu einnig breyst enda þykir skata í dag herramannsmatur sem sumum hlakkar lengi til að borða.

Það vantaði því ekki tilhlökkun í fólkið þetta árið enda nú fyrstu jól síðan faraldrinum lauk þar sem hægt er að margmenna á matsölustaði borgarinnar og háma í sig miskæst skötubörð. Allt frá hvítum og bleikum skötustykkjum og jafnvel að fjólubláum tindabikkjubörðum sem fá nasavængina til að blakta.

Fréttablaðið heimsótti nokkra af þeim stöðum sem buðu upp á skötu í Reykjavík og hafa gert lengi.

Café Catalina

Hægt var að koma í skötuveislu á Café Catalinu eins og svo oft áður og er kaffihúsið helsta vígi skötunnar í Kópavogi.

Þar var margt um manninn og lagði kæstan ilminn um allan miðbæ Kópavogs.

Hægt var að fá saltfisk fyrir þá sem ekki kunna skötuna að meta á Kaffi Catalínu.
Fréttablaðið/ERNIR
Að borða skötu hefur gengið í kynslóðir og sameinast fólk um þennan skemmtilega sið á Þorláksmessu.
Fréttablaðið/ERNIR
Það var notaleg stemning á Café Catalinu í dag.
Fréttablaðið/ERNIR

Múlakaffi

Ekki þarf að gera neinar borðapantanir á Múlakaffi og er þá bæði hægt að kaupa tilbúna skötu og taka með sér eða kaupa hana ósoðna til að matbúa heima.

Eldhúsið á Múlakaffi tók daginn snemma og var byrjað að setja börð í ofninn snemma dags. Já ofninn þú last það rétt enda fæstir matsölustaðir sem sjóða skötuna núorðið.

Í Múlakaffi er mötuneytisstemning og sitja þar fyrirmenn og forkólfar með sauðsvörtum almúganum og keppast um olnbogarými á meðan allir sporðrenna hverju kæstu barðinu á fætur öðru.

Það var stappað á Múlakaffi í dag í hádeginu og löng röð sem myndaðist upp Hallarmúlann.
Fréttablaðið/ERNIR
Það eru allir jafnir frammi fyrir fúlu fiskmeti.
Fréttablaðið/ERNIR
Múlakaffi hefur lengi boðið upp á skötu á Þorláksmessu og leggja margir leið sína þangað.
Fréttablaðið/ERNIR

Seinasti valsinn í Laugaás

Það var margt um manninn á veitingastaðnum Laugaás í dag þegar seinasta skötuveislan átti sér stað en staðurinn hefur verið starfræktur síðan 1979. Nú stendur þó til að staðnum verði lokað.

Það voru því margir fastasgestir sem kvöddu skötuna í Laugardalnum með tár á hvarmi. En hvort þeim súrnaði í augum af eftirsjá eða kæsingunni sjálfri er erfitt að segja.

„Jú þetta er seinasta skötuveislan hjá okkur,“ sagði Ragnar Guðmundsson veitingamaður sem hefur rekið staðinn í 43 ár.

„ Það var uppselt löngu fyrir seinasta dag. En við tökum á móti öllum, þó að það sé ekki búið að panta þá tökum við á móti öllum eins og við getum,“ sagði Ragnar

Ragnar er þó ekki alveg hættur því hann verður með viðburð eftir áramót á Laugaási.

„Frá fjórða til tíunda janúar mun ég bjóða upp á gratíneraðana fisk sem er uppáhaldið mitt og svo líka orly fisk,“ sagði Ragnar sem hlakkar greinilega til síðasta viðburðarins.

„ Ég er búinn að tala við alla mína byrgja og þeir eru tilbúnir að vera með mér í þessu vegna þess að allur ágóði sem kemur inn af því hann fer til hjartveikra barna,“ segir Ragnar en áfram verður eitthvað opið á Laugaási eftir áramót þar sem ekki er búið að ljúka við allt ferli varðandi lokun en þó fer hver að verða síðastur að kveðja þennan goðsagnakennda stað.

Hjónin Ragnar og Bára en sonur þeirra, Guðmundur tekur við rekstrinum
fréttablaðið/valli