Það eru margar leiðir til þess að vekja áhuga barna á lestri og ávallt gott að fá góð ráð hjá fagfólkinu okkar.

Um helgar er um að gera að hlúa að börnunum og eiga með þeim gæðastundir. Ein leið til þess að eiga saman gæðastundir er að lesa saman og láta sig dreyma. Við spjölluðum við Svövu Þórhildi Hjaltalín, grunnskólakennara og læsisráðgjafa sem einnig er verkefnastjóri í Rannsóknarsetri um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands, í samvinnu við SA, um hvernig megi gera lestur að gæðastundum foreldra og barna.

„Að kúra saman uppi í sófa með ávexti eða grænmeti í skál og lesa skemmtilega bók skapar mikla nánd og góð tengsl. Að tala saman um söguna, ímynda sér hvað gerist næst og læra ný orð er gaman. Að setja sig í spor annarra og jafnvel læra meira um það sem þú hefur áhuga á er svo dýrmætt. Allt getur gerst í ævintýrum, dýr geta talað og ljósastaurar dansað og það er svo skemmtilegt og leikur við og eykur ímyndunaraflið,“ segir Svava og bætir við að bækur geti verið miklir gleðigjafar og opnað nýja heima.

Eru helgarnar ekki vel til þess fallnar að foreldrar finni skemmtilega bók/bækur og lesi með börnunum sínum og tengi jafnvel efnisvalið við eitthvað sem þau þekkja eða eru að fást við?

„Það er gaman að fjölskyldan skapi þá hefð að heimsækja bókasafnið í nágrenninu á laugardögum, velji sér bók/bækur til að skoða og lesa og komi svo kannski við í bakaríi eða á kaffihúsi á heimleiðinni. Það er svo mikilvægt að finna bækur sem vekja áhuga barnsins eða tengjast áhugamáli þess. Að leyfa barninu að velja bók eða sögu til að lesa eða hlusta á skiptir miklu máli og ef þú finnur bók sem tengist áhugasviði barnsins þá er það mjög gott.“

Áttu til góð ráð til foreldra sem gera þeim kleift að gera lesturinn spennandi með börnunum, jafnvel verða kveikjan að því að vekja meiri áhuga barna á því að lesa?

„Það er svo lestrarhvetjandi fyrir börn að sjá foreldra sína lesa og njóta bóka. Að lesa framhaldssögu getur svo sannarlega verið mjög spennandi og leitt til þess að barn bíði næstu stundar. Það má lesa undir sæng með vasaljós eða undir borði með snakk í skál. Útbúa lestrarbingó eða spurningaspil. Sú bók sem barnið les þarf alltaf að miðast við færni, hún má hvorki vera of þung né of létt. Að teikna mynd sem tengist sögunni getur verið mjög gaman. Að semja nýjan endi eða nýjan kafla við söguna getur líka verið mjög gaman.“

Njótum þess að skapa gæðastundir með börnunum okkar, þau eru það dýrmætasta sem við eigum. Lesum fyrir þau, tölum við þau og kennum þeim ný orð! Leggjum grunninn að góðri lestrarfærni og öflugum lesskilningi.