„Okkur þykir náttúrlega alveg óendanlega vænt um þessar tvær persónur og það er einhvern veginn rosa stórt að segja þetta upphátt. Það er bara mjög erfitt. Ég skal alveg viðurkenna það,“ segir leikkonan Hrefna Hallgrímsdóttir um þá ákvörðum þeirra Lindu Ásgeirsdóttur að leggja litríkum búningum Skoppu og Skrítlu eftir átján ár.

„Við erum einhvern veginn búnar að vera að draga það að segja að nú sé komið að lokum en við ætlum nú eiginlega að halda okkur við það núna í þetta sinn,“ heldur Hrefna áfram og auðheyrt er að þetta er meira en að segja það en hún bendir á að þeim finnist þær nú standa á réttu tímamótunum.

Hjartað ræður för

„Við finnum það pínu í hjartanu að við brennum kannski ekki eins sterkt fyrir þessu og við gerðum. Ekki síst vegna þess að við erum orðnar eldri og börnin okkar eru orðin eldri og þá fara svona bara aðrir hlutir að spila inn í.

Við erum auðvitað búnar að vera heppnar að geta gert allt þetta efni samhliða því að ala upp okkar eigin börn og það hefur náttúrlega haldist svo fallega í hendur. Nú þegar þau eru orðin eldri finnum við að ósjálfrátt fer áhugi manns svolítið í þá átt en þegar maður er svo heppinn að vinna við það sem hjartað stendur til þá er voða erfitt að hlusta á eitthvað annað,“ segir Hrefna.

Skrítla orðin stór

„Ég skal alveg viðurkenna að ég átti ekki von á því að ég væri enn í þessu hlutverki þegar ég væri fertug, en nú er ég er verða fimmtug þannig að þetta er svona: Vá! Þetta er búið að lifa svo miklu, miklu lengur en okkur óraði fyrir. Persónulega finnst mér ég vera bara komin á einhvern svona stað þar sem ég þarf að spyrja mig hvað ég ætli að gera þegar þú verður stór? Hvað ætlarðu að vinna við? Þannig að maður er svona að hugsa ýmislegt.“

Hrefna og Linda eru búnar að vera í búningum Skrítlu og Skoppu í átján ár þannig að fyrstu aðdáendur þeirra eru orðnir fullorðið fólk. „Okkur þykir ótrúlega vænt um að við erum að hitta fullorðið fólk, sem einmitt man þetta, og vill fá að knúsa okkur vegna þess að það er greinilega bara einhver góð tilfinning sem það einhvern veginn geymir með sér í þessari minningu. Það er náttúrlega bara geggjað.“

Engin hætta er á því að tilvera Hrefnu og Lindu verði svarthvít þótt þær leggi nú litríka búninga Skoppu og Skrítlu frá sér eftir átján ár
Mynd/Aðsend

Búningarnir kvaddir

Hrefna útilokar ekki aðspurð að Skoppa og Skrítla muni lifa áfram í einhverri mynd en þær Linda ætli að láta gott heita. Þá ætla þær einnig að kveðja með stæl þar sem svokallaðar „sing-along“ sýningar þeirra hefjast á ný í Sambíóunum á laugardaginn. Fyrir síðustu jól komust færri að en vildu og sýningarnar héldu áfram langt inn í janúar og Hrefna útilokar ekki að sú saga endurtaki sig.

Skoppa og Skrítla skilja auðvitað eftir sig helling af þáttum og alls konar skemmtiefni og eru ekki alveg hættar þar sem þær hafa lofað að taka upp vinsæl dans-, leik- og söngnámskeið sín í Dans og Jóga í janúar.

„Við erum búnar að vera í frábæru samstarfi við Stöð 2 alveg síðan 2009 og vorum einmitt bara að klára tökur á nýrri þáttaröð sem hefst í desember þannig að það verður allavegana eitthvað pínu nýtt sem flýtur inn í nýja árið en það verður ekkert meira skemmtanahald. Við verðum ekkert á ferðinni og það eru ekki fleiri leiksýningar. Þannig að það má segja að með því erum við búnar að leggja búningana á hilluna. Mjög tragískt.“