Hjörleifur er einnig höfundur tónlistarinnar í verkinu ásamt Eiríki Stephensen, en þeir standa báðir á sviði og skemmta áhorfendum, eins og þeir hafa áður gert í verkunum Sögu þjóðar, Öldinni okkar og Kvenfólki.

„Þessi sýning er meira leikhús en fyrri sýningar okkar sem hafa verið frumsýndar fyrir norðan en síðan orðið að gestasýningum í Borgarleikhúsinu,“ segir Hjörleifur.

„Þar sem þessi sýning er framleidd Borgarleikhúsinu inniheldur hún fleiri brellur, mikla grafík, leikmynd og alls kyns leikmuni. Allt er viðameira en áður.“

Hvernig gekk honum að koma Njálu fyrir í tveggja tíma sýningu?

„Það er býsna snúið að kjarna Njálu. Ég setti mér það að segja alla Njálu og draga ekkert undan. Ég er ekki að segja að það takist algjörlega en við Eiríkur reynum að fara í gegnum allt verkið. Ég var enginn Njálumaður fyrir, en það hefur verið mjög gaman og krefjandi að búa til leikrit úr Njálu og að sama skapi mjög skemmtilegt.“

Marglaga karakter

Gunnar, Hallgerður, Njáll, Bergþóra og Skarphéðinn eru í forgrunni sýningarinnar.

„Ég hafði ekki áttað mig á því hversu stórt hlutverk Njáll hefur í Njálu. Hann er óskaplega marglaga karakter og veröld hans og hugsjónir eru gegnumgangandi í sögunni. Hann er alltaf að byggja sér fyrirmyndarheim. Hann er svo margt: stjörnulögfræðingur, póli­tískur refur og andlegur leiðtogi sem verður æ andlegri eftir því sem á líður. En eins og oft fer fyrir mannkynslausnurum þá gleymir hann að rækta sinn eigin garð og ferst,“ segir Hjörleifur, en Njáll er orðinn að eftirlætispersónu hans í Njálu.

Um túlkun þeirra Eiríks á sögunni segir hann:

„Við erum að reyna að vera fyndnir, sjá skondnu hliðarnar á Njálu sem er ekki erfitt og skoða út frá sjónarhóli okkar 21. aldar fólks. Þá hlýtur maður að leggja sinn dóm á persónur og söguna.“

Breyskar manneskjur

Er með öllu leyti sanngjarnt að leggja nútímamælistiku á Njálu?

„Nei, það er engan veginn sanngjarnt! En þegar maður er að búa til gleðileik þá leyfist manni allt. Við erum líka algjörlega trúir sögunni þótt við veltum fyrir okkur ýmsum þáttum,“ segir Hjörleifur.

„Maður fær frítt spil og getur endalaust verið að ráða í gjörðir manna sem eru oft ekki skynsamlegar. Þetta eru svo breyskar manneskjur. Skarphéðinn ekki síst, enda tættur af erfiðum heimilisaðstæðum. Þegar hann gengur frá búð til búðar til að afla sér stuðnings, eftir að hafa drepið Höskuld, eftirlæti allra, þá hagar hann sé afar óskynsamlega, en er samt svo skiljanlegur. Hann getur ekki beðist vægðar, því það er ekki í hans karakter.“