Lífið

Skötu­veisla til styrktar góð­gerðar­mála

Ásmundur Friðriksson þingmaður heldur árlega skötuveislu til styrktar góðra málefna. Um 400 manns mæta á ári hverju.

Sköttumessan hefur verið haldin árlega í tólf ár.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hélt árlega skötumessu á miðvikudaginn. Ásmundur og kona hans hafa, ásamt vinahjónum sínum, haldið skötuveislu að sumri hverju til styrktar góðra málefna. 

Góð mæting þrátt fyrir veður og fótbolta

Veislan var haldin á miðvikudagskvöld og segir Ásmundur í Facebook-færslu að hann hafi haft áhyggjur af mætingu, enda bæði landsleikur á HM og leiðindarveður á suðvesturhorni landsins, sem letur fólk til ferðarlags. Ásmundur segir þó að mætingin hafi verið frábær, um 400 manns hafi gætt sér á skötu og hamsatólg. „Við erum búin að halda þetta í tólf ár, nokkur vinahjón í Garðinum. Þarna koma á hverju ári svona 400 manns og leggja saman í púkk til að enda kvöldið á því að gefa af sér til góðra málefna,“ segir Ásmundur í samtali við Fréttablaðið. „Það er alltaf fullt hús, það er bara þannig.“

Rófur og kartöflur eru fengnar gefins frá Forsæti í Flóa.

Eins og landsmenn vita er heldur óhefðbundið að gæða sér á skötu um hásumar, en hún er vanalega borin fram á Þorláksmessu, deginum fyrir aðfangadag jóla. „Það er Þorláksmessa að sumri, hún er 20. júlí. Við reynum alltaf að halda þetta sem næst 20. júlí en það er þingfundur á Þingvöllum svo þessu var flýtt um viku,“ segir Ásmundur, og vísar til hátíðarþingfundar sem haldinn verður á Þingvöllum þann 18. júlí næstkomandi, í tilefni 100 ára fullveldis Íslands.

Flokksfélagar Ásmundar úr Sjálfstæðisflokknum létu sig ekki vanta. Á myndinni er m.a. Jón Gunnarsson og Brynjar Níelsson þingmenn.

Maturinn gefins

Hin árlega hátíð var haldin í sal Barnaskólans í Garði. Kvöldið er að mestu skipulagt í sjálfboðavinnu og er maturinn nær allur fenginn gefins. „Axel Jónsson í Skólamat sér um að elda matinn fyrir okkur. Fiskmarkaður Suðurnesja hefur alltaf gefið okkur skötuna, og svo fáum við kartöflurnar og rófurnar gefins frá Forsæti í Flóa. Þetta kemur allt upp í hendurnar á okkur,“ segir Ásmundur.

Eins og sjá má mættu fjöldamargir til að gæða sér á skötu.

Allur ágóði skötumessunnar rennur til góðgerðarmála. Verður hagnaðinum m.a. varið til kaupa á nýju trampólíni fyrir Öspina, sumardvöl fatlaðra, og nýjum bíl fyrir Þroskahjálp. „Við höfum samning við Icelandair Cargo, og höfum í sameiningu styrkt velferðarsjóð Keflavíkurkirkju um 500 þúsund krónur á ári. Við höfum notað þann pening til að greiða niður skuldir barna sem hafa ekki getað borgað skólamatinn sinn. Við fáum 40 prósent afslátt af kröfunum sem við borgum, þannig þessi 500 þúsund kall verður eitthvað um 900 þúsund. Við erum að gefa á hverju ári svona 2500 skólamáltíðir.“

Ásmundur skutlaðist sjálfur með matinn.

Þó að maður sé manns gaman eru þó einnig fengin skemmtiatriði og ræðumenn til að stíga á stokk. Var meðal annars leikið á harmonikku, ásamt því að Geir Ólafs og Þórir Baldursson tóku lagið. Þá var ræðumaður kvöldsins Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur. „Þetta er mjög skemmtilegt. Þetta er mjög stór hópur sem mætir og mjög mikið sama fólkið sem mætir ár eftir ár. Þetta tekur svona tvo og hálfan tíma, þetta er vímuefnalaus skemmtun og mikil gleði,“ segir Ásmundur að lokum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tíska

Hanna flíkur úr ó­nýttum efna­lagerum

Helgarblaðið

Eftir hundrað ár munu fleiri leika sér

Helgarblaðið

Leyndarmál íslenskrar listasögu

Auglýsing

Nýjast

Hatari er viðvörun

Líkt við Gaultier og Galliano

Í­huguðu nánast alla leikara í Hollywood fyrir Titanic

Erna komst inn í einn virtasta lista­há­skóla Evrópu

Rosa­legt ferða­lag fíkilsins

Vargurinn sleppti heil­brigðum haferninum

Auglýsing