Stein - Skrift er yfirskrift sýningar Áslaugar Írisar Katrínar Friðjónsdóttur sem nú stendur yfir í Norr11 Hverfisgötu. Sýningin stendur til 4. febrúar.

Verk Áslaugar hafa verið sýnd á sýningum og í söfnum og galleríum á Íslandi, Evrópu og í Bandaríkjunum. Um verkin á sýningunni í Norr11 segir Áslaug. „Verkin eru ný, níu þeirra eru í minni kantinum og þrjú stærri. Efnið sem ég nota er fúga, sem notuð er í flísalögn. Þetta er skemmtilegt efni vegna þess að það þornar ekki of fljótt og því er auðvelt að vinna með það. Stundum nota ég fúguna alveg hvíta og stundum blanda ég akrýlmálningu við til að fá lit. Ég ber fúguna á plötu og risti teikningu í hana. Eftir það vinn ég á fúguna málverk og festi á steina og stundum meira að segja gólfdúka. Þannig að ég er að nota iðnaðarefni í bland við fínlegri miðla eins og vatnsliti, blýant og akrýlmálningu. Í verkunum mætast hið grófa og hið fína. Til viðbótar við þessi verk er þarna líka eitt stórt vatnslitaverk með afgerandi formum.“

Eitt af verkum Áslaugar á sýningunni. Mynd/Aðsend

Stöðug þróun

Áslaug segir verk sín vera í stöðugri þróun. „Ég nota oft sömu formin aftur og aftur og upp úr því fór ég að hugsa um það hvernig fólk skilur það sem það horfir á. Ég hef verið skoða hvernig ritmál og myndmál eins og híeróglýfur verða til, abstrakt form verða að táknum sem verða svo að kerfum sem fólk lærir að skilja. Bókstafir í stafrófi eru í raun og veru bara abstrakt form. Hugsunin í verkunum á sýningunni er í þessa átt og hefur einnig sést í fyrri verkum mínum.“

Um notkun sína á steinum og gólfdúkum segir Áslaug. „Ég notaði gólfdúka fyrst þegar ég sýndi í Ásmundarsafni. Þar er hvítur marmari á gólfunum sem er ótrúlega áhrifamikið þannig að ég gerði verk sem kallaðist á við það en var úr gólfdúkum. Gólfdúkar eru hversdagslegt efni en samt er viss fágun í þeim sem vísar í náttúrusteina og marmara og þar með í klassískan tíma. Sama á við um steinana, þetta eru hversdagslegir íslenskir steinar en vísa í klassíska listasögu og höggmyndalist”.

Spurð af hverju hún hafi áhuga á fornum menningarheimum segir hún: „ Listasagan og ólíkir menningarheimar eru mér oft og tíðum uppspretta innblásturs. Kannski er það tengt því að amma mín er grísk og ítölsk og býr í París. Mér finnst alltaf eins og hún komi úr allt öðrum heimi, svo bý ég á Íslandi og lifi bara venjulegu íslensku lífi, Mér finnst mikil vigt í því að eiga arfleið til landa með svona mikla menningarsögu, það er eins og brunnur sem ég get sótt í.“