Sex útskriftarnemar úr Ljósmyndaskólanum opna í dag sýningu á útskriftarverkum sínum að Hólmaslóð 6 en sýningin hefst klukkan 17:00 og stendur til sunnudagsins 20. janúar. Útskriftarnemarnir eru spenntir fyrir sýningunni en Helga Laufey Ásgeirsdóttir, einn útskriftarnema, segist í samtali við Fréttablaðið vera afar spennt fyrir sýningunni, enda mikil vinna lögð í verkin sem séu mjög fjölbreytt enda um ólíka einstaklinga að ræða.

„Þetta er mjög spennandi. Þetta er líka skemmtilegt að því leytinu til að við fáum svolítið frjálsar hendur með það hvernig við vinnum með rýmið sem sýningin er í, en hún er haldin í gömlu netaverkstæði sem nýlega komst í hendur skólans. Þannig umhverfið er mjög hrátt sem gefur sýningunni ákveðinn karakter.“

Útskriftarnemar eru auk Helgu, þau Ásgeir Pétursson, Hjördís Jónsdóttir, Kamil Grygo, Sonja Margrét Ólafsdóttir og Þórsteinn Sigurðsson en öll eru þau að ljúka fimm anna námi í skapandi ljósmyndun og hafa þau öll vakið talsverða eftirtekt fyrir verk sín.

Eiga útskriftarnemarnir það sameiginlegt að nota ljósmyndamiðilinn á persónulegan máta og verður tekið á ólíkum málefnum út frá mismunandi forsendum í útskriftarverkunum.

„Við erum mjög ólík og það endurspeglast í verkum okkar. Sum okkar eru með verk þar sem við könnum samfélagið, til að mynda um samspil útlitsdýrkunar og samfélagsmiðla en önnur með mjög persónuleg verkefni frá heimahögum sínum. 

Stíllinn og það sem við einbeitum okkur að er því virkilega ólíkt sem þýðir að sýningin er mjög fjölbreytt og því klárlega eitthvað sem höfðar til allra,“ segir Helga, en vegleg ljósmyndabók með verkum útskrifarnemanna verður til sölu á sýningarstað á meðan sýningunni stendur.

Um útskriftarverkefnin: 

Verk Ásgeirs, Færeyingahöfn á Grænlandi fjallar um bæ á Grænlandi sem byggður var upp fyrir um 100 árum af færeyskum sjómönnum sem stunduðu fiskveiðar við Grænland. 
 
Í verkinu Benchmarks veltir Helga Laufey fyrir sér flæðandi kynhneigð karlmanna og vill opna huga fólks fyrir því að kynhneigð getur verið á rófi. 

Hjördís fjallar um fegurðarstaðla og útlitsdýrkun vestrænna heimsins í verkinu Filtered. Aldrei hefur verið auðveldara að búa til eigin ímynd á samfélagsmiðlum og lifa samkvæmt uppskrift sem á að ávísa á hamingju og vellíðan.

Í verkinu, Eyja, er Kamil að fást við hvernig það er að vera innflytjandi á Íslandi og tilfinninguna sem fylgir þeirri aðstöðu. 

Í verkinu Rætur skoðar Sonja hvernig við mótumst af staðnum sem við ölumst upp á og hvernig staður og landslag tengir fjölskyldu saman. Hún horfir á sína eigin móðurfjölskyldu þar sem fjórar kynslóðir kvenna eiga það sameiginlegt að hafa alist upp á sama stað. 

Þórsteinn hefur lagt áherslu á heimildaljósmyndun og gefur út bókverkið “Juvenile Bliss”. Þar fjallar hann um  tvær kynslóðir af ungu fólki í Reykjavík og gefur áhorfandanum innsýn í veröld þeirra.