Íslenska kvikmyndin Skjálfti eftir Tinnu Hrafnsdóttur var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Tallinn Black Nights Film Festival í Tallinn í Eistlandi um helgina.

Kvikmyndin hefur fengið frábærar móttökur og lof gagnrýnenda.

Þá hrósar kvikmyndagagnrýnandinn Neil Baker myndinni, sérlega handritinu og frammistöðu Anítu Briem sem fer með aðalhlutverk myndarinnar. Hann fer ekki síður fögrum orðum um fallega kvikmyndatöku Tómasar Arnar Tómassonar.Gagnrýnandinn Rob Aldam lofsamar leik Anítu, hann segir kvikmyndina kraftmikla líkt og Baker er hann einnig afar hrifinn af handritinu sem hann segir einkar vel uppbyggt.

Framleiðandi myndarinnar er Hlín Jóhannesdóttir og með aðalhlutverk fara Aníta Briem, Edda Björgvinsdóttir og Jóhann Sigurðarson.

Hjónin Tinna Hrafnsdóttir og Sveinn Geirsson sem leikur fyrrum eiginmann aðalpersónunnar.
Mynd/Aðsend

Byggir á skáldsögu Auðar Jónsdóttur

Myndin byggir á skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Stóri skjálfti sem kom út árið 2015.

Skjálfti segir frá ungri móður að nafni Saga sem um þrítugt vaknar eftir heiftarlegt flogakast þegar hún gengur á Klambratúni með sex ára syni sínum og man lítið eftir það hvað gerðist í aðdraganda þess.

Saga er álitin ófær að sjá um son sinn eftir atvikið en reynir að fela ástand sitt fyrir öðrum. Hún fer í leit að upplýsingum um sjálfa sig og fjölskyldu sína sem hefur falið ógnvænleg leyndarmál fortíðarinnar.

Myndin kemur í sýningu hérlendis í janúar 2022.