Skjaldborg - Hátíð íslenskra heimildamynda, fer loksins fram um helgina eftir að hafa verið frestað tvisvar í ár. Venjan er að halda hátíðina á Patreksfirði um hvítasunnuhelgina, en vegna COVID var búið að fresta hátíðinni fram að verslunarmannahelgi. Hertar sóttvarnareglur sem tóku gildi fyrir verslunarmannahelgi urðu svo til þess að aflýsa þurfti hátíðinni í annað sinn með dags fyrirvara. En nú er komið að því að unnendur heimildamynda geti notið dagskrárinnar sem skipuleggjendur Skjalborgarhátíðarinnar hafa staðið í ströngu við að undirbúa.

„Eftir að hafa þurft að aflýsa hátíðinni tvisvar var ekkert annað í stöðunni en að reyna að keyra hana í Reykjavík. Þá var tilvalið að ganga í hjónaband með Bíó Paradís, en þau hafa unnið vel að framgangi íslenskra heimildamynda ásamt okkur,“ segir Karna Sigurðardóttir verkefnastjóri hjá Skjaldborg.

Brugðið er út af vananum og fer Skjaldborgarhátíðin fram í Reykjavík í ár.

Hátíðin var sett í gær en hún stendur yfir alla helgina í Bíó Paradís. Skjaldborg er opnunarhátíð kvikmyndahússins, sem hefur verið lokað í fimm mánuði.

„Allur þunginn í ár er á heimildamyndadagskránni. Við leggjum áherslu á að frumsýna myndirnar og halda fallega utan um þau augnablik, auk þess að kynna verk í vinnslu sem er mikilvægur hluti af hátíðinni,“ segir Karna.

Hún segir að vegna sóttvarnaráðstafana sé hátíðinni í ár sniðinn mjög þröngur stakkur, sem þrengist með hverjum degi. Skipuleggjendur taka því ekki neina áhættu og vilja passa öryggi gestanna, svo klassísk hliðardagskrá eins og fiskiveislan og limbókeppnin verða að bíða betri tíma. Hún lofar þó að Skjaldborg með öllum sínum hefðbundnu viðburðum komi sterk aftur á Patreksfjörð að ári.

Stilla úr myndinni Góði hirðirinn eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur sem sýnd verður á hátíðinni.

Heiðursgestur Skjaldborgar í ár er Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Hrafnhildur hefur lengi unnið að heimildamyndum og var um árabil kvikmyndatökustjóri en undanfarin ár hefur hún einbeitt sér að gerð heimildamynda sem leikstjóri og framleiðandi. Á hátíðinni verða sýndar þrjár myndir eftir hana auk þess sem hún verður með masterclass á morgun.

„Heimildamyndadagskráin í ár er mjög fjölbreytt en við höfum aldrei fengið jafnmargar umsóknir um þátttöku. Við finnum fyrir mikilli grósku í faginu,“ segir Karna.

„Þetta eru myndir frá fólki sem er að taka sín fyrstu skref í heimildamyndagerð upp í reynda leikstjóra. Við munum meðal annars sýna fyrstu og einu mynd Jóhanns Jóhannssonar, First and Last Men. Þetta er kokteill af allavega viðfangsefnum og sjónarhornum. Þannig er Skjaldborg. Við erum hörð á því að Skjaldborgarandinn fylgi okkur niður á Hverfisgötu.“

Það er ljóst að í Bíó Paradís verður veisla heimildamynda alla helgina fram á sunnudagskvöld. Karna hvetur gesti til að tryggja sér miða tímanlega, vanda sig vel í að halda fjarlægðarmörkum, fylgja sóttvarnaviðmiðum og njóta þess að fara í bíó.