Sýningin Nýjar birtingarmyndir listarinnar er haldin á vefsvæði tímaritsins Artzine (artzine.is). Sýningin er haldin í tilefni útkomu bókarinnar Digital Dynamics in Nordic Contemporary Art.

Þátttakendur í sýningunni eru Sæmundur Thor Helgason, Anna Fríða Jónsdóttir, Hákon Bragason, Ágústa Ýr Guðmundsdóttir og Haraldur Karlsson. Sýningarstjóri er Margrét Elísabet Ólafsdóttir. Sýningin og pallborðsumræður um sama efni eru eins konar framhald af umfjöllunarefni bókarinnar.

Fimm listamenn

„Listamennirnir sem eiga verk á þessari vefsýningu hafa allir sótt innblástur á internetið og efnisveitur þess,“ segir Margrét Elísabet. „Sæmundur Thor Helgason sýnir stiklu úr stuttmynd sem hann hefur verið að vinna að fyrir sýningu í Sjanghaí og fjallar um Solar Plexus Pressure Belt™ sem hann lét hanna til að draga úr kvíða. Þarna er eldra verk, vídeó af innsetningunni Thought Interpreter eftir Önnu Fríði Jónsdóttur, sem fjallar um samskipti fólks og hvernig við höfum áhrif hvert á annað án þess kannski að vita hvernig.

Þarna er líka verk eftir unga listakonu, Ágústu Ýri Guðmundsdóttur, sem hefur unnið mikið í þrívíddarhreyfimyndum. Hún hefur gert myndbönd fyrir tónlistarfólk og fatahönnuði en gerir líka sín eigin vídeó. Verk hennar fjallar um staðalímyndir og líkamsímyndir og hvernig við sýnum okkur á samfélagsmiðlum. Þar er fjallað um kröfur samfélagsins til okkar, sem hamla okkur líka á vissan hátt og hvernig hægt er að vinna á móti því. Tónlistin í verkinu er svokallað Ken Lee meme úr Idol-þætti þar sem Valentina Hasan syngur lagið Without You.

Hákon Bragason er ungur listamaður sem útskrifaðist úr Listaháskólanum í fyrra og sýnir veflistaverkið On a Branch og Haraldur Karlsson streymir lifandi gjörningi frá Snæfellsnesi sem er aðgengilegur í upptöku á Artzine.“

Listamenn í pallborði

Samhliða sýningunni er sýnd upptaka af pallborðsumræðum þar sem annar hópur ungra listamanna ræðir afstöðu sína til stafrænnar tækni og áhrif hinna stafrænu tíma á eigin listsköpun. Þátttakendur í pallborðinu eru Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar, Auður Lóa Guðnadóttir, Fritz Hendrik Berndsen og Freyja Eilíf.

„Þetta eru allt listamenn sem vinna með stafræna tækni og það hvernig stafrænn veruleiki og internetið endurspeglast yfir í hefðbundna miðla. Verkin fjalla um þennan internet-veruleika sem er hluti af umhverfinu sem þeirra kynslóð elst upp við,“ segir Margrét Elísabet og bætir við: „Ef maður fer að hugsa um íslenska myndlist, en oft er talað um hana í tengslum við náttúruna, þá kemur í ljós að þessum ungu listamönnum finnst það vera alltof merkingarhlaðið viðfangsefni og sérstaklega með fjölgun ferðamanna. Þau fara inn í annan veruleika, þennan sýndarveruleika sem við lifum í, og sækja viðfangsefni sín þangað.

Bókin, sýningin og pallborðsumræðurnar eru tækifæri til að taka stöðuna á áhrifum stafrænnar tækni á myndlist samtímans og svara spurningunni af hverju listamennirnir hafa valið þessar leiðir.“

Verk eftir Hákon Bragason á sýningunni.