Hljóm­sveitin Skíta­mórall sendir frá sér nýtt lag á morgun fimmtu­dag á streymis­veitur og út­varps­stöðvar og um leið verður nýtt mynd­band frum­sýnt. Þetta kemur fram í til­kynningu frá sveitinni.

Lagið heitir „Aldrei ein“ og segir í til­kynningunni að um aftur­hvarf í gamla hljóm hljóm­sveitarinnar sé um að ræða. „Við erum búnir að vera að reyna að semja og út­setja inn í tíðar­andann en til að ná því fram þarf stundum að fórna gamla hljómnum eða gömlum elementum,“ segir Hebbi Viðars bassa­leikari, sem er höfundur lagsins.

„Svo bara fórum við að leita aftur í gamla hljóminn okkar og leituðum af þeim þáttum sem drógu hlust­endur til okkar í upp­hafi,“ segir Hebbi. Vignir Snær Vig­fús­son stjórnaði upp­tökum af laginu en sveitin hefur unnið heil­mikið með honum í gegnum tíðina.

„Það er allt löðrandi í gamla Skíta­móral í þessu lagi og maður fer bara í huganum í sveita­ball, sér fyrir sér sumar, sól og betri tíð með blóm í haga, bara á­kúrat það sem þjóðin þarfnast núna! Maður sér jafn­vel fyrir sér dalinn taka undir,“ bætir Addi Fannar við.

Textinn við nýja lagið er eftir Val Arnars­son æsku­vin strákana frá Sel­fossi og inn­takið er að þrátt fyrir að við séum öll ein­stök erum við langt frá því að vera ein, saman erum við ein heild. Valur var meðal annars aðal­sprauta hinnar goð­sagna­kenndu hljóm­sveitar „Sauð­fé á mjög undir högg að sækja í landi Reykja­víkur.”