66°Norður frumsýndi nýja línu í samstarfi við japanska tískumerkið Facetasm á tískuvikunni í París á dögunum. Nýja línan og litir hennar eru undir áhrifum frá íslenskri náttúru sem og íslenskum og japönskum eldfjöllum. Samstarfslínan vakti verðskuldaða athygli á tískuvikunni í París.

,,Ísland er land sem er annálað fyrir náttúrufegurð. Mig hefur alltaf langað að heimsækja Ísland og mun gera það einhvern daginn. Það er margt sameiginlegt með Íslandi og Japan og því hefur verið mjög áhugavert að vinna að þessu samstarfsverkefni á milli Facetasm og 66°Norður. Bæði merkin eru full af hlýju og gleði," segir japanski hönnuðurinn Hiromichi Ochia sem er stofnandi Facetasm.
Hiromichi stofnaði tískumerkið árið 2007 í Tókýó og er það vel þekkt víða um heim.