Lukka Mörk Sigurðardóttir steig fyrst inn í Klifurhúsið í Reykjavík aðeins átta ára gömul. Fjórum árum síðar var henni boðið að vera hluti afrekshóps Klifurfélags Reykjavíkur og frá þeim tímapunkti má segja að fátt annað hafi komist að í lífi hennar. Í dag er þessi öfluga íþróttakona sautján ára og tók nýlega þá ákvörðun að leggja frekara nám á hilluna í bili og einbeita sér að fullu að klifur- íþróttinni. „Frá því ég var ung stelpa hefur mig dreymt um að ferðast um heiminn og klifra. Þegar ég sá hvað margar æfinga- og keppnisferðir voru fram undan ákvað ég að þetta væri rétti tíminn til að leggja allt undir, fresta frekara námi og hella mér á fullu í klifrið. Eftir að sú ákvörðun var tekin hóf ég að leita að styrktaraðilum, setti upp vefinn www.lukkamork.com og setti kraft í Instagram síðuna mína (@lukka_mork) en ég hvet sem flesta til að fylgja mér eftir. Fyrsti stóri styrktaraðilinn kom nýlega í hús og ég er bjartsýn á framtíðina. Það skiptir öllu máli að hafa styrktaraðila sem gera mér kleift að hafa klifur að atvinnu og um leið gott bakland sem styður við mig. Þannig opnast allt önnur tækifæri til að ná árangri.“

FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Klifrið heillaði snemma

Lukka Mörk ólst upp í Kópavogi og eyddi flestum sumrum á ferðalögum og fjöllum innanlands með foreldrum sínum. Hún segir því ekki koma á óvart að helstu áhugamál hennar séu klifur og útivist. „Áður en ég steig fyrst inn í Klifurhúsið prófaði ég fullt af íþróttum eins og margir krakkar. Ég heillaðist þó fljótt af klifri eftir að hafa prófað fyrsta tímann átta ára gömul og festist í því.“

Hún segir margt heilla við íþróttina. „Félagsskapurinn er frábær og andinn er virkilega góður innan íþróttarinnar. Samkenndin er ótrúlega mikil og vináttan líka, þrátt fyrir samkeppni og iðkendur hjálpast allir að og styðja hver annan, líka á mótum. Þetta er frábær íþrótt sem gerir mér kleift að gleyma öllu og vera í mínum eigin heimi.“

FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Margir titlar

Undanfarin ár hafa einkennst af mörgum verðlaunum og góðum árangri. „Mér gekk strax mjög vel og fór á pall á fyrsta mótinu fáeinum vikum eftir að ég byrjaði að æfa. Frá tíu ára aldri hef ég síðan unnið flesta titla sem voru í boði hér á landi. Á síðasta ári var fyrirkomulaginu breytt þannig að 16-17 ára kepptu bæði í sínum flokki og í opnum flokki, þannig að ég var líka að keppa við bestu fullorðnu kvenkyns klifrarana. Þá náði ég bæði Íslandsmeistaratitli í grjótglímu, sem er klifur án línu í lágum veggjum, í 16-17 ára flokki og opnum flokki og bikarmeistaratitli í 16-17 ára flokki og opnum flokki. Ég náði svo 4. sæti á Norðurlandamótinu 2019 og í ágúst lenti ég í 7. sæti á sama móti en allur undirbúningur fyrir mótið truflaðist mikið vegna Covid, enda var mótinu frestað tvisvar.”

FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Verður líka að vera gaman

Stærstu verkefnin fram undan eru Evrópu- og Heimsmeistaramótin þar sem hún ætlar sér góðan árangur. „Fyrst tek ég þó þátt í Norðurlandamótinu í línuklifri þar sem ég set stefnuna á eitt af efstu fimm sætunum og næst tekur við Evrópumótið í grjótglímu í byrjun næsta árs. Ég er einbeitt í því að standa mig sem best, bæði fyrir mig sjálfa og fyrir Ísland og íslenskt klifur. Og svo er auðvitað mikilvægast að hafa gaman af þessu öllu saman.“

AÐSEND/SIGOGSIG

Aðspurð um ráð til ungra stelpna og stráka sem vilja láta drauminn rætast þegar kemur að íþróttum, segir hún að öllu skipti að hafa trú á sjálfum sér og hafa gaman af. „Þetta er ekki auðvelt og hver og einn hefur sína erfiðleika að glíma við á leiðinni en það er þess virði og þroskar mann til framtíðar.“

FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
AÐSEND/SIGOGSIG