Kvennakórinn Katla er tíu ára og verður haldið upp á þann áfanga með kórleikhúsi í Tjarnarbíó þann 21. maí. Lilja Dögg Gunnarsdóttir er kórstýra ásamt Hildigunni Einarsdóttur. „Þetta verður gjörsamlega tryllt,“ segir Lilja spurð hvort hópurinn sé ekki spenntur fyrir tónleikunum.

„Þetta er náttúrulega kaótískasti kór Íslands, við erum með mjög háleit listræn markmið, bæði í sviðsetningu og söng,“ segir Lilja og tekur fram að sextíu manna kórinn hyggist skipta fjórum sinnum um búninga á tónleikunum sem haldnir verða í Tjarnarbíó klukkan 14:00 og 17:00.

„Þetta verður algjör sýning. Við erum með ljós, leikmuni og trommuleikara með okkur. Markmiðið er að valdefla konur upp úr öllu valdi sínu, sjálfið þarf hreinlega að stækka um 27 númer til að taka þátt í þessum gjörningi,“ segir Lilja Dögg hlæjandi.

„Sem er rosalega gott þegar maður er að stýra sextíu manna kvennakór, sem í eru alls kyns konur og mæður, þá þarf maður hreinlega bara að stíga upp í að vera algjört sviðsdýr,“ segir Lilja.

Kórinn mun taka brot af því besta frá tíu ára sögu kórsins ásamt nýju og spennandi efni. „Við erum með handrit og höfum verið að æfa þetta á fullu, það er ekki bara músík heldur líka sýningin sjálf,“ segir Lilja.

„Svo er gaman að segja frá því að öll tónlistin er útsett af okkur Hildigunni og einni í kórnum og við erum að flytja tónlist sem enginn annar er að gera. Við erum með efni sérsmíðað fyrir hópinn og það eru algjör forréttindi að vinna með þeim.“

Fréttablaðið/Aðsend