For­maður rúmensku dóm­nefndarinnar í Euro­vision, Iuli­ana Marciuc, segir að hún skilji ekki hvers vegna EBU, sam­tök evrópskra sjón­varps­stöðva, neituðu að taka við at­kvæðum dóm­nefndar Rúmeníu á laugar­dag.

Í mynd­bandi neðst í fréttinni má sjá hvernig tals­kona Rúmena, sem til­kynnti átti 12 stig landsins, var til­búin í beinni út­sendingu en ekkert gerðist. Eins og fram hefur komið til­kynnti Martin Österdahl, fram­kvæmda­stjóri keppninnar, stigin frá dóm­nefndum Rúmeníu, Georgíu og Azer­ba­i­jan.

Ekki hefur komið fram hvers vegna en BBC greinir frá því að for­svars­menn keppninnar hafi ekki enn sem komið er svarað fyrir­spurnum sínum um málið. Fram hefur komið í til­kynningu frá stjórn keppninnar að hún hafi komið auga á mis­fellur í at­kvæðum sex landa. Ekki kemur fram í tilkynningunni um hvaða lönd var að ræða.

Í til­kynningu frá EBU segir að til þess að fara eftir kosninga­lögum Euro­vision hafi for­svars­menn keppninnar reiknað út stig landanna sem um ræðir, út frá upp­söfnuðum at­kvæðum frá bæði undan­keppninni og aðal­keppninni og tekið mið af niður­stöðum at­kvæða landa með svipaða kosninga­hegðun, eins og því er lýst á vef Wiwi­bloggs.

Tólf stig til Úkraínu en ekki Molda­víu

Í til­kynningu frá rúmenska ríkis­út­varpinu kemur fram að ríkis­út­varpið hafi greitt þátt­töku­gjöld í keppninni og viljað gera þátt­töku sinni hátt undir höfði.

„Hins­vegar vorum við hissa á að niður­stöður rúmensku dóm­nefndarinnar hefði ekki verið tekin með í loka­keppninni, en að skipu­leggj­endur hafi þess í stað gefið stig í staðinn fyrir dóm­nefndina okkar,“ segir í til­kynningunni

Þá er þess getið að dóm­nefndin hafi gefið fram­lagi Molda­víu 12 stig en ekki Úkraínu eins og hafi verið til­kynnt í beinni á laugar­dags­kvöldið. Segir að rúmenska ríkis­út­varpið hafi óskað eftir út­skýringum vegna málsins.