Grínistinn Ari Eldjárn segir að viðbrögð við Netflix uppistandinu hans, Pardon My Icelandic, hafi farið fram úr hans björtustu vonum. Skilaboðum allsstaðar að hefur rignt yfir grínistann öllum stundum sólarhringsins, frá löndum líkt og Suður-Kóreu og Óman.
Þetta kemur fram í viðtali við kappann í Morgunútvarpi Rásar 2. Í sýningunni gerir Ari stólpagrín að mikilmennskubrjálæði Íslendinga og segir Ari að hann hafi fengið skilaboð frá fólki meðal annars frá Eistlandi og Nýja-Sjálandi sem segist vita nákvæmlega hvað hann vísi til á sýningunni.
„Að einhverju leyti er þetta „universal“ eins og maður segir. Það eru mjög margir sem tengja við hluti eins og minnimáttakennd þjóðar. Þessi sýning fjallar um kómískar hliðar þess að vera með minnimáttarkennd yfir því hvaðan maður er og svona mín leið til að kýla niður Ísland best í heimi hugmyndirnar sem við erum með. Og ég held að margir tengi við það,“ segir Ari.
„Svo hef ég heyrt frá mörgum sem eru frá fimm milljóna löndum og þau segja „já við hugsum alveg eins.“ Ég er frá Eistlandi, ég er frá Nýja-Sjálandi, þetta er nákvæmlega eins.“
Ótrúlegustu þjóðarbrot sýnt áhuga
Sýning Ara er sýnd á Netflix úti um allan heim. Hún er því ekki svæðislæst líkt og svo margt sjónvarpsefni sem finna má á streymisveitunni. Ari segir aðspurður í þættinum að þeir hjá Netflix séu almennt strangir á því hvaða efni sé gefið „Netflix Original“ stimpilinn.
„Já, þetta skilst mér sé frekar hröð afgreiðsla. Ég er gríðarlega feginn, ég hef ekki mikla þolinmæði né úthald og þoli lítið mótlæti svo þetta er allt eins og best verður á kosið fyrir mig,“ segir Ari og hlær.
„Og það eru ótrúlegustu staðir sem hafa haft áhuga, ég er búinn að fá skilaboð mikið frá Grikklandi, mikið frá Tyrklandi og svo hef ég líka fengið skilaboð frá Suður-Kóreu og Óman. Þetta eru svona lönd sem maður einhvern veginn hafði ekki hugsað sér að myndu fara að horfa á eitthvað sem fjallar fyrst og fremst um Norðurlöndin.“
Ari segir aðspurður að í skilaboðunum sé fólk að láta í ljós almenna ánægju sína með efnið. „Þetta er einhvern veginn eitthvað sem maður er ekkert búinn að reikna með, maður hugsar bara að maður setji þetta inn og sjái svo hvað gerist,“ segir hann.
„Svo skilur maður í raun ekkert að það er bara fólk að horfa á þetta. Og það er eitthvað sem mér hefur alltaf þótt svo skrítið sem grínist. Það er rosa furðulegt að senda þetta frá sér og fá svo bara eftir á: „Já ég er mjög ánægður!“ Já er það?!“
Góð og slæm tímasetning
Ari segir aðspurður ljóst að Netflix uppistandið muni eflaust opna honum nýjar dyr á ferlinum. „Ég meina, allt hjálpar. Á sínum tíma kom ég fram í fimm mínútur á Menningarverðlaunum Norðurlandaráðs og pældi ekkert í því. En það gigg opnaði til dæmis bara þær dyr að ég komst að í Edinborg,“ segir Ari.
Þar vísar hann til Fringe listahátíðarinanr í Edinborg þar sem hann steig fyrst á svið fyrir þremur árum með uppistandssýninguna sína sem nú er komin á Netflix.
„Þannig þetta hlýtur að opna einhverjar dyr en hverjar þær dyr verða veit ég ekki. Og það verður væntanlega einhver bið á því að maður geti fylgt þessu eftir þar sem allt er á pásu út af COVID.“
Hann segir tímasetninguna núna, í miðjum heimsfaraldri, bæði góða og slæma. Það sé tæknilega séð neikvætt að geta ekki fylgt sýningunni eftir, en jákvætt að hún birtist nú þegar hægt hefur á framleiðslu á sjónvarpsefni vegna faraldursins.
„Þessi sýning er tekin upp í fyrra og þegar við tókum þetta upp datt mér ekki í hug að ég myndi vera í þeirri aðstöðu árið 2020 að eiga fullunna sýningu á tíma þegar það er fullkomið hrun í framleiðslu. Þetta er svolítið eins og að eiga bláan ópal. „Vá hvar fékkstu þetta? Það er ekki hægt að búa þetta til í dag!“ segir Ari.
Íslendingarnir hlæja miklu fyrr
Sýningin var tekin upp í Þjóðleikhúsinu á síðasta ári. Segir Ari að sér hafi fyrst þótt skritin tilhugsun að vera með uppistand fyrir Íslendinga á ensku, en það hafi fljótt vanist.
„Og það breytir engu og maður hættir að hugsa um það.Það eina sem er kannski skrítið er að segja hvað maður heitir þegar maður byrjar, en maður verður að gera það fyrir upptökuna,“ segir hann.
„Sýningin eins og hún er flutt er flutt eins og hún er flutt í Edinborg. Það er ein punchlína með Seyðisfjörður og Siglufjörður. Svo bæti ég við á ensku: „Thats a completely different part of the country!“ og þá fer fólk að hlæja en Íslendingar byrja alltaf að hlæja miklu fyrr,“ segir hann.
„Svo taka Íslendingar alltaf mikið við sér þegar maður fer að tala um fótbolta eða Danmörku. Þannig þetta er alveg mikil jafnvægislist, að þetta verði ekki of local, þannig þetta virki fyrir alla. Það er spennandi áskorun að reyna að miðla þessu þannig að maður þurfi ekki að vera alveg innmúraður og innvinklaður.“
Slakar núna á
Ari segist aðspurður í morgunútvarpi Rásar 2 taka því rólega þessa dagana. Hann sé hinsvegar duglegur að skemmta á fjarfundarviðburðum. Til skoðunar sé hvort hægt verði að streyma Áramótaskopinu, árlegri áramótauppistandssýningu kappans, en það sé óvíst.
„Ég er eiginlega bara að hvíla mig. Ég er búinn að keyra svo grimmt svo lengi og þessi COVID tími var svona dulbúin blessun fyrir mig. Ég fann það þegar maður hætti að vinna hvað maður hafði lagt mikla ofuráherslu á það að vera alltaf að. Ég er enn að læra að lifa kannski aðeins rólegra lífi.
Og ég held að launsin á því að endast eitthvað í þessum bransa sé að tryllast ekki úr metnaði, reyna að vera svona passlega latur á milli líka. Því ég sem eiginlega ekkert fyndið þegar ég er að vinna mikið. Þegar ég er að vinna mikið er ég svolítið að reiða mig á það sem þegar hefur verið búið til.
Eins og þessi sýning er í raun allt efni sem ég hef búið til og er 100 prósent viss um að virkar. Þau tímabil þar sem ég sem mest eru þau þar sem ég ligg mest í leti og er stefnulaus. Ég held það besta sem maður geti gert sé að vera með fjölskyldunni og vinum og að njóta lífsins.“