Grín­istinn Ari Eld­járn segir að við­brögð við Net­flix uppi­standinu hans, Pardon My Icelandic, hafi farið fram úr hans björtustu vonum. Skila­boðum alls­staðar að hefur rignt yfir grín­istann öllum stundum sólar­hringsins, frá löndum líkt og Suður-Kóreu og Óman.

Þetta kemur fram í við­tali við kappann í Morgunút­varpi Rásar 2. Í sýningunni gerir Ari stólpa­grín að mikil­mennsku­brjál­æði Ís­lendinga og segir Ari að hann hafi fengið skila­boð frá fólki meðal annars frá Eist­landi og Nýja-Sjá­landi sem segist vita ná­kvæm­lega hvað hann vísi til á sýningunni.

„Að ein­hverju leyti er þetta „uni­ver­sal“ eins og maður segir. Það eru mjög margir sem tengja við hluti eins og minni­mátta­kennd þjóðar. Þessi sýning fjallar um kómískar hliðar þess að vera með minni­máttar­kennd yfir því hvaðan maður er og svona mín leið til að kýla niður Ís­land best í heimi hug­myndirnar sem við erum með. Og ég held að margir tengi við það,“ segir Ari.

„Svo hef ég heyrt frá mörgum sem eru frá fimm milljóna löndum og þau segja „já við hugsum alveg eins.“ Ég er frá Eist­landi, ég er frá Nýja-Sjá­landi, þetta er ná­kvæm­lega eins.“

Ó­trú­legustu þjóðar­brot sýnt á­huga

Sýning Ara er sýnd á Net­flix úti um allan heim. Hún er því ekki svæðis­læst líkt og svo margt sjón­varps­efni sem finna má á streymis­veitunni. Ari segir að­spurður í þættinum að þeir hjá Net­flix séu al­mennt strangir á því hvaða efni sé gefið „Net­flix Original“ stimpilinn.

„Já, þetta skilst mér sé frekar hröð af­greiðsla. Ég er gríðar­lega feginn, ég hef ekki mikla þolin­mæði né út­hald og þoli lítið mót­læti svo þetta er allt eins og best verður á kosið fyrir mig,“ segir Ari og hlær.

„Og það eru ó­trú­legustu staðir sem hafa haft á­huga, ég er búinn að fá skila­boð mikið frá Grikk­landi, mikið frá Tyrk­landi og svo hef ég líka fengið skila­boð frá Suður-Kóreu og Óman. Þetta eru svona lönd sem maður ein­hvern veginn hafði ekki hugsað sér að myndu fara að horfa á eitt­hvað sem fjallar fyrst og fremst um Norður­löndin.“

Ari segir að­spurður að í skila­boðunum sé fólk að láta í ljós al­menna á­nægju sína með efnið. „Þetta er ein­hvern veginn eitt­hvað sem maður er ekkert búinn að reikna með, maður hugsar bara að maður setji þetta inn og sjái svo hvað gerist,“ segir hann.

„Svo skilur maður í raun ekkert að það er bara fólk að horfa á þetta. Og það er eitt­hvað sem mér hefur alltaf þótt svo skrítið sem grínist. Það er rosa furðu­legt að senda þetta frá sér og fá svo bara eftir á: „Já ég er mjög á­nægður!“ Já er það?!“

Góð og slæm tíma­setning

Ari segir að­spurður ljóst að Net­flix uppi­standið muni ef­laust opna honum nýjar dyr á ferlinum. „Ég meina, allt hjálpar. Á sínum tíma kom ég fram í fimm mínútur á Menningar­verð­launum Norður­landa­ráðs og pældi ekkert í því. En það gigg opnaði til dæmis bara þær dyr að ég komst að í Edin­borg,“ segir Ari.

Þar vísar hann til Fringe lista­há­tíðarinanr í Edin­borg þar sem hann steig fyrst á svið fyrir þremur árum með uppi­stands­sýninguna sína sem nú er komin á Net­flix.

„Þannig þetta hlýtur að opna ein­hverjar dyr en hverjar þær dyr verða veit ég ekki. Og það verður væntan­lega ein­hver bið á því að maður geti fylgt þessu eftir þar sem allt er á pásu út af CO­VID.“

Hann segir tíma­setninguna núna, í miðjum heims­far­aldri, bæði góða og slæma. Það sé tækni­lega séð nei­kvætt að geta ekki fylgt sýningunni eftir, en já­kvætt að hún birtist nú þegar hægt hefur á fram­leiðslu á sjón­varps­efni vegna far­aldursins.

„Þessi sýning er tekin upp í fyrra og þegar við tókum þetta upp datt mér ekki í hug að ég myndi vera í þeirri að­stöðu árið 2020 að eiga full­unna sýningu á tíma þegar það er full­komið hrun í fram­leiðslu. Þetta er svo­lítið eins og að eiga bláan ópal. „Vá hvar fékkstu þetta? Það er ekki hægt að búa þetta til í dag!“ segir Ari.

Ís­lendingarnir hlæja miklu fyrr

Sýningin var tekin upp í Þjóð­leik­húsinu á síðasta ári. Segir Ari að sér hafi fyrst þótt skritin til­hugsun að vera með uppi­stand fyrir Ís­lendinga á ensku, en það hafi fljótt vanist.

„Og það breytir engu og maður hættir að hugsa um það.Það eina sem er kannski skrítið er að segja hvað maður heitir þegar maður byrjar, en maður verður að gera það fyrir upp­tökuna,“ segir hann.

„Sýningin eins og hún er flutt er flutt eins og hún er flutt í Edin­borg. Það er ein punchlína með Seyðis­fjörður og Siglu­fjörður. Svo bæti ég við á ensku: „Thats a completely dif­ferent part of the coun­try!“ og þá fer fólk að hlæja en Ís­lendingar byrja alltaf að hlæja miklu fyrr,“ segir hann.

„Svo taka Ís­lendingar alltaf mikið við sér þegar maður fer að tala um fót­bolta eða Dan­mörku. Þannig þetta er alveg mikil jafn­vægis­list, að þetta verði ekki of lo­cal, þannig þetta virki fyrir alla. Það er spennandi á­skorun að reyna að miðla þessu þannig að maður þurfi ekki að vera alveg inn­múraður og inn­vinklaður.“

Slakar núna á

Ari segist að­spurður í morgunút­varpi Rásar 2 taka því ró­lega þessa dagana. Hann sé hins­vegar dug­legur að skemmta á fjar­fundar­við­burðum. Til skoðunar sé hvort hægt verði að streyma Ára­móta­skopinu, ár­legri ára­móta­uppi­stands­sýningu kappans, en það sé ó­víst.

„Ég er eigin­lega bara að hvíla mig. Ég er búinn að keyra svo grimmt svo lengi og þessi CO­VID tími var svona dul­búin blessun fyrir mig. Ég fann það þegar maður hætti að vinna hvað maður hafði lagt mikla ofur­á­herslu á það að vera alltaf að. Ég er enn að læra að lifa kannski að­eins ró­legra lífi.

Og ég held að launsin á því að endast eitt­hvað í þessum bransa sé að tryllast ekki úr metnaði, reyna að vera svona pass­lega latur á milli líka. Því ég sem eigin­lega ekkert fyndið þegar ég er að vinna mikið. Þegar ég er að vinna mikið er ég svo­lítið að reiða mig á það sem þegar hefur verið búið til.

Eins og þessi sýning er í raun allt efni sem ég hef búið til og er 100 prósent viss um að virkar. Þau tíma­bil þar sem ég sem mest eru þau þar sem ég ligg mest í leti og er stefnu­laus. Ég held það besta sem maður geti gert sé að vera með fjöl­skyldunni og vinum og að njóta lífsins.“