Tónlistarmaðurinn Kanye West, sem gengur jafnframt undir listamannsnafninu Ye, hefur valdið miklum usla með klæðaburði sínum.

Á óvæntri tískusýningu sem var haldin á tískuvikunni í París í gær mætti hann í bol merktum skilaboðunum „White Lives Matter“, sem útleggja mætti sem „Hvít líf skipta máli“.

Það var ekki bara Kanye sem klæddist bolnum, heldur fleiri fyrirsætur, sem og Candace Owens, sem er bandarískur stjórnmálaskýrandi sem er þekkt fyrir hægri sinnaðar skoðanir sínar.

Candace Owens og Kanye Wes í bolunum umdeildu.
Skjáskot/Twitter

„White Lives Matter“, er einskonar andsvar við „Black Lives Matter“-baráttunni. Fjöldi fólks hefur gagnrýnt rapparann heimsfræga fyrir þessa notkun á frasanum og fjöldi fjölmiðla vestanhafs hafa tengt hann við hægri öfgahópa, sem og nýnasista.

Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Kanye er tónlistafólk líkt og Jaden Smith og rapparinn Boosie Badazz, sem og fræða- og fjölmiðlafólk.