Fermingarundirbúningur íslenskra unglinga í Svíþjóð er skemmtilegur og miðlægur þáttur í starfi íslensku kirkjunnar í Svíþjóð. Á hverju ári skrá 15 til 25 íslenskir unglingar sig í fermingarfræðslu hjá kirkjunni og þannig hafa um 400 íslenskir unglingar notið þessarar fræðslu á síðustu 20 árum, þeim tíma sem Ágúst Einarsson hefur gegnt stöðu prests íslensku kirkjunnar í Svíþjóð. „Það sérstaka við þennan starfsþátt er hann hefur ekki verið staðbundinn, heldur hafa unglingarnir getað komið frá allri Svíþjóð og notið fræðslunnar. Fermingarfræðslan hefst með fermingarmóti í október. Unglingarnir koma til Gautaborgar og við förum með rútu að kirkjulegum ráðstefnustað, ÅH-stiftgård, sem er 70 km norður af Gautaborg á undurfögrum stað í sveit og við sjóinn. Þar fer fram heilmikil dagskrá með samhristingi, kennslustundum, íþróttum, helgistundum og kvöldvökum frá föstudegi til sunnudags.“

Um 400 íslenskir unglingar hafa notið fermingarfræðslu hjá íslensku kirkjunni í Svíþjóð, á þeim tíma sem Ágúst Einarsson hefur gegnt stöðu prests innan hennar.

Fermingarbörn dreifð um allt land

Fyrstu árin var Ágúst með einn fræðslufulltrúa með sér til að sjá um stóran hóp unglinga á fermingarmóti. „En sú ánægjulega þróun hefur orðið að smám saman hafa fleiri leiðtogar og ungleiðtogar bæst í hópinn þannig að með 20 unglingum á síðasta fermingarmóti voru 15 umsjónaraðilar. Það eru kennarar, leiðtogar og ungleiðtogar sem sjá um fræðslu, íþróttir, öryggi og skemmtun á fermingarmóti. Nú hefur sú hefð skapast að leiðtogar fara á ráðstefnustaðinn á fimmtudegi og eiga undirbúningsfundi og kennslu með ungleiðtogum sem taka svo á móti fermingarhópnum þegar hann mætir daginn eftir. Allt er það til að auka gæði þeirrar dagskrár sem fram fer á mótinu.“ Að fermingarmóti loknu hverfa allir til síns heima. „Það sérstaka við íslenska fermingarfræðslu í Svíþjóð er að fermingarbörnin búa dreift um alla Svíþjóð með að meðaltali 100 til 300 km á milli sín.”

Helgistund á fermingarmóti í kirkjunni á ÅH-stiftgård.

Mikið ævintýri fyrir unglingana

Fermingarmótin eru mikilvægt samstarfsverkefni íslensks kirkjustarfs á Norðurlöndum segir Ágúst. „Unglingar í fermingarfræðslu frá Noregi og Danmörku hafa í gegnum árin komið á fermingarmótin ásamt prestum og leiðtogum. Kóvítfaraldurinn hefur eðlilega sett strik í reikninginn síðustu misseri. Í maí næstkomandi munu sr. Inga Harðardóttir í Noregi og sr. Sigfús Kristjánsson í Danmörku koma fermingarhópana sína og það er afar ánægjulegt að taka upp þráðinn í því samstarfi. Það verða samtals 40 unglingar í fermingarfræðslu á mótinu í vor og yfir 20 umsjónaraðilar. Fermingarmótin eru töluvert ævintýri fyrir unglingana. Stór hópur jafnaldra frá ótal borgum og bæjum og frá þremur löndum hittast og eiga það sameiginlegt að vera „Íslendingar í útlöndum“.”

Þegar kemur að fermingarathöfninni er reynslan sú að um 80% af þeim sem eru í fermingarfræðslunni fermast á Íslandi. „Það kemur til af því að fjölskyldurnar sem velja fermingarfæðslu á íslensku í Svíþjóð eru í miklum tengslum við fjölskyldu og vini á Íslandi. Fermingardagurinn er fjölskylduhátíð og því reynist oft hagstætt að fjölskylda unglingsins haldi fermingu á Íslandi frekar en að óska eftir því að öll ættin komi í heimsókn til Svíþjóðar. Fermingarnar fara fram víðs vegar á Íslandi og á ólíkum tímum, allt eftir því hvar fjölskyldurnar eiga sterkust tengsl á Íslandi eða bjuggu áður en flutt var erlendis. En það er líka spennandi að fermast hér í Svíþjóð og nú í vor ráðgerum við fermingarathafnir í maí með þremur unglingum í Lundi og einum í Gautaborg.”

Í fögru umhverfi á ÅH-stiftgård. Sr Ágúst Einarsson, leiðbeinendur og fermingarhópur frá Svíþjóð og Danmörku á fermingarmóti 2018.

Hélt í hefðirnar

Ágúst og eiginkona hans Þórdís Guðmundsdóttir hafa búið í Svíþjóð í um 20 ár. „Árið 2002 fluttum við fjölskyldan til Gautaborgar. Ég hafði fengið námsleyfi í eitt ár og kona mín hóf sérfræðinám í læknisfræði við Sahlgrenska sjúkrahúsið. Við lok námsleyfis mín hittist svo vel á að prestsstaðan fyrir Íslendinga í Svíþjóð losnaði, ég sótti um og fékk starfið árið 2003.”

Hann segist hafa tekið við þeirri hefð sem skapast hafði að miðstöð íslenska kirkjustarfsins væri í Gautaborg. „Þá tilhögun má rekja til þess að sr. Jón Dalbú Hróbjartsson starfaði í Gautaborg árin 1994 til 1997. Á þeim árum varð hér til sóknarnefnd og áhugahópur um íslenskt kirkjustarf. Samtímis var náið samstarf var við Íslenska kórinn í Gautaborg undir stjórn Tuulu og Kristins Jóhannessonar og því góður grundvöllur fyrir að efna til reglulegs guðsþjónustuhalds og annars þjóðlegs menningarstarfs. Barist var ötullega fyrir fastri stöðu prests og eftir prestlaus ár var sr. Skúli Ólafsson skipaður og ég tók síðan við af honum.”

Frá barna- og fjölskyldusamveru í Gautaborg.

Njóta mikillar gestrisni

Íslenska kirkjustarfið er í Västra Frölunda kirkju, sænskri kirkju þar sem Ágúst hefur skrifstofuaðstöðu. „Við njótum mikillar gestrisni og hér er allt á sama stað, s.s. helgihald, barnastarf, æfingar Íslenska kórsins og aðstaða fyrir íslenskt menningarstarf. Ég býð upp á sálgæsluviðtöl og hefðbundnar kirkjulegar athafnir sem oftar en ekki kalla á lengri ferðalög. Ég er þó svo heppinn að geta notast við lestarferðir sem er einstaklega þægilegur og umhverfisvænn ferðamáti. Á tímabilum höfum við einnig getað boðið upp á íslenskt kirkjustarf á öðrum þéttbýlisstöðum, Lundi, Stokkhólmi, Uppsölum í samráði við heimafólk á þessum stöðum. Annað mikilvægt verkefni mitt að aðstoða íslenska sjúklinga og fylgdarfólk sem koma vegna rannsókna og í líffæraígræðslur á Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg.”