Í fyrstu bylgju COVID í mars tóku stjórnendur hinna vinsælu bresku þátta Taskmaster upp á því að leggja fyrir fólk ýmis heimaverkefni, taka myndskeið af því og senda inn. Þessi verkefni virtust hin besta skemmtun hjá fjölda breskra fjölskyldna sem sumar lögðu allt í verkefnið. Reglulega voru sýnd brot af bestu myndböndunum á YouTube-síðu þáttanna undir myllumerkinu #HomeTasking, sem mætti einfaldlega þýða sem heimaverkefni. Stjórnendurnir Alex Horne og Greg Davies völdu svo tíu bestu myndböndin í hverjum þætti.

Alex Horne sagði í viðtali að upprunalega hefði ætlunin bara verið að setja eitt verkefni fyrir. Skólum hafði verið lokað í Bretlandi og nokkrir foreldrar höfðu sent fyrirspurn til stjórnenda þáttanna, sem venjulega ganga út á að leggja ýmsar þrautir fyrir fimm þekkta gamanleikara, og spurðu hvort þeir gætu ekki lagt einhverjar þrautir fyrir krakka því þeim leiddist að hanga heima. Vegna gríðarlegra viðbragða við fyrsta verkefninu, sem var að henda A4-blaði í ruslatunnu á tilkomumikinn hátt og senda inn myndband af því, var ákveðið að halda áfram með heimaverkefnin. Þau héldu áfram fram á sumar og urðu tuttugu talsins.

Verkefnin sem fólk þurfti að leysa voru af ýmsum toga, til dæmis gera eitthvað óvenjulegt með buxum, setja eitthvað óvænt undir lak og lyfta svo lakinu og sýna það, leika þekkt atriði úr sögunni, breyta baðherberginu í skemmtistað og breyta eldhúsinu í íþróttaleikvang svo nokkur séu nefnd.

Einhver frumlegur þátttakandi breytti bílnum sínum í dansandi fíl.

Hugmyndaflug fólks fékk að njóta sín við gerð myndbandanna sem mörg eru sprenghlægileg. Má þar nefna pabbann sem dýfði sér í vaðlaug á miðju eldhúsgólfi og hlaut fyrir það ólympíugull sem börnin hans afhentu. Krakkana sem reyndu með andlitsgrímur að blása á afmæliskerti eða fólk sem breytti baðkarinu sínu í diskótek. Myndbandagerðin var góð afþreying fyrir Bretana sem sættu ströngu samkomubanni og gerðu því margir lítið annað en að hanga heima og reyna að hafa eitthvað fyrir stafni.

Núna þegar strangar samkomutakmarkanir gilda hér heima væri ekkert vitlaust að taka upp þessa hugmynd Bretanna og búa sér til verkefni og leysa þau á frumlegan hátt. Ef fjölskyldan er í sóttkví kannski í annað eða þriðja sinn jafnvel og allir komnir með leið á sjónvarpsglápi þá er um að gera að taka upp símann og byrja að búa til myndbönd. Jafnvel væri hægt að hafa keppni um bestu myndböndin innan stórfjölskyldunnar. Fjölskyldan gæti þá hist, til dæmis á Zoom, sem flestir ættu að hafa kynnst á þessu ári, þar sem myndböndin af heimaverkefnunum eru sýnd og það besta kosið.

Það má nýta sér bresku þættina sem innblástur og fá hugmyndir að verkefnum. Nú eða bara búa til sín eigin. Það er allavega ljóst að það þarf ekki að láta sér leiðast heima í sóttkví og skemmtun sem þessi kostar ekkert nema nettengingu og að einhver á heimilinu hafi aðgang að síma með myndavél. Ef fólk er aftur á móti ekki komið með ógeð á sjónvarpsglápi og nennir engan veginn að búa til myndbönd sjálft, þá má alltaf bara horfa á myndbönd Bretanna á YouTube.