Play it, Sam

Í kvikmynd Michael Curtiz, Casablanca, sem frumsýnd var árið 1942 er frægt atriði þegar Ilse Lund Laszlo biður Sam, píanistann á Rick‘s Café, um að spila lagið As Time Goes By. Sam spilar auðvitað lagið fyrir hana og syngur, en Arthur „Dooley“ Wilson, sá sem leikur Sam, var þekktur tónlistarmaður. Málið er bara að hann spilaði ekki á píanó heldur var hann trommari. Undirspilið er því látbragðsleikur Dooleys, þó annað megi virðast. Dásamlegt engu að síður.

Here’s Looking at You, Laddi!

Hin óborganlega Elsa Lund, ein af mörgum persónum sem okkar ástsæli Laddi hefur skapað, er flestum kunn og hefur lengi glatt sjónvarpsáhorfendur. Elsa Lund sást nú síðast í sjónvarpsþáttunum Verbúðinni, þá leikin af Birni Stefánssyni. Færri vita eflaust að hún Elsa Lund á (næstum) alnöfnu á hvíta tjaldinu en í einni frægustu mynd allra tíma Casablanca er aðal kvenpersónan hin norska Ilse Lund Laszlo, leikin af Ingrid Bergman. Tilviljun eða …?

Hér er Elsa Lund með sínum góða vini, Hemma Gunn. á góðri stund.

Djassgeggjarar

Kvikmyndin La La Land frá árinu 2016 er óður leikstjórans Damien Chazelle til gömlu dans- og söngvamyndanna. Myndin fékk fádæma góðar viðtökur og hreinlega sópaði að sér verðlaunum, hlaut til að mynda sjö Golden Globe-verðlaun, fimm BAFTA-verðlaun og sex Óskarsverðlaun. La La Land fjallar um djasspíanistann Sebastian (Ryan Gosling) og ungu leikkonuna Miu (Emma Stone) sem búa í Los Angeles. Ryan Gosling átti það sameiginlegt með Dooley Wilson í kvikmyndinni Casablanca að fá það verkefni að leika píanóleikara en kunna ekki að spila á píanó. Meðan Dooley greip til látbragðsins greip Gosling til sinna ráða og fór þess á leit við framleiðendur myndarinnar að hann myndi læra að spila djasslögin í myndinni. Í þrjá mánuði æfði hann stíft undir leiðsögn og útkoman varð svona glimrandi fín

Ég er faðir þinn

Star Wars-kvikmyndasería George Lucas telur alls sex myndir og var sú fyrsta frumsýnd árið 1977, en það var myndin Star Wars Episode Iv: A New Hope. Þriðja myndin Star Wars: The Empire Strikes Back var frumsýnd árið 1980 og þykir mörgum að þessar tvær séu bestu myndirnar í seríunni. Það er í The Empire Strikes Back að Darth Vader (rödd James Earl Jones) segir þá frægu setningu: „Ég er faðir þinn.“ Óborganlegur undrunarsvipurinn sem kemur á andlit Mark Hamill er ósvikinn, því hann hafði fengið handrit þar sem Darth Vader átti að segja eitthvað allt annað.

Síðasta ástarjátningin?

George Lucas þykir snjall handritshöfundur þegar kemur að byggingu handrits en samtöl eru ekki hans sterka hlið. Og ekki er þess að vænta að þau batni þegar leikararnir eru orðnir þreyttar eftir langan tökudag, eða hvað? Sem dæmi má nefna eitt frægt atriði í The Empire Strikes Back þegar Darth Vader og hans kónar eru að fara að frysta Han Solo (Harrison Ford) lifandi í kolefni, þá stynur Leia Organa (Carrie Fisher) örvæntingarfull upp: „Ég elska þig.“ Han Solo átti þá samkvæmt handritinu að svara á rómantískan hátt: „Og ég elska þig.“ Harrison var hins vegar orðinn eitthvað þreyttur og leiður á tökum og svarar þess í stað með þessari ódauðlegu setningu: „Ég veit.“

Fagmaður fram í fingurgóma

Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir á nánast hverju sem er en flestir geta verið sammála um að Leonardo DiCaprio er góður leikari. Sem dæmi um snilldarleik DiCaprios má nefna atriði í kvikmynd Quentin Tarantino, Django Unchained, frá árinu 2012, þegar hinn illgjarni Calvin Candie, persónan sem DiCaprio leikur, slær harkalega í borðið, orðum sínum til áherslu, en svo illa vill til að höndin lendir á sérríglasi. Við þetta brotnar glasið og DiCaprio skerst frekar illa í lófanum. Fagmaðurinn lætur hins vegar eins og ekkert sé og heldur áfram að leika atriðið. Tarantino var svo hrifinn af leiknum að atriðið var ekki tekið upp aftur.