Rafhlaupahjólin geta farið í 25 km hraða og þess vegna þarf að sýna sérstaka gát þegar ekið er á gangstígum. Margir gangandi vegfarendur telja sig vera í hættu þegar þeir mæta slíku farartæki. Rafhlaupahjólin, eða rafskútur öðru nafni, lúta sömu reglum og reiðhjól hvað varðar öryggisbúnað og rétt er að benda á að allir undir sextán ára aldri eiga að nota hjálm. Þegar hjólað er á gangstéttum og gangstígum skal það gert með því skilyrði að það valdi ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Gangandi vegfarendur eiga forgang og hjólandi þurfa að taka tillit til þess, ekki síst hvað hraða varðar. Almennt ættu allir vegfarendur að halda sig hægra megin og taka fram úr vinstra megin. Þar sem merki aðgreina umferð gangandi annars vegar og hjólandi hins vegar skal virða þau og vera þeim megin sem reiðhjól skulu vera. Hjólandi þurfa að hafa í huga að gangandi vegfarendur búast ekki við hröðum og skyndilegum framúrakstri á stígnum. Því er mikilvægt að hjólandi hægi vel á sér og gefi hljóðmerki tímanlega áður en komið er að viðkomandi eða áður en komið er að blindhorni eða beygju, að því er segir að vef Samgöngustofu.

Gott fyrir loftslagið

Rafhlaupahjólið er loftlagsvænn fararskjóti og getur í sumum tilfellum komið í stað bifreiðar á milli heimilis og vinnu. Þessi hjól hafa náð miklum vinsældum í nokkrum borgum og eru orðin að almennum samgöngumáta. Má þar nefna Kaupmannahöfn, Dallas, Los Angeles, Malaga, París, Stokkhólm, Vín og Zürich. Á flestum þessum stöðum eru rafhlaupahjól lögð að jöfnu við reiðhjól í lögum. Þá hefur leigusölum á rafhlaupahjólum fjölgað mikið. Sumir vilja þó meina að mikil hætta skapist af þessum farartækjum og slys hafa aukist töluvert bæði hjá þeim sem eru á hjólunum og gangandi vegfarendum. Til að koma á móts við þessa tegund fararskjóta þarf að fjölga hjólastígum og grænum svæðum, að því er norski vísindamaðurinn Stefan Gössling segir í samtali við forskning.no. Óslóarbúar eyða um það bil 145 klukkustundum í umferðarteppum á hverjum ársfjórðungi þrátt fyrir að ferðalengd þeirra sé einungis um 5 km.

Hjólin hér og þar

Það hefur borið við að fólk hafi breytt hraðastillingum á rafhlaupahjólum en lögreglan í Noregi stöðvaði mann sem ók á göngustíg á 99 km hraða. Hjólið var ólöglegt. Slíkir menn setja sjálfa sig og aðra í mikla hættu. Slík umræða hefur skapað mikla reiði og pirring gagnvart fólki á rafhlaupahjólum. Einnig hefur fólk gagnrýnt harkalega hvernig leiguhjólin séu skilin eftir hér og þar á gangstígum. Gangandi vegfarendur hafa stundum í bræði sinni sparkað í hjólin og eyðilagt þau, að því er segir á forskning.no.

Í spænskum borgum hafa borgaryfirvöld óskað eftir lögum um hraðatakmarkanir á gangstéttum. Að sögn Stefans væri mjög til bóta ef rafhlaupahjól yrði bönnuð annars staðar en á hjólastígum. Þá er nauðsynlegt að hafa hraðatakmörkun á þessum hjólum.

Næturslys algeng

Nýlega birtist frétt á norska fréttamiðlinum VG um næturslys á rafhjólaskútum. Ungt fólk sem er að koma af næturklúbbum velur að leigja rafhlaupahjól til að komast heim í stað leigubíls. Sérstaklega hefur þetta aukist á björtum sumarnóttum. Hins vegar er stórhættulegt að aka rafhlaupahjólum undir áhrifum áfengis. Rannsókn á bráðavaktinni í Ósló bendir til þess að 41% slysa á rafhlaupahjólum gerist að nóttu. Í annarri könnun sem gerð var af Samgöngustofu þar í landi kom fram að einn af hverjum fjórum sem spurðir voru hafði farið um á rafskútu undir áhrifum. Kallað er eftir reglum sem banna notkun áfengis undir stýri á rafhlaupahjóli. Auk þess er lagt til að leigutími á þessum farartækjum verði einungis yfir daginn. Í Þrándheimi má aðeins leigja út rafskútur á tímanum 6-24.

Herða þarf reglur

Umræðan um hertar reglur er komin á borð samgönguráðherra Noregs sem sagði við norska ríkismiðilinn NRK að strangari reglna væri þörf fyrir rafskútur. Komið hefur til tals að banna rafmagnsreiðhjól og rafknúin hlaupahjól á gangstéttum og göngugötum.

Í Danmörku hefur verið rætt um að setja hjálmaskyldu á alla sem ferðast um á rafknúnum reiðhjólum og hlaupahjólum. Þá verður aldurstakmark 15 ára. Þeir sem aka undir áhrifum í Danmörku ættu að fá sömu refsingu og þeir sem aka bifreiðum með alkóhól í líkamanum, samkvæmt nýjum reglum. Bannað verður að taka farþega á hjólin. Þá verður einnig gert að skyldu að leggja hjólunum á ákveðnum merktum stöðum en það verði bannað á víðavangi, auk þess sem leigusali skal vera tryggður.