„Við byrjuðum að vinna saman fyrir um 2-3 árum en mig hefur alltaf dreymt um að geta boðið upp á samfellda hönnunar- og framkvæmdaþjónustu. Ég vísa verkefninu á Garðaþjónustuna þína og ef samningar nást þá fylgja vikulegar heimsóknir hönnuðar á verkstað,“ segir Björn.

Þegar kemur að hellulögnum, hvort sem verið er að endurnýja svæði eða teikna upp nýtt, hvað er það helst sem þarf að hafa í huga?

„Það er náttúrulega ótal margt og miklu meira en hægt er að telja upp í stuttu viðtali,“ segir Hörður en bætir við að með góðu samstarfi við hönnuð og verktaka leysist mörg mál af sjálfu sér. „Ég hef gjarnan bent á bloggin hans Björns, til að mynda „Hvað kostar garður?“, en þá má átta sig á hvað gæti verið innan þolanlegs kostnaðarramma áður en farið er af stað.“

„Lykilatriðið er samt ávallt að fallegt samspil sé milli húss, hellulagnar, gróðurs, girðinga og annarra mannvirkja í garðinum,“ segja Björn og Hörður.

Form, litir og áferð

Fjölmörg form, litir og áferð eru í boði þegar kemur að því að velja hellur. „Það er alltaf skemmtilegt að vinna með mismunandi form, liti og áferð. Ef mikið er um að vera annað í garðinum þá er helluvalið gjarnan einfalt, þar sem aðeins er gerður smá greinarmunur á mismunandi svæðum. Í þessum garði hér erum við með flísahellur á dvalarsvæðinu fyrir framan, 30x40 hellur á gönguleiðum og svo stiklur í möl á svæðinu sem grípur kvöldsólina. Lykilatriðið er samt ávallt að fallegt samspil sé milli húss, hellulagnar, gróðurs, girðinga og annarra mannvirkja í garðinum,“ segir Björn. Undirlagið skiptir öllu máli. „Að það sé nægilega þykkt til þess að ekki verði frostlyfting, að það sé vel þjappað og að sléttunin sé þannig að vatn renni rétt af hellulögninni. Aðrir þættir sem einnig eru mikilvægir eru frágangur á köntum, sögun og söndun í fúgur,“ segir Hörður.

Í þessum garði eru Megastep frá Steypustöðinni sem líkir ef granítþrepum sem algeng eru í Evrópu.

Lausnir sem gefa frelsi í hönnun

Þegar kemur að því að vera með tröppur, eru til margar lausnir í þeim efnum?

„Í þessum garði erum við með Megastep frá Steypustöðinni sem líkir eftir granítþrepum sem algeng eru í Evrópu. Þessi þrep má útfæra á ýmsan hátt. Mér finnst yfirleitt skemmtilegast að nota lausnir sem gefa mér smá frelsi í hönnun eins og þessi lausn og Tröllakantur. Ef það á að vera hitalögn í þrepum þarf að nota forsteyptar þrepeiningar en í löngum og beinum stigum eru þær mjög snyrtilegar,“ segir Björn.

Margir möguleikar eru líka í boði þegar kemur að því að setja upp kantsteina og beð og hægt er að velja bæði hellur og grjót í slíkar framkvæmdir. „Þetta fer alltaf eftir verkefninu. Það eru til ótal tegundir af hellum og því auðvelt að velja hellur sem hæfa hverju verkefni. Ef við erum að vinna við hlið ósnortinnar náttúru, eins og holtalandslagsins á höfuðborgarsvæðinu, þá geta grjót, mosi og villtur gróður komið sterkt inn með náttúrulega útlítandi hellum.“

Hér eru flísahellur á dvalarsvæðinu fyrir framan, 30x40 hellur á gönguleiðum og svo stiklur í möl á svæðinu sem grípur kvöldsólina.

Hellur öruggari þegar nota á eld

Þegar kemur að því að gera pall, hver er kosturinn við að vera með hellur umfram timburpall?

„Það eru kostir og gallar við öll efnin sem við notum, timbur, hellur, flísar og steypu.

Hellur endast gjarnan mjög vel og ef eitthvað kemur upp á eins og ófyrirséð sig eða jarðskjálfti þá er auðvelt að laga þær. Helsta viðhald við hellulögn er að hreinsa og endursanda fúgur en því stærri sem hellurnar eru, því færri lengdarmetrar í fúgum.

Hellur eru einnig öruggara efni þar sem verið er að nota eld, til dæmis í kolagrilli eða eldstæði. En eins og sést svo vel í þessum garði þá vil ég helst nýta kosti hvers efnis á þeim stað þar sem það á við,“ segir Björn.

Hellulögn er ekki tímafrek og það tekur í raun ótrúlega stuttan tíma að helluleggja.

„Hellulögn er ein af fljótlegustu garðframkvæmdunum og tiltölulega lítið háð veðri. Til dæmis ef allt er klárt fyrir bílaplan má jarðvegsskipta, leggja hitalögn og helluleggja á 1-2 vikum. Hins vegar geta þrep, girðingar og ýmislegt annað sem þarf að vinnast á sama tíma aukið flækjustigið og teygt úr verkefninu,“ segir Hörður.

„Það eru bara alltaf sömu skilaboðin út í kosmóið: Gefa sér góðan tíma í hönnun og að finna verktaka því þessir bestu eru gjarnan vel bókaðir á vorin og sumrin. Því borgar sig að setja sig í samband við hönnuð sem fyrst til að komast í röðina. Svo er hægt að teikna um haust og vetur og fá svo tilboð frá verktaka í beinu framhaldi til að vinna verkið næsta vor og sumar,“ segja félagarnir að lokum brosandi.