„Í guðanna bænum; ekki gefa mér bækur í jólagjöf! Ég er þegar búinn að lesa tugi bóka úr jólaútgáfunni nú og fæ sendar til mín nær allar bækur sem koma út á Íslandi,“ segir sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason og hlær.

Hann hugsar sig svo um og segir:

„Jú, annars! Mig langar í eina bók í jólagjöf. Það er erlend bók eftir Paul McCartney um textagerð hans og Bítlanna. Hún er víst ótrúlega falleg og glæsilegur hönnunargripur. Mig langar í bókina hans Pauls, enda verið Bítlaaðdáandi frá því ég var þriggja ára.“

Spennustig í hæstu hæðum

Egill er hreinskilinn og segir desember tíma mikils áreitis sem sé ekki alltaf skemmtilegt.

„Þá er spennustigið í bókabransanum í hæstu hæðum og margir orðnir taugaspenntir, vilja komast í Kiljuna fyrir jól og eru jafnvel óánægðir með gagnrýni. Ég vil auðvitað allt fyrir alla gera en hef takmarkað pláss og get ekki sinnt öllum þótt ég glaður vildi. Ég þarf því að velja og hafna, sem getur verið hræðilega vont og valdið mér ansi mikilli vanlíðan, því ég vil helst veg allra sem mestan og tel mig vera velviljaðan. Það getur tekið á að velja hvað kemst að og hvað ekki. Að þessu leyti er dagurinn í dag ekkert sérlega góður,“ segir Egill, sem reynir að lesa sem flestar bækur sem er fjallað um í sjónvarpsþætti hans, Kiljunni á RÚV.

„Ég er frekar fljótur að lesa og hef verið bókhneigður frá því ég var lítill strákur. Þá las ég heilu deildirnar í Borgarbókasafninu og var líka íþróttastrákur, en gerði þetta jöfnum höndum. Ég hef alla tíð verið mikið í kringum bækur og get til dæmis ekki sofnað á kvöldin nema að lesa fyrst. Ég er líka orðinn það gamall að ég sef ekki lengur í striklotu og vakna um nætur en gríp þá bók til að sofna aftur,“ segir Egill og er spurður hvort hann hafi þá svæfandi bókmenntir tiltækar á náttborðinu.

„Það er ýmist, en nú les ég bækur um býsanska ríkið á nóttunni. Það er gömul sagnfræði sem lætur mig sofna fljótt, þó ekki af leiðindum; það er fremur að ég svífi aftur í draumheima. Ég les mikið mér til gamans, og miklu meira en það sem ég les fyrir Kiljuna. Ég les fagurbókmenntir og reyni að fylgjast með því sem gerist í samtímanum en er kannski ekki alveg nógu góður í að fylgjast með því sem gerist erlendis í fagurbókmenntum. Sagnfræði höfðar líka mikið til mín og njósnasögur, sem mér þykir besta afþreyingin, sérstaklega ef þær gerast í kalda stríðinu.“

Í æsku voru Dagfinnur dýralæknir og Múmínálfarnir í miklum metum hjá Agli.

„Í uppáhaldi voru líka bækurnar um Gvend Jóns eftir Hendrik Ottósson, sögur úr Vesturbænum. Ég hef reynt að passa upp á þessar bækur, þótt aðrar hverfi.”

Bókagagnrýni er nauðsynleg

Egill segist ekki fá neitt út úr því að bók fái vonda gagnrýni í Kiljunni.

„Það getur vel verið að ég hafi verið illkvittnari á árum áður, en í dag finnst mér leiðinlegt ef bók fær slaka gagnrýni. Í þættinum eru sjálfstæðir bókagagnrýnendur sem ég hef engin áhrif á og hef ekki hugmynd um hvað þau ætla að segja fyrr en fimm mínútum fyrir þátt. Ég treysti þeim vel og finnst mikilvægt að hafa fast gagnrýnendateymi í þáttunum svo áhorfendur kynnist þeim vel, mismunandi áherslum þeirra og smekk. Sjálfum finnst mér miklu skemmtilegra að tala vel en illa um bækur. Það kemur fyrir að við teljum bækur svo klénar að þær verðskuldi ekki gagnrýni, það sé betra að fjalla ekki um þær en að hakka þær í spað. Í mínum huga á þetta að vera uppbyggilegur þáttur.“

Egill þvertekur fyrir að bókagagnrýni sé tímaskekkja.

„Þvert á móti er gagnrýni bóka nauðsynleg og listir þrífast illa ef ekki er gagnrýnin umræða um þær. Fólk verður svo að gera upp við sjálft sig hvort það taki mark á bókagagnrýni. Það er mikilvægt að hafa fasta gagnrýnendur – því miður hefur þeim fækkað í seinni tíð og það er ekki gott fyrir bókmenntirnar. Eins og ég sagði er gott að bæði höfundar og lesendur læri aðeins inn á gagnrýnendurna, þeir eru auðvitað ekki óskeikulir fremur en rithöfundarnir. Þannig hef ég verið með sömu gagnrýnendurna í Kiljunni um langt skeið, þótt nýir hafi líka bæst við reglulega,“ segir Egill.

„Þannig er dýnamíkin í þessu. Ég er þáttastjórnandinn og tek oft ekki sterka afstöðu til bóka, þótt gagnrýnendurnir geri það. En mér finnst mikilvægt að mæta vel undirbúinn í þættina og fjalla helst ekki um bækur nema hafa lesið þær. Annað er vanvirðing við höfunda sem hafa kannski setið sveittir við skriftir í mörg ár en mæta svo karli í sjónvarpinu sem rífur plastið utan af bókinni og byrjar að rausa um hana. Slíkt er ekki sæmandi svo virðulegum bókmenntaþætti í Ríkissjónvarpinu.“

Af heilindum og bestu samvisku

Kiljan hefur nú verið á dagskrá í fimmtán ár.

„Það er óvenjulegt að menningarþáttur lifi svo lengi,“ segir Egill. „Frá minni hálfu hefur þátturinn alltaf átt að vera alþýðlegur og aðgengilegur, því mér finnst mjög fagleg bókmenntafræðiumræða ekki eiga heima þarna. Þetta er þáttur fyrir alla landsmenn og á förnum vegi fæ ég mikil viðbrögð frá fólki sem gefur sig á tal við mig. Stundum er það fólk sem les lítið af bókum en horfir nú samt og það er gaman ef fólk ber sig eftir bókum og lestri í kjölfar Kiljunnar. Svo á ég minn dygga áhorfendahóp sem les mikið og er að meirihluta konur, enda sýna kannanir að þær lesa meira en karlar.“

Egill á von á því að Kiljan verði áfram á dagskrá næstu árin, enda þykir honum afar skemmtilegt að vinna að þættinum.

„Svo þurfa aðrir að dæma um hvort þeir séu orðnir leiðir á mér. Ég reyni að sýna sanngirni og meta efnistökin út frá gæðum bóka. Gagnrýni er mikilvæg, eins og ég sagði áður, en maður þarf að stunda hana af heilindum og bestu samvisku og það held ég að okkur hafi tekist í gegnum árin. Heimur gagnrýnenda er mörgum hulinn. Þetta er harðduglegt fólk sem oftast stundar aðra vinnu líka en eyðir öllum kvöldum í að lesa bækur, brjóta þær til mergjar og mynda sér skoðanir, en bakar sér oft ekki annað en óvinsældir og hatur. Bókagagnrýnandi sem segir skoðun sína verður því ekki endilega vinsæll og getur fengið það óþvegið á móti.“

Hægt að bíða tjón af því að lesa

Egill kallar eftir stærri vettvangi fyrir bókaumfjallanir.

„Eins og staðan er núna drottnar Kiljan dálítið yfir þessu umhverfi og ég vildi óska að bókagagnrýni væri meira lifandi í öðrum fjölmiðlum. Okkur vantar meiri umfjallanir. Það er eitthvað af henni í Fréttablaðinu og Mogganum en það er skortur á öflugri bókagagnrýni með þekktum gagnrýnendum sem eru vandir að virðingu sinni, eins og áður tíðkaðist á blöðum þegar fólk þekkti gagnrýnendurna og ýmist þoldi þá ekki eða dýrkaði. Ég hefði gaman af samspili við fleiri fjölmiðla og fólk, en því miður eru blöðin orðin svo veikburða að þau geta ekki haldið uppi bókaumfjöllunum nema í litlum mæli. Vefmiðlarnir virðast svo ekki telja arðvænlegt að halda úti listgagnrýni – þeir eru þó fjölmiðlarnir sem við notum mest. Mér finnst reyndar brýnt að taka upp áskriftarkerfi á íslensku vefmiðlunum.“

Besta bók sem Egill hefur lesið um dagana er Moby Dick eftir Herman Melville.

„Af íslenskum bókum er það náttúrlega eitthvað eftir Kiljan. Ég var alinn upp við bækur Nóbelsskáldsins og las ungur hvert einasta snifsi sem Halldór Laxness hafði skrifað á. Á þeim árum var gert ráð fyrir að maður læsi Laxness og manni fannst maður ólesinn ef maður hafði ekki þrælast í gegnum allar stóru bækurnar hans. Nú er sonur minn að lesa Sjálfstætt fólk í skólanum og þykir hún flott en heldur langdregin á köflum. Það sem var kanóna og skyldulestur fyrir þrjátíu árum, er það ekki endilega lengur. Það er heldur ekki alltaf gott að bækur séu lesnar í skólunum og alveg hægt að bíða tjón af því, eins og til dæmis að þræla sér í gegnum leiðinlegustu kaflana í Njálu,“ segir Egill og hlær við.