Á Borgarbókasöfnunum í Reykjavík eru reglulega haldnar svokallaðar smiðjur. Smiðjurnar eru ókeypis námskeið þar sem hægt er að læra allt frá barmmerkjagerð upp í forritun og tónlistarsköpun.

Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, verkefnastjóri barnastarfs hjá Borgarbókasafninu, segir dagskrá bókasafnanna mjög fjölbreytta og alltaf ókeypis.

„Smiðjurnar eru mjög fjölbreyttar. Sumar þeirra henta fyrir fjölskyldur til að koma og búa eitthvað til saman en svo erum við líka með smiðjur sem við miðum við sérstaka aldurshópa. Þá eru börnin að koma sjálf, til dæmis í ritsmiðjur eða tónlistarsmiðjur eða til að skapa eitthvað annað skemmtilegt,“ segir hún.

Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, verkefnastjóri barnastarfs hjá Borgarbókasafninu.

Ingibjörg segir að fólki með sérþekkingu sé velkomið að hafa samband hafi það áhuga á að halda smiðju.

„Við erum opin fyrir ýmsum möguleikum. Við leggjum mikla áherslu á að vera í samtali við borgarana og höfum fengið mikið af alls kyns listafólki til okkar sem hefur haldið smiðjur hjá okkur. Við erum alltaf á höttunum eftir hæfileikaríku fólki,“ segir hún.

Ingibjörg segir smiðjurnar snúast um að búa eitthvað til og nýta bókasöfnin sem skapandi vettvang. Á bókasöfnunum er góð aðstaða fyrir smiðjurnar en það er nýjung að þar eru verkstæði sem fólk getur nýtt sér við sköpun.

„Fyrsta verkstæðið byrjaði í Gerðubergi. Þar erum við með það sem við köllum fiktverkstæði. Þar eru alls konar minni hlutir sem hægt er að prófa eins og barmmerkjavél, vínilskeri, þrívíddarprentari og fleira,“ útskýrir hún.

„Í Grófinni leggjum við áherslu á tónlist og myndvinnslu. Við erum með Mac-tölvur sem eru búnar tónlistarforritum og myndvinnsluforritum. Fólk getur pantað tíma og fengið aðgang að verkstæðinu.“

Á bókasafninu í Árbæ eru saumavélar og overlock-vélar. Tveir starfsmenn safnsins sem eru klæðskerar mæta alltaf fyrsta mánudag í mánuði og aðstoða fólk við vélarnar og saumaskapinn. Fjórða verkstæðið er svo í Úlfarsárdal, nýjasta safninu sem var opnað í desember. Þar er upptökustúdíó með öllum græjum til að taka upp tónlist.

„Það er hugsjón bókasafnanna að veita almenningi aðgang að tækjum og tólum sem hann getur ekki haft heima hjá sér. Fyrst var hugsunin að veita aðgang að bókum en núna veitum við líka aðgang að græjum og aðstöðu sem fólk hefur oft ekki efni á að kaupa. Við erum að jafna aðstöðumuninn með því að veita aðgengi að þessum tækjum og tólum,“ útskýrir Ingibjörg.

Bókasafnsráðgátan leyst í Gerðubergi.

Kennslumyndbönd á íslensku

Önnur nýjung hjá Borgarbókasafninu er Fiktvarpið. Á síðasta ári þegar margir unnu heima og börnin voru mikið frá skóla vegna Covid fór starfsfólk bókasafnsins að prófa sig áfram með að búa til alls kyns kennslumyndbönd.

„Þetta eru myndbönd þar sem við kennum ýmislegt sem hægt er að fikta með og prófa að gera heima. Fólk þekkir alls kyns kennslumyndbönd af YouTube en þau eru þá oftast á ensku. Þannig að við fórum að búa til leiðbeiningar um hitt og þetta á íslensku,“ segir Ingibjörg en myndböndin má finna á vefsíðu Borgarbókasafnsins borgarbokasafn.is.

Að lokum vill Ingibjörg minna á bókasafnsráðgátuna í Gerðubergi. Þar geta hópar og fjölskyldur bókað tíma til að leysa ráðgáður.

„Þetta er svipað og flóttaherbergi þar sem eru vísbendingar um hvernig á að komast út. Þarna eru vísbendingar um hvernig á að leysa ráðgáturnar. Þetta er sýning með leikjaelementi. Við hvetjum alla til að bóka sig í bókasafnsráðgátuna,“ segir hún.

Á vefsíðu Borgarbókasafnsins má finna upplýsingar um alla viðburði safnsins og þar er hægt að sjá hvaða smiðjur eru í gangi hverju sinni. Einnig er hægt að finna upplýsingar um þær á Facebook-síðu bókasafnsins og á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Ingibjörg segir að einnig sé hægt að gerast áskrifandi að fréttabréfi bókasafnsins til að missa ekki af því sem er að gerast á söfnunum.