Kvikmyndir

Malignant

Leikstjórn: James Wan

Aðalhlutverk: Annabelle Wallis, Maddie Hasson, Michole Briana White, George Young


Hryllingur er vitaskuld dásamleg kvikmyndagrein og óumdeild andleg heilsubót samkvæmt margreyndu læknisráði og sígildri kenningu Aristótelesar um kaþarsis. Verstur andskotinn bara að hugmyndafræðilegt svigrúm hryllingsmyndanna er svo þröngt að frumleikinn líður fyrir að endalaust er hægt að vekja ótta, spennu og viðbjóð með því að spila á frumstæðustu hvatir okkar með eilífri endurtekningu hins sama.

Litlu verður því blóðþyrstur Vöggur feginn, þannig að ekki er annað hægt en að taka þessu nýjasta og frumlegasta útspili hrollvekjupáfans James Wan í háa herrans tíð, vægast sagt fagnandi.

Wan gerði verðskuldað stormandi lukku fyrir sautján árum með Saw og hefur allar götur síðan verið aðalgæinn í meginstraumshryllingnum. Saw, eins ferlega góð og hún er, gat að sjálfsögðu af sér nýjan hryllingsmyndabálk sem útvatnaðist hratt og örugglega, eins og gengur og gerist í þessari deild, með endalausri halarófu framhaldsmynda sem fóru stigversnandi og náðu nýlega síðasta lágpunkti með hinni fádæma lélegu Spiral: From the Book of Saw.

Eftir að hafa sveiflað söginni með stæl hnyklaði Wan vöðvana með upphafsmyndum bálkanna sem kenndir eru við The Conjuring og Insidious sem fóru ágætlega af stað en hafa, samkvæmt náttúrulögmálinu, myglað hratt og örugglega.

Breytir þó litlu um að með Malignant sýnir Wan og sannar hressilega að enn má treysta á hann í þessum efnum. Auðvitað er hann ekkert að finna upp hryllingshjólið, en galsinn í þessu drama um illkynja óféti, sem gengur berserksgang eftir að hafa verið fjarlægt með afdrifaríkri skurðaðgerð, er bara svo fjandi galsafengið að úr verður óvenjugóð hryllingsskemmtun.

Þá má Freddy heitinn Krueger heldur betur snúa sér í öskustónni ef þetta nýjasta illfygli úr smiðju Wans, með stolna hárkollu úr Ringu, mun ekki snúa ítrekað aftur í efnilegum en um leið bráðfeigum, nýjum myndabálki. Skepnan sú hefur alla burði til þess og vel það.

Madison býr í gotnesku húsi þar sem áfall og ofbeldisverk virðast leysa illan anda úr læðingi með tilheyrandi djöfulgangi sem vont er að eiga við.

Annars segir hér af henni Madison sem, að því er virðist, upp úr þurru byrjar að þróa með sér svefnrofalömun sem er þeim annmörkum háð að lömuð af ótta sér hún fyrir sér subbuleg morð sem síðan reynast bara mjög svo raunveruleg.

Skýringuna á þessum leiðindum er að finna í skuggalegri fortíð hennar og þótt allur málatilbúnaður gegn henni og í kringum morðin sé algerlega út í hött þá tekst Wan að stilla þessu þannig upp að maður gengur ruglaðri sögunni á vald strax í upphafi.

Djöflasýrunni pakkar hann svo smekklega í stíliseraðan 80‘s-búning sem hann skreytir vísunum í sígildar myndir á borð við Poltergeist og Carrie. Malignant er þar fyrir utan merkilega lítið ógeðsleg, en vinnur það upp og rúmlega það með góðum húmor og sturluðum hasaratriðum sem fengin eru að láni úr The Terminator, þannig að úr verður staðlaður en samt brakandi ferskur hrollur sem kallar frekar fram hlátur en gæsahúð. Vel gert!

Niðurstaða: Klikkuð og kleyfhuga hryllingsmynd sem tekst ítrekað að koma skemmtilega á óvart þegar hún lætur öllum illum látum og fer út og suður innan staðlaðs hryllingsmyndarammans með hæfilegum slettum af hasar og gríni.