Þær Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir, fatahönnuður og listakona og Helga R. Mogensen skartgripahönnuður eru skipuleggjendur markaðarins.

„Við erum að gera þetta í fyrsta sinn núna í sumar. Við ákváðum að gera þetta út af COVID, til að sýna samstöðu. Fólk er ekki að borga fyrir þátttöku og við borgum engum heldur. Við erum bara að búa til aðstöðu svo fólk geti náð sér í nokkra þúsundkalla,“ segir Helga.

Hún segir að markaðurinn hafi verið vel sóttur þegar hann var haldinn í júní, en það stefnir í mun meiri þátttöku á laugardaginn.

Birta Hallsteins í hönnun frá Ásta creative clothes. MYND/LISA TOWN

„Við ákváðum að hafa ekkert þak á fjölda þátttakenda. Við erum að fá allan skalann af fólki að selja á markaðnum. Við erum til dæmis að fá mikið af fólki af erlendu bergi brotið sem býr hérna og er að selja sína vöru. Það er skemmtilegt að fá þann markað inn. Þetta eru alls kyns hönnuðir og listafólk að selja sínar vörur. Hægt verður að kaupa, slæður, töskur, föt, mikið af fylgihlutum, keramik og það kemur tónlistarmaður sem ætlar að selja diska, svo verður matur líka,“ segir Helga um fjölbreytnina sem verður í boði á laugardaginn.

Listafólkið skráir sig til þátttöku og kemur með sín eigin borð og vörur á staðinn og eins og áður segir þá borgar það ekkert fyrir bás.

Anna Rut Steinsson hannaði þessar fallegu flíkur, en hönnun hennar verður til sölu á markaðnum.

„Við erum að sjá fullt af nýjum andlitum sem hafa kannski verið að vinna mikið en ekki að sýna. Þau vilja kannski tengjast einhverjum hóp og fá tækifæri til að selja vöruna sína.“

Það verða föt á markaðnum til sölu frá fjórum mismunandi merkjum. Ásta Guðmundsdóttir, annar skipuleggjandi markaðarins, er fatahönnuður og verður með sína vöru frá astacreativeclothes, einnig verður Svartbysvart með bás, GJÓLA og Anna Rut Steinsson.

Helga segist búast við góðri stemmningu á markaðnum. Þær fengu styrk frá verkefninu Sumarborgin 2020 sem Reykjavíkurborg stendur fyrir og fyrir þá peninga var leigt veislutjald svo það ætti ekki að koma að sök ef það skyldi rigna á laugardaginn.

Þessi skemmtilegu föt eru frá merkinu Svartbysvart sem verður með bás á Portmarkaðnum.

„Það verður lifandi tónlist á staðnum. Unnur Sara Eldjárn spilar frá kl. 14:00 -16:00. Hún var líka á síðasta markaði og hún setti alveg andrúmsloftið. Það verður æðislegt að hafa hana með.“

Portmarkaðurinn er haldinn í portinu á bak við Kirsuberjatréð, sem stendur við Vesturgötu 4. Hann er haldinn þrjá laugardaga í sumar, síðast var hann haldin 13. júní, næsti markaður verður eins og áður sagði á laugardaginn þann 18. júlí, hann hefst klukkan 12:00 og honum lýkur klukkan 17:00. Síðasti markaður sumarsins verður svo laugardaginn 22. ágúst.

Þessi fallega rauða blússa er eftir fatahönnuðinn Gerðu Jónu Ólafsdóttur sem hannar undir merkinu GJÓLA. Verður kannski til sölu á markaðnum.