Birgir Ómarsson, formaður Íslenska frisbígolfsambandsins, kynntist frisbígolfi í Bandaríkjunum á yngri árum. „Ég var í námi í grafískri hönnun í Bandaríkjunum árið 1995 og þar var íþróttin kynnt fyrir mér,“ segir hann. „Svo þegar ég flutti heim árið 1998 komst ég að því að það var enginn frisbígolfvöllur á Íslandi svo mig langaði að bæta úr því. Í gegnum tengsl við skátahreyfinguna tókst mér svo að fá fyrsta völlinn settan upp á Úlfljótsvatni árið 2003 og hægt og rólega hefur þeim fjölgað síðan.

Árið 2011 settum við upp völl á Klambratúni, þann fyrsta sem var í almenningsgarði og í alfaraleið. Það var sjötti völlurinn, en núna, 10 árum síðar, eru þeir orðnir 92. Þannig að þessi völlur opnaði þetta sport eiginlega alveg á Íslandi,“ segir Birgir. „Við erum með flesta velli í heimi miðað við höfðatölu og þetta er orðið ótrúlega vinsæl íþrótt. Gallup gerði könnun fyrir okkur í fyrra og þá kom í ljós að 55 þúsund Íslendingar höfðu prófað frisbígolf, sem er eiginlega alveg galið miðað við mannfjölda. Íþróttin er sérstaklega vinsæl í aldursflokknum 18 til 25 ára, en þar höfðu 52 prósent prófað þetta og hlutfallið var 45 prósent í aldursflokknum 18 til 35 ára. Það er gaman að sjá að unga fólkið hefur tekið ástfóstri við þetta.“

Einfalt, ódýrt og aðgengilegt

„Frisbígolf, eða folf, er ótrúlega skemmtilegur og einfaldur leikur. Nánast allir geta kastað frisbídisk og reglurnar eru einfaldar, en allir sem hafa farið í mínígolf þekkja þær,“ segir Birgir. „Þetta snýst bara um að fara brautina í sem fæstum köstum og í lokin þarf að hitta ofan í körfu. Fólk er mjög fljótt að ná tökum á þessu og það eina sem þarf er einn diskur.

Birgir segir að nokkurn veginn allir geti stundað frisbígolf að þetta sé einföld, þægileg og ódýr íþrótt. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Þetta er einfalt, ódýrt, diskurinn tekur lítið pláss og það kostar ekkert inn á vellina. Þetta er líka frábært fjölskyldusport og það er vinsælt á fjölskylduferðalögum að hafa disk í skottinu og koma við á völlunum,“ segir Birgir. „Þetta er ágæt hreyfing, það geta allir verið með og það er hægt að byrja á þessu á hvaða aldri sem er.“

Öflug þátttaka í öllum veðrum

Birgir hefur verið formaður Íslenska frísbígolfsambandsins frá því að það var stofnað árið 2005, en á þeim tíma hafa tíu frisbígolffélög verið stofnuð víða um land.

„Það hefur enginn annar sóst eftir embættinu og þess vegna hef ég setið áfram,“ segir hann. „Uppbyggingin hefur líka gengið mjög vel. Við höldum yfir 100 mót á hverju ári og hittumst þrisvar í viku og þátttakan er afar góð, meira að segja yfir veturinn. Það er gríðarlega öflugur hópur sem tekur þátt og lætur veðrið ekki aftra sér. Við höfum það sem mottó að fresta aldrei móti vegna veðurs og það er hægt að spila í öllum veðrum. Það þarf bara að nota sérstaka diska ef það er brjálað veður. Það er kannski meira gaman að spila í sumri og sól en það er líka mjög gaman í snjóbyl.“

Auðvelt að sannfæra bæjarfélög

Birgir segir að það sé gott fyrir íþróttina að hafa ákveðin formlegheit og það henti betur þegar Íslandsmótin eru haldin, en þau hafa verið á hverju ári.

„Það er líka einfaldara að vera tekinn alvarlega og fá fundi þegar ég hef samband við bæjarfélög sem formaður Íslenska frisbígolfsambandsins en bara Biggi frisbígolfáhugamaður úti í bæ. Ég hef stundum grínast með það að ég vinn í markaðsmálum sem grafískur hönnuður og að hlutverk mitt sem formaður sé í rauninni bara markaðssetning,“ segir hann. „En það að kynna frisbígolf er auðvitað bara frábært lýðheilsuverkefni og það er ekki erfitt að sannfæra bæjarfélög um að setja upp velli. Ég hef verið duglegur að banka upp á hjá þeim og mér hefur verið tekið mjög vel. Fyrir vikið hafa orðið til 10 til 15 nýir vellir á hverju ári síðustu 3 til 5 ár.

Öll bæjarfélög þurfa sundlaug, kirkjukór, gönguleiðir og annað til að fólki líði vel þar og fólk hefur séð að þetta er góð viðbót við flóruna,“ segir Birgir. „Frisbígolfvellir eru líka einfaldir og ódýrir og það þarf engar landbreytingar og það er lítið viðhald. Það kostar ekki nema 1,5 milljónir að setja upp völl, sem er mjög ódýrt í samhengi við mörg önnur verkefni bæjarfélaga. Svo er stór hópur sem getur notað þetta, allt árið um kring.

Það hefur líka orðið rosaleg heilsuvakning og mörg bæjarfélög eru skráð sem heilsueflandi bæjarfélög hjá Landlækni. Þá þarf að setja upp aðstöðu og um leið og þú setur hana upp kemur fólk og fer að nota hana,“ segir Birgir. „Covid hjálpaði líka mikið, það lokaði svo margt en það var enn hægt að fara út að leika sér og frisbígolf var eitt af því sem fólk gat haldið áfram að stunda, svo þá kynntust margir þessu.

Það er líka margt ungt fólk sem er hrifið af tölvuleikjum sem kann að meta frisbígolf og það að setja upp velli er eitt af því sem sveitarfélög hafa séð sem leið til að fá krakkana frá skjánum,“ segir Birgir. „Ef það er eitthvað skemmtilegt að gera, þá drífa þau sig út.

Birgir segir að það sé komið upp öflugt starf í kringum frisbígolf og að ungt fólk hafi tekið miklu ástfóstri við íþróttina. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Við höfum sett upp heilsársvelli á gervigrasi sem eru reistir upp svo þeir haldast þurrari í bleytu og standa upp úr klakanum á veturna, sem gerir upplifunina ánægjulegri. Við höfum líka verið að bæta vellina sem eru til staðar og í sumar opnuðum við einn flottasta völlinn á landinu í Grafarholti,“ segir Birgir. „Hann fór úr 9 brautum í 18 og var lagaður til, svo þetta er orðið glæsilegt mannvirki. Við settum líka upp „driving range“ þar sem fólk getur æft sig í að kasta á opnu svæði. Það er stanslaus traffík á þann völl og það er alltaf einhver að æfa sig þarna. Það sama gildir um alla vinsælu vellina, það er spilað á þeim frá morgni til kvöld á hverjum degi ársins.“

Öflugur hópur keppenda

„Íslandsmeistarinn okkar, Blær Örn Ásgeirsson, er ótrúlega frambærilegur á erlendum mælikvarða. Hann hefur unnið nokkur mót erlendis og um síðustu helgi var hann einmitt að spila á European Open, risastóru móti í Finnlandi. Hann er bara 19 ára og alltaf að bæta sig,“ segir Birgir. „Við erum líka með hóp annarra mjög öflugra spilara. Sem dæmi er einn 10 ára sem var að keppa á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum fyrir þremur vikum og hann vann lengdarkeppni í sínum flokki. Hann er gríðarlegt efni.

Ég held að það séu um 100 manns sem hafa farið út að keppa í sumar, þetta er ótrúlega öflugur hópur og það er mikill áhugi til staðar. Blær setur standardinn dálítið hérna heima, hann vinnur eiginlega öll mót sem hann tekur þátt í hérna heima, svo menn læra af honum og vilja bæta sig,“ segir Birgir. „Við verðum með Íslandsmót eftir mánuð og ég held að hann þurfi að hafa dálítið fyrir því að vinna núna í ár, það eru margir sem ætla sér að sigra.“

Efla starfið og vilja stórt mót

„Í framtíðinni ætlum við svo bara að þétta raðirnar og gera vellina betri og fleiri. Við erum með þrjá alvöru keppnisvelli og það er í kortunum að fjölga þeim,“ segir Birgir.

„Við erum líka spennt fyrir því að efla barna- og unglingastarfið. Við héldum Íslandsmót barna í fyrsta sinn í sumar og vorum með hátt í 40 keppendur,“ segir Birgir. „Við viljum líka efla kvennastarfið. Það eru tvær konur í fimm manna stjórn sambandsins og þær eru staðráðnar í að fjölga konunum í íþróttinni. Konur eru farnar að spila meira en keppa lítið.

Á næstu 2 til 3 árum langar okkur líka að halda stórt alþjóðlegt frisbígolfmót. Í síðustu viku hélt Ricky Wysocki námskeið, en hann er tvöfaldur heimsmeistari, og á föstudaginn kemur einn öflugasti og skemmtilegasti keppandinn, Eagle McMahon, í heimsókn. Þessir strákar eru að hjálpa okkur að undirbúa að halda stórt mót,“ segir Birgir. „Það eru líka miklir peningar í þessari íþrótt og ungu keppendurna okkar langar að geta lifað á þessu.“

Að lokum vill Birgir hvetja alla sem hafa ekki prófað frisbígolf til að drífa sig af stað. „Það þekkja orðið allir einhvern sem á diska og ég hvet alla að prófa og sjá hvort þetta sé ekki sport fyrir þau,“ segir hann. ■