Sumar og snjór

Það hefur snjóað hressilega í Drekagili að undanförnu, sem er heldur fjarstæðukennt svona að sumri til.

Það snjóar þó ekki bara í Drekagili á miðju sumri, heldur einnig í kvikmyndinni The Wizard of Oz (Galdrakarlinn í Oz), kvikmyndin hefur sér þó til afsökunar að tilheyra þeirri grein kvikmynda sem kallast fantasíur. En snjórinn fer að falla í því fræga atriði þegar Dorothy (Judy Garland) og vinir hennar ganga óvænt út á stórt blómaengi fyllt af valmúa, í leit sinni að galdrakarlinum.

Eins og við er að búast var það vonda nornin sem seitt hafði fram þennan eitraða akur, en mjólkursafi valmúans inniheldur efnið ópíum, sem meðal annars getur kallað fram svefn. Dorothy og ljónið, einu lífverurnar í hópnum, verða fyrir áhrifum eitursins og sofna á akrinum. Þá kemur góða nornin til hjálpar og kallar fram snjókomu til að hressa þau við og vekja og tekst það svona glimrandi vel.

Ekki var vitað um skaðsemi asbests þegar Galdrakarlinn í Oz var tekin upp.

Segir ekki meira af ferð þeirra félaga hér, hins vegar var þarna á ferðinni annað eitur og raunverulegt, því snjókornin voru gerð úr asbesti, því stórhættulega og krabbameinsvaldandi efni, en svona gervisnjókorn voru vinsæl á fjórða áratugnum og mikið notuð sem jólaskraut á heimilum.

Vinsælt, baneitrað jólaskraut í Bandaríkjunum á síðustu öld.

Notkun asbests var víðtæk, til að mynda sem byggingarefnis, en seinna kom í ljós hversu hættulegt það var heilsu fólks. The Wizard of Oz var frumsýnd 25. ágúst 1939, en hálf öld átti eftir að líða uns Umhverfisstofnun Bandaríkjanna bannaði notkun asbests endanlega, eða ekki fyrr en 12. júlí 1989.

Karlar eru í konuleit

Í rómantísku gamanmyndinni The 40 Year Old Virgin, í leikstjórn Judds Apatow, er aðalhlutverkið í höndum hins fjölhæfa leikara Steve Carrell, sem einnig er mörgum meðal annars kunnur í hlutverki Michaels Scott í amerísku útgáfu sjónvarpsþáttanna The Office, fyrir utan þær fjölmörgu kvikmyndir sem hann hefur leikið í.

Í The 40 Year Old Virgin er Carrell í hlutverki hins fertuga og svolítið njarðarlega Andy Stitzer sem vinnur í raftækjafyrirtæki, er upptekinn í tölvuleikjum og við að sinna safni sínu af „action“ fígúrum. Eins og titill myndarinnar gefur til kynna er hann hreinn sveinn, þrátt fyrir áhuga hans á konum. Vinir hans hvetja hann til að reyna að eignast vinkonu og upphefst þá leikurinn.

Eitt af því sem vinir hans telja geta aukið möguleika hans á að ganga í augun á hinu kyninu er að fjarlægja bringuhárin með vaxmeðferð og fara þeir með honum á snyrtistofuna til halds og trausts.

Sársaukinn var ósvikinn, sem og undrunin sem skein úr svip Steve Carrell, sem aldrei áður hafði farið í vax.

Leikarinn Steve Carrell hafði aldrei farið í svona meðferð og hafði því enga hugmynd um hversu sársaukafull svona háreyðing er. Hann var með þá kenningu að takan yrði að vera raunveruleg því að sá sársauki sem hann gæti ímyndað sér væri miklu verri en sá sársauki sem leiðir af háreyðingu af þessu tagi og því yrði senan fyndnari ef þetta væri raunverulega framkvæmt og engin brögð kvikmyndalistarinnar kæmu við sögu.

Í atriðinu eru vinir hans viðstaddir, en það eru þeir David (Paul Rudd), Jay (Romano Malco), Cal (Seth Rogan) og Mooj (Gery Bednob). Viðbrögð þeirra og svipurinn sem kemur á Carrell er ótrúlegur sem og orðbragðið sem fylgir í kjölfarið og nokkuð ljóst að þar var ekki farið eftir handritinu. Fimm tökuvélar þurfti til að taka atriðið upp, því að augljóslega var ekki hægt að endurtaka það. Þetta atriði þykir með þeim fyndnustu í kvikmyndasögunni.

Skrifað í stjörnurnar

Rómantíska gamanmyndin Bridget Jone’s Diary (2001) í leikstjórn Sharon Mcguire hefur glatt margan kvikmyndaáhorfandann víða um heim.

Renée Zellwegwr sló eftirminnilega í gegn í hlutverki hinnar ógleymanlegu Bridget Jones.

Kvikmyndin er aðlögun eftir samnefndri bók breska rithöfundarins ástsæla Helen Fielding. Bókin kom út árið 1996 og var hún byggð á verki Jane Austin, Pride and Prejudice (útg. 1813), eða Hroki og hleypidómar eins og titillinn var þýddur.

Óumdeilt er að valið í leikarahópinn sem stóð að gerð kvikmyndarinnar Bridget Jones’ Diary var einstaklega vel heppnað og Renée Zellweger sló algjörlega í gegn í myndinni, að öðrum ólöstuðum. Það var hins vegar ekki Renée sem fyrst var boðið hlutverkið, því að framleiðendur höfðu hugsað sér Toni Colette, þá frábæru leikkonu, í hlutverkið. Toni var hins vegar upptekin við að leika á Broadway í söngleiknum The Wild Party.

Toni Colette var of upptekin til að leika Bridget Jones.

Aðspurð hvort hún sæi eftir að hafa sleppt hlutverkinu segir hún hógvær eitthvað á þá leið að svo vel hafi tekist til með myndina að þetta hljóti allt að hafa verið skrifað í stjörnurnar.