Draugagangur og Piparkökuhúsið eru tvær nýjar bækur eftir Ævar Þór Benediktsson. Þetta eru þriðja og fjórða bókin í flokki léttlestrarbóka eftir hann en áður hafa komið út Búkolla og Börn Loka. Sjálfur kallar höfundurinn þessar bækur afleggjara úr Þín eigin-bókaflokki sínum. Í Draugagangi spinnur hann þráð úr bók sinni Þín eigin hrollvekja og Piparkökuhúsið er spuni úr Þínu eigin ævintýri og eins og þar ræður lesandinn framvindunni. Meira en 10 mismunandi endar eru í hverri bók og eru þær ríkulega myndskreyttar af Evönu Kisu.

Bækur fyrir alla

„Þessar bækur eru hugsaðar fyrir þá krakka sem vilja léttari texta en er í Þínum eigin-bókaflokknum. Þetta geta verið krakkar sem eru að byrja að lesa, eru að byrja að læra íslensku eða einfaldlega krakkar sem vilja einfaldari texta og fleiri myndir. Ég veit til dæmis af krökkum í sjöunda, áttunda og níunda bekk sem hafa verið að sækja í þessar bækur frekar en hinar lengri sem ég hef verið að skrifa. Það má eiginlega bara segja að þetta eru bækur fyrir alla,“ segir Ævar Þór.

Hann segir ekki ákveðið hversu margar bækur verði í þessum bókaflokki. „Mig langar að gera sem flestar. Næstu tvær yrðu þá úr Þínu eigin tímaferðalagi sem kom út fyrir síðustu jól og úr Þínum eigin tölvuleik sem er væntanleg um næstu jól. Ég var búinn að ganga með þá hugmynd í nokkur ár að búa til litla afleggjara úr Þín eigin bókunum og viðtökurnar við fyrstu tveimur bókunum voru framar öllum vonum. Þess vegna held ég áfram. Það að skrifa stuttan en áhugaverðan texta er sennilega það erfiðasta sem ég hef gert á ritvellinum. Ég hef mjög gaman af að flækja hlutina og nota mörg og erfið orð en þarna er það ekki í boði. Það hefur verið skemmtileg áskorun að semja áhugaverðan en knappan texta.“

Fyllt upp í gat

Spurður um viðtökur segir Ævar Þór: „Ég hef heyrt í mörgum krökkum sem eru mjög kátir með þetta en ég heyri jafnvel í fleiri foreldrum og kennurum sem eru afar ánægðir með þessar bækur vegna þess að þær fylla upp í gat fyrir krakka sem eru búnir að lesa auðveldustu lestrarbækurnar en hafa ekki enn náð valdi á bókum sem geyma meiri texta. Mér finnst afar ánægjulegt að hafa tekist að búa til bækur sem virka fyrir þennan lesendahóp.“

Í byrjun júní er svo væntanleg ný bók eftir Ævar Þór sem var skrifuð samhliða hinu vel heppnaða lestrarátaki hans. Hún heitir Óvænt endalok og er fimmta og síðasta bókin í Bernskubrekum Ævars vísindamanns. Í þeirri bók eru sex krakkar sem tóku þátt í lestrarátakinu orðnar að persónum og sömuleiðis tveir foreldrar og fjórir skólar koma við sögu.