Gunnar Anton Guðmundsson, umsjónarmaður kvikmyndaspjallþáttsins Bíóbær á Hringbraut, segist hafa verið sérstaklega skemmdur eftir að hafa séð nokkrar furðulega hryllingsmyndir í hádegissýningu á Stöð 2 þegar hann var í grunnskóla.

„Á tímabili sýndi Stöð 2 bíómyndir í hádeginu. Ég kom alltaf heim í hádeginu þegar ég var í grunnskóla og þannig sá ég Demolition Man í fyrsta skipti,“ segir Gunnar Anton.

„Ég man að ég sá þegar hann tekur augað úr í Demolition Man og ég bara öskraði.“

The Langoliers er sérstaklega furðuleg mynd úr smiðju King en Gunnar Anton minnist þess að hafa séð hana fyrst í hádegisdagskrá Stöðvar 2 á virkum degi þegar hann var á grunnskólaaldri.

Árni Gestur Sigfússon og Gunnar Anton fara um víðan völl í þætti þeirra sem verður sýndur annað kvöld á Hringbraut klukkan 20:00.

Í þessum þætti verður fjallað um feril Nicholas Cage og kvikmyndir byggðar á verkum vísindaskáldsagnafrömuðsins Stephen King. Sömuleiðis skoða Árni og Gunnar kvikmynd sem King leikstýrði sjálfur.

Þáttur Bíóbæs annað kvöld er samtíningur af því besta úr þáttum vetrarins. Bíóbær fer í sumarfrí og snýr aftur í september.