Ófleygur þrastarungi, sem fréttamaðurinn Heimir Már Pétursson kom til bjargar í bílastæðahúsi Bylgjunnar og Stöðvar 2 í morgun, þakkaði fyrir sig með því að drita á jakka fréttamannsins og stökkva aftur úr hreiðrinu.

„Ég er búinn að fylgjast með þessu hreiðri og hreiðurgerð í einar tvær vikur hérna á 2. hæð bílastæðahússins,“ segir Heimir Már Pétursson, fréttamaður á miðlum Sýnar sem er til húsa við Suðurlandsbraut.

„Ég mæti svo snemma að ég fæ eiginlega alltaf sama stæðið í bílastæðahúsinu og hreiðrið er akkúrat þar fyrir ofan,“ segir Heimir Már sem í morgun tók eftir unganum falla milli hæða bílastæðahússins án þess að gera sér grein fyrir að þar var fugl á ferð. „Ég fattaði nú ekki strax að þetta var unginn sem stóð þarna á bílaplaninu og svo hvarf hann bara ofan í bil milli bílaplansins og hússins, bara niður á næstu hæð.“

Heimir gerði ekkert með þetta og gekk til sinna starfa og komst þá í samtali við stöllu sína, Kristínu Ólafsdóttur, fréttamann á Vísi, Stöð 2 og Bylgjunni, að þarna hafi líklega íbúi hreiðursins verið á vappi.

„Hún sagði mér að hún hafi líka séð unga þarna í tröppunum á leiðinni í vinnuna svo ég fór og kíkti þarna niður og þá var greyið þar, drulluhræddur en ég náði honum og við fórum síðan upp á aðra hæð,“ segir Heimir Már um björgunarleiðangurinn sem Kristín færði til bókar á Instagram. Nánast í rauntíma.

Þegar að hreiðrinu var komið kallaði Kristín til húsvörðinn sem kom með tröppur og Heimir Már lagði á brattann með fugl í hendi. „Þá var þingmaðurinn Helga Vala að koma úr viðtali á Bylgjunni, fór að forvitnast og tók þetta upp á myndband á símann þegar ég er að príla upp tröppurnar og setja ungann aftur í hreiðrið.

Lausaganga katta er lítil í bílastæðahúsi Sýnar sem Heimir segir nokkuð öruggan stað fyrir hreiður. „Snæfríður mín er fjarri góðu gamni,“ segir hann um læðuna sína sem hann tekur sem betur fer ekki með sér í vinnuna.

Í millitíðinni hafði unginn, líklega skelfingu lostinn, þakkað Heimi Má björgunina með því að drita á fréttamannsjakkann hans og ekki var hremmingum þeirra félaga þar með alveg lokið.

„Hann skeit á mig líka og það fylgir sögunni að hann var svo vitlaus að hann hoppaði síðan út úr hreiðrinu aftur og hljóp í burtu þannig að við nenntum ekki setja hann upp í það í annað skipti,“ segir Heimir Már sem hefur enda fulla trú á foreldrum ungans sem hann er farinn að kannast ágætlega við.

„Foreldrarnir voru hérna í kring að leita að honum og eru væntanlega búin að finna hann. Þetta er greinilega ungi sem er vel fiðraður en hann er ekki orðinn fleygur þannig að hann hljóp þarna um.“