Roskva Koritzinsky er nýlent á Íslandi og hingað komin til að taka þátt í Bókmenntahátíð. Hún er 29 ára gömul og gaf út sína fyrstu bók árið 2013. Það var smásagnasafnið Her inne et sted sem fékk góða dóma og viðurkenningar. Fyrsta skáldsaga hennar, Flammen og mörket, kom út árið 2015 og svo kom annað smásagnasafn árið 2017; Jeg har ennå ikke sett verden. Hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2018.

Mazen Maarouf þekkja margir Íslendingar. Hann er palestínskur að uppruna og fæddur í Beirút. Hann er fertugur og hefur síðustu ár helgað sig skáldskap og þýðingum. Hann kom hingað til lands árið 2011 eftir að Reykjavíkurborg gerðist aðili að ICORN og varð þannig skjólborg fyrir rithöfunda sem hafa þurft að yfirgefa heimalönd sín vegna ofsókna. Mazen hefur birt ljóð og smásögur og fyrir smásagnasafn sitt, Brandarar handa byssumönnum, var hann tilnefndur til hinna virtu alþjóðlegu Man Booker verðlauna. Þá hlaut hann Al-Multaqa verðlaunin sem eru veitt fyrir smásögur á arabísku.

Roskva, hefur þú komið áður hingað?

Roskva: Ég hef aldrei komið áður til Íslands, ég bara var að lenda og keyrði beint hingað. Ég hef ekki séð mikið enn en það er á dagskránni að fara í sund, mér skilst í Vesturbæjarlaugina.

Mazen, hvernig var það þegar þú komst hingað?

Mazen: Ég kom fyrst hingað árið 2011. Það var einn skrýtnasti dagur í lífi mínu. Það var snarbrjálaður stormur og flugvélin lenti um 20 mínútum á undan áætlun. Vindurinn hreinlega fleygði vélinni áfram. Ég var að koma frá Beirút í gegnum París og var brugðið. Mín var beðið á flugvellinum og mér sagt að svona væri þetta nú ekki alveg alltaf. En ég komst fljótt að því að Ísland er að öllu leyti ólíkt landinu sem ég kem frá. Andstæðurnar eru miklar, í menningu, pólitík og veðri, og ég vissi strax að hér yrði allt öðruvísi líf í boði fyrir mig.

Það var snarbrjálaður stormur og flugvélin lenti um 20 mínútum á undan áætlun. Vindurinn hreinlega fleygði vélinni áfram.
Sigtryggur Ari

Roskva, sögum þínum hefur verið lýst sem ljóðrænum og myrkum. Hvað finnst þér sjálfri um þá lýsingu?

Roskva: Ég verð alltaf mjög hissa þegar einhver lýsir sögunum mínum sem drungalegum eða myrkum. Í þunglyndi hefur þú ekkert að segja, þar eru engin orð. En smásögur mínar finnast mér vera frekar eins og ljóð og ég set mikla orku í þær. Ég sjálf er líka full lífsorku þegar ég skrifa.

Fólk segir sögur mínar einnig fjalla um mannleg samskipti, til dæmis foreldra og barna, vina eða hjóna. Meginþemað er líklega þessi tálsýn um að það að hafa einhvern nálægt þér geri þig hamingjusaman og tryggi þér öruggan stað í veröldinni. Stundum er fólk meira einsamalt, meira hrætt og lokað af í samböndum sínum en ef það væri einsamalt.

Ég er versta manneskjan til þess að lýsa því sem ég skrifa. Mér finnst ég stundum þurfa að selja það einhvern veginn, láta það hljóma áhugavert, pólitískt og beitt. Og það þrátt fyrir að mér finnist að það eigi ekki að vera að setja endalausa merkimiða á list.

Já, er það ekki að færast í aukana? Er meginstraumurinn þyngri með til dæmis tilkomu Netflix og aukins framboðs af afþreyingu?

Roskva: Jú, og mér finnst líka á sama tíma meiri þrýstingur á listamenn að standa fyrir eitthvað. Taka virkan þátt í pólitík og samfélagslegri orðræðu. Vera rödd sinnar kynslóðar.

Auðvitað er mikilvægt að hafa lifandi pólitíska orðræðu. En með þessari kröfu glatast að hluta til mikilvægt gildi listarinnar. Í skáldskapnum verður að vera óræðni, mótsagnir og efi. Ég held að það sé mikilvægt að list sé frjáls vettvangur en ekki tæki og tól í umræðu um stjórnmál.

Stundum er fólk meira einsamalt, meira hrætt og lokað af í samböndum sínum en ef það væri einsamalt.
Sigtryggur Ari

Mazen, sögur þínar í Brandarar handa byssumönnum eru ansi magnaðar. Ég upplifði þær sem tilfinningar úr bernsku þinni sem svo seinna urðu að sögum? Það er eitthvað falið í þeim, er það ekki?

Mazen: Jú, það má segja það. Tilfinningar verða að sögum. Og hver saga inniheldur eitthvert atriði sem ég upplifði sjálfur sem barn. Það er áhugavert að segja frá því að á meðan ég bjó í Líbanon trufluðu þessi atriði mig ekki mikið. Það var ekki fyrr en ég kom til Íslands sem ég vaknaði á kraftmikinn máta og fann að það var áríðandi að gera upp það sem gerðist. Kannski vegna vegna fjarlægðarinnar og hversu friðsælt það er hér á landi. Ég vildi koma á sáttum með því að finna reynslu minni stað í skáldskap. Ég er samt ekki búinn að finna þessa sátt og er enn í leit og mun því líklega skrifa fleiri sögur.

Þegar þú elst upp á stað þar sem allir eru reiðir og tortryggnir þar sem þú þarft að gæta að hverju orði sem þú segir, þá er eðlilegt að þú flýir inn í þinn eigin hugarheim. Þegar ég kom hingað, þá truflaði friðurinn mig, ég fann ekki friðsæld. Ég kemst líklega aldrei yfir þetta en líðan mín og togstreitan sem ég upplifi er ástæðan fyrir því að ég skrifa sögur.

Getur þú nefnt dæmi um raunverulegt atriði sem átti sér stað og er að finna í sögum þínum?

Mazen: Já, í einni sögunni segir af dreng sem felur sig undan sprengjuregni í kvikmyndahúsi. Það þurftum við fjölskyldan einu sinni að gera.

Stríðið var algjörlega skelfilegt og Íslendingar eiga erfitt með að ímynda sér aðstæðurnar. Skyndilega getur þú ekki treyst nágranna þínum sem þú kunnir ágætlega við áður. Það verður aðskilnaður á milli fólks vegna trúar og uppruna og það ríkir ótti og vantraust á fólki. Þetta eru ómannúðlegar aðstæður og hryllilegar. En þrátt fyrir það kýs engin manneskja að lifa bara í hryllingi og ótta. Við reynum alltaf að hafa gaman, segja brandara í fáránlegum aðstæðum. Það endurspeglar að mínu mati lífið á einhvern hátt.

Þú varst tilnefndur til alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna fyrir bókina. Hvernig varð þér við?

Mazen: Tilnefningin gladdi mig, sérstaklega vegna þess að ég var tilnefndur fyrir smásögur. Líf okkar er fullt af smásögum. Það er röð smásagna. Við vitum ekki vel hver mörkin eru á milli skáldskapar og þess sem raunverulega gerist. Stór hluti þess sem við trúum að sé satt er skáldskapur. Það fer nefnilega eftir því hver segir frá og frá hvaða sjónarhorni. Ég held að smásagan sé form sem nær til fólks.

Ég fékk skilaboð um miðja nótt á símann. Ég gat ekki sofið í þrjá tíma. Ég fylltist skelfingu. Hvað á ég að gera? Mig langaði auðvitað að öskra og hoppa en ég bý í gömlu húsi og vildi ekki vekja nágrannana. Ég fagnaði í algjörri þögn. Skelfdist líka. En svo gladdist ég á endanum.

Roskva og Mazen fylltust bæði hálfgerðri skelfingu þegar þau hlutu tilnefningu til virtra verðlauna.
Sigtryggur Ari

Roskva, þú varst aðeins 28 ára gömul og tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, hvernig leið þér?

Roskva: Ég fékk fréttirnar þremur vikum áður, þannig að ég gat ekki rætt við aðra um líðan mína. Ég sagði reyndar mömmu og kærastanum mínum frá. Árið áður var tilnefndur rithöfundur sem var óþekktur í Noregi þrátt fyrir að hann hefði skrifað bækur í mörg ár. Fyrirsögnin í einu stærsta blaði Noregs var: Hann á ekki skilið þessa tilnefningu. Svo kom ég, aðeins 28 ára gömul og tilnefnd. Ég beið því óttaslegin eftir fyrirsögninni: Hver er þessi frekjudolla?

Það er svona ákveðið trend í norskum fjölmiðlum að sýna hörku. Fjölmiðlar eru komnir með nóg af sannsögulegum og skáldævisögum þar sem er í raun og veru ekki hægt að hanka höfundinn á innihaldi bókarinnar. Gagnrýnendur eru reiðir við rithöfunda sem gefa sér það frelsi að skrifa um eigið líf og segja: Þetta er list en ég er samt að skrifa um mömmu mína og samband mitt við hana. Ég var eiginlega hrædd um að það yrði öskrað á mig. Það mætti frekar segja að það sé einhver undirliggjandi reiði: „No more mister nice guy!“ Og ég bjóst því ekki við að vera tekin neinum vettlingatökum, en svo var þetta bara fínt. Ég skrifa smásögur eins og Mazen og mér finnst mjög gott að hún er að fá meira vægi.

Mazen, þú hefur fylgst vel með baráttu hælisleitenda hér á landi, hvernig finnst þér staðan vera?

Mazen: Það er skömm að því hvernig er komið fram við þetta fólk. Ísland er stolt af því að vera land þar sem skoðanafrelsi ríkir, þar sem mannréttindi eru virt, kynfrelsi og kvenfrelsi en ég velti því fyrir mér hvort þetta sé allt á yfirborðinu. Þegar fólk yfirgefur heimaland sitt í neyð er það að yfirgefa stóran og ríkan menningarheim og það vill bara lifa góðu lífi. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig lögregla kemur fram, ég er í sjokki yfir því.

Mér finnst þetta sérstaklega ömurlegt vegna þess að sjálfstæðisbarátta Íslendinga byggir á menningarverðmætum. Saga okkar er einstök en stjórnmálasagan virðist ætla að þróast í aðra átt.

Það segir okkur líka margt um þessa krísu, frjálshyggjan er að líða undir lok og nú lifum við á tímum engrar hugmyndafræði.

Já, það eru helst börnin sem berjast fyrir betri heimi, þau hafa skýra hugmyndafræði?

Mazen: Já, það er rétt og það er mikilvæg barátta.

Roskva: Allt sem þú segir hljómar svo kunnuglega, þegar ég segi fólki að ég sé frá Noregi þá hefur það þessa sömu draumsýn og þú segir frá. En hún er tálsýn og þetta gerist svo hratt. Það ríkir algjör óreiða, við höfum ekki lengur skýra hugmyndafræði, trú eða siðferðiskompás til að fylgja. Mér finnst egóið í forgrunni og það er skelfileg tilhugsun.

Mazen: Þess vegna eru bókmenntir mikilvægar, þær færa saman fólk af mismunandi menningarheimum. Þær eru mikilvægari en pólitík. Við vitum ekki mikið um hvert annað, við vitum margt um heiminn en ekki um hvert annað sem manneskjur. Bókmenntir færa okkur vitneskju um það, hver við erum.