Sérfræðingurinn

Var hækkun þriðju­dags­til­boðsins ó­um­flýjan­leg?

Verð­bólgan hefur verið á hægu skriði allt frá því í janúar á síðasta ári þegar árs­verð­bólga mældist að­eins 1,7%. Ári síðar, í janúar síðast­liðnum, mældist árs­verð­bólga 4,3% og í síðasta mánuði mældist hún 4,5%, tveimur prósentu­stigum yfir verð­bólgu­mark­miði Seðla­banka Ís­lands.

Þrátt fyrir að verð­lags­hækkanir hafi verið fyrir­ferðar­miklar í efna­hags­um­ræðunni mætti halda að okkar helstu efna­hags­spekingar prediki fyrir kór sínum í ein­hverjum berg­máls­helli fjarri al­þýðunni. Margur Ís­lendingurinn virðist nefni­lega fyrst hafa vaknað við verð­bólgu­drauginn þegar hið heilaga þriðju­dags­til­boð Domino‘s, sem fram til þessa hefur staðið utan lög­máls verð­þróunar, hækkaði um 10% í vikunni.

Rekstur Domino‘s stendur varla og fellur með þessari hækkun, en hjá því var vart komist að verð til­boðsins hækkaði á ein­hverjum tíma­punkti. Að það gerist nú kemur ekkert sér­stak­lega á ó­vart, enda hefur verð­bólga verið þrá­lát í vel á annað ár. Inn­fluttar vörur hafa hækkað skarpt í verði og munu að líkindum halda á­fram að hækka auk þess sem launa­hækkanir hafa verið miklar á undan­förnum árum og stutt er í næsta slag á vinnu­markaði.

Þriðju­dags­til­boð Domino‘s hefur ekki hækkað frá því það var fyrst kynnt til leiks árið 2010 en frá árs­lokum 2010 hefur verð­lag hækkað um 40% og verður 10% hækkun því að teljast hóf­leg í því sam­hengi. Markaðs­legi vinkillinn á málinu er þó rann­sóknar­efni út af fyrir sig, það er hvort 10% hækkun eftir meira en ára­tugs prinsipp­verð hafi svo nei­kvæð hug­hrif á neyt­endur, þrátt fyrir að verð­lag hafi hækkað fjór­falt yfir sama tíma­bil, að það hefði heldur borgað sig að hækka verð lítil­lega jafnt og þétt í takt við verð­lag.

Hvað sem öðru líður er fernt öruggt í þessu lífi; skatturinn, dauðinn, þing­sæti Birgis Ár­manns­sonar og að verð mun hækka. Að þessu sögðu vonar sér­fræðingur vikunnar að hann fái ekki skömm í hattinn frá Sam­keppnis­eftir­litinu fyrir skrifin.