Leikarinn Jóhann Sigurðar­son snýr aftur í ís­lenskri tal­setningu í endur­gerðinni af Lion King sem kemur út í kvik­mynda­hús í dag. Hann kemur þó ekki til með að endur­taka hlut­verk sitt sem ill­mennið Skari heldur mun hann fara með hlut­verk konungsins Múfasa og leikur Orri Huginn Ágústs­son ill­mennið að þessu sinni.

Jóhann er ekki eini ís­lenski leikarinn sem tók þátt í tal­setningu upp­runa­legu teikni­myndarinnar frá 1994 og endur­tekur leikinn nú. Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá mætir Þor­valdur Davíð Kristjáns­son aftur í endur­gerðina og nú sem full­orðinn Simbi eftir að hafa leikið barn­ungan Simba í þeirri upp­runa­legu.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Jóhann vera á­nægður með að hafa endur­tekið leikinn að nýju í Lion King en að þessu sinni í öðru hlut­verki. Margir minnast enn pers Jóhann hefur í nógu að snúast þessa dagana og leikur meðal annars í væntan­legri þátta­röð af Ráð­herranum og er núna staddur á norður­landi við tökur á myndinni Síðasta veiði­ferðin en Bubbi Morthens er meðal auka­leikara.

„Já nú er það Múfasa,“ segir Jóhann og hlær. „Þetta var auð­vitað bara mjög gaman og virki­lega skemmti­legt sam­starf. Ég bara fór í prufu og þeir völdu mig,“ segir Jóhann léttur í bragði.

Hann segir spurður að fólk rifji reglu­lega upp gömlu myndina í sam­tölum við sig. „Já já, sú mynd hefur greini­lega lifað góðu lífi. Þessi per­sóna sem ég lék þá, hann Skari, menn höfðu gaman af honum,“ segir Jóhann. Hann segist spurður vera sáttur með nýja hlut­verkið sem Múfasa.

„Það er alltaf gaman að prufa eitt­hvað nýtt, ég dreif mig bara í prufu og þeir völdu mig bara, það er svo sem ekkert flóknara en það,“ segir Jóhann sem hlær þegar hann er spurður hvort hlut­verkið hafi verið skemmti­legra.

„Hvoru tveggja var mjög skemmti­legt. Núna var það Múfasa og hann var bara mjög skemmti­legur. En það var auð­vitað líka mjög gaman að taka Skara á sínum tíma. Þetta er náttúru­lega frá­bær mynd og svo sem erfitt að bera þetta saman, þeir eru auð­vitað mjög ó­líkir en báðir skemmti­legir,“ segir Jóhann léttur.

Fjölmargir minnast talsetningar Jóhanns á Skara úr teiknimyndinni frá árinu 1994 með hlýju.