Góðan daginn, faggi
*** og hálf
Þjóð­leik­hús­kjallarinn
Höfundur og leikari: Bjarni Snæ­björns­son
Höfundur og leik­stjóri: Gréta Kristín Ómars­dóttir
Tón­list: Axel Ingi Árna­son
Lýsing: Jóhann Frið­rik Ágústs­son
Hljóð­maður og hljóð­blöndun: Aron Þór Arnars­son
Sviðs­hreyfingar: Ca­meron Cor­bett
Stílisti: Eva Sig­ný Berger

Rúm­lega fer­tugur hommi fær skyndi­lega tauga­á­fall við akstur á Reykja­nes­brautinni. Leikarinn Bjarni Snæ­björns­son á gott stuðnings­net, fast­ráðinn í Þjóð­leik­húsinu og býr á hin­segin para­dísinni Ís­landi. Hver er þá rótin að þessari ofsa­legu van­líðan? Góðan daginn, faggi, er sjálfs­ævi­sögu­legur heimilda­söng­leikur um leit söng­leikja­homma að innri friði.

Bjarni gengur inn á nánast tómt svið Þjóð­leik­hús­kjallarans með til­finninga­legan og bók­staf­legan far­angur á bakinu. Sýningin gengur út á að taka upp úr þessum þunga bak­poka, viðra inni­haldið til að létta á byrðinni og vekja á­horf­endur til um­hugsunar. Hand­ritið byggir Bjarni á dag­bókar­færslum sínum og skrifar í sam­vinnu við Grétu Kristínu Ó­mars­dóttur sem einnig leik­stýrir. Oft eru færslurnar bráð­fyndnar en undir yfir­borðinu er ótti og djúpt sár.

Hann rekur sögu sína frá barns­aldri til dagsins í dag, ekki alltaf í línu­legri fram­vindu, þar sem hann flakkar á milli bæði lands­hluta og heims­álfa í von um finna stað þar sem hann getur verið sanna út­gáfan af sjálfum sér. Til að gæta gagn­sæis þá ólst undir­rituð upp á svipuðum tíma í sama bæjar­fé­lagi og Bjarni, á Tálkna­firði. Þannig eru bernsku­brekin oft ansi kunnug­leg en lík­legast ekki harla ólík öðrum lands­byggðar­bæjar­fé­lögum á níunda og tíunda ára­tugnum.

Góð að­stoð

Hand­ritið er kryddað lögum fluttum með góðri að­stoð Axels Inga Árna­sonar sem semur tón­listina, Bjarni er hinn fínasti söngvari. Sterkustu lögin eru í raun til­brigði af sama laginu: HÆ, HÆ – homma­hækja og epal­hommi, síðar kemur fram­haldið HÆ, HÆ – partídrusla og Euro­vision, en við­lög beggja laganna inni­halda línurnar „Því ég er þannig hommi / Svona eins og þú vilt að ég sé“.
Lagið lýsir tog­streitunni í væntingum sam­fé­lagsins og ör­væntingar­fullum til­raunum til að gera öðrum til geðs, svið­setningunni á sjálfinu. Inn­tak lagsins mætti tengja betur við kjarna hand­ritsins, nota hug­myndirnar til að dýpka rann­sóknina, stíga út fyrir frá­sagnar­form hins per­sónu­lega og tengja betur við hið sam­fé­lags­lega.
Bjarni snertir stundum á því hvernig um­hverfið krefur fólk á jaðrinum um að rit­skoða sig stöðugt þangað til kúgunin og skömmin verður eðlis­læg, en þetta er ekki nægi­lega mark­visst. Einnig er Skugga­lagið ekki nægi­lega sterkt, hvorki út­setning né flutningur.

Æðru­leysi og þor

Góðan daginn, faggi, dvelur á fremur ó­ljósum stað, er eins konar blanda af kabarett, uppi­standi og ein­leik. Ekki er ó­vana­legt fyrir jaðar­­sýningar að stokka upp í forminu en ramminn og út­færslan þyrftu að vera skýrari af hálfu Grétu Kristínar. Þó er rétt stigið til jarðar með að setja fókusinn al­gjör­lega á Bjarna. Ca­meron Cor­bett finnur sviðs­hreyfingunum mjög góðan far­veg. Bjarni tekst á við þetta risa­stóra verk­efni af æðru­leysi og þori en oft eru skiptingarnar milli til­finninga­legra á­herslu­breytinga ó­skýrar.
Þjóð­leik­hús­kjallarinn hefur upp á að bjóða spennandi mögu­leika sem jaðar­rými, til­rauna­vett­vangur og vin fyrir hin­segin menningu. Góðan daginn, faggi, er fínasta byrjun á leik­árinu sem vonandi gengur í garð af fullum krafti fyrr en seinna. Bjarni á hrós skilið fyrir að takast á við þetta krefjandi verk­efni og leggja sjálfan sig að veði á þennan máta, ber­skjaldaður en á­vallt fullur hlýju. Sýningunni og sjálfs­skoðuninni lýkur í raun aldrei heldur reynir maður að gera það besta úr degi hverjum.