Sylvía Haukdal er menntaður pastry chef frá matreiðsluskólanum Le Cordon Bleu í London. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga fyrir bakstri og hjálpaði gjarnan móður sinni í eldhúsinu á yngri árum. Hún starfar við áhugamálið hjá Sætum syndum og er með eigin uppskriftavef undir nafninu sylviahaukdal.is sem vakið hefur mikla athygli. Þá hefur hún einnig stóran hóp fylgjenda á Instagram. Sylvía nær tengslum við lesendur sína í gegnum samfélagsmiðla.

„Ég kláraði stúdentsprófið og fór í háskóla en fann fljótt að baksturinn og sköpunin í kringum hann heillaði meira. Eftir því sem ég varð eldri kom æ betur í ljós að þetta væri draumastarfið,“ segir Sylvía. „Ég þarf alltaf að vera að gera eitthvað. Mér finnst mjög skemmtilegt að skapa eitthvað nýtt og fyrir mér er bakstur ákveðin hugleiðsla,“ segir hún.

Tínir blóm til skreytinga

Sylvía segist ekki vera jafn hrifin af því að elda mat. „Maðurinn minn, Atli Björgvinsson, er lærður kokkur og sér um þá hlið á heimilinu. Ég geri hins vegar smárétti og deserta,“ segir hún. Þegar hún er spurð um eftirlætiseftirréttinn svarar hún: „Úff, það er erfið spurning. Mér finnst nefnilega svo gaman að prófa eitthvað nýtt. Það er mjög þægilegt að gera marengsskálar og þær slá alltaf í gegn í matarboðum. Ég set karamellu- eða súkkulaðifyllingu, ferska ávexti og skreyti með lifandi blómum. Í góðu veðri fer ég út í móa og tíni þau sjálf. Ég er nýbúin að halda upp á afmæli hjá börnunum mínum en það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Þá er sko bakað og gjarnan hef ég eitthvert þema,“ segir Sylvía sem á tvær dætur, Önnu Hrafnhildi, 4 ára, og Marín Helgu, sem er ársgömul. Sylvía er yngri systir Birgittu Haukdal, söngkonu og barnabókahöfundar. Hún segist ekki hafa erft sönghæfileikana en hafa fengið aðra hæfileika í staðinn.

Sylvía er með eigin upp­skrifta­síðu á vefnum sylviahaukdal.is en þar gefur hún uppskriftir. Þar utan er hún mjög virk á Insta­gram. FRETTABLAÐIÐ/ERNIR

Draumur í London

Sylvía segir að það hafi verið einstaklega skemmtilegt að stunda nám í Le Cordon Bleu og sömuleiðis hafi verið ánægjulegt að upplifa hvernig það er að búa í öðru landi. „Það var algjör draumur að upplifa þetta en ég hafði horft á kvikmyndina um Juliu Child og heillast af henni. Ég fylgist líka mikið með fólki á Instagram sem er að gera allt mögulegt skemmtilegt um allan heim. Maður fær oft innblástur með því að fylgjast með á samfélagsmiðlum. Ég hef tekið eftir að blóm eru mikið notuð til skreytinga,“ segir Sylvía sem heimsækir verslanir með kökuskreytingadót þegar hún ferðast til útlanda. Henni finnst sérstaklega gaman að heimsækja slíkar búðir í París. „Ég kíki líka í bakaríin og skoða eftirrétti á veitingahúsum.“

Sylvía segir að tíramisú-pönnukökutertan sem hún gefur hér uppskrift að sé alveg frábær. „Þetta er svona ný útgáfa af pönnukökum sem öllum þykja góðar. Svo er þetta svona íslensk/ítalskur eftirréttur.“

Þessi pönnukökuterta er ekkert smá flott hjá Sylvíu.

Tíramisú pönnukökukaka

Pönnukökur

500 g hveiti

150 g sykur

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. matarsódi

½ tsk. salt

2 tsk. vanilludropar

2 egg

850 ml mjólk

150 ml heitt kaffi

100 g smjör, brætt

Mögulega auka kaffi til að þynna deigið, fer eftir smekk

Tíramisú fylling

250 g mascarpone rjómaostur

200 g rjómaostur

500 ml rjómi, þeyttur

1 tsk. vanilludropar

4 tsk. instant kaffi

400 g flórsykur

Öllum þurrefnum blandað saman fyrst í pönnukökurnar. Næst er mjólkinni bætt við ásamt eggjum og vanilludropum. Hrært saman við þurrefnin. Þegar deigið er orðið kekkjalaust er brædda smjörinu hrært saman við.

Athugið!

Hægt er að þynna deigið með kaffi ef þið viljið hafa pönnukökurnar þynnri, fer eftir smekk. Pönnukökupanna hituð og smurð með smjöri.

Tíramisú fylling

Rjómaostur og mascarpone rjómaostur, vanilludropar, flórsykur og instant kaffi þeytt saman. Því næst er rjóminn þeyttur en gætið að því að stífþeyta hann ekki alveg. Að lokum er allt hrært saman varlega.

Samsetning

Þegar pönnukökurnar hafa kólnað er kakan sett saman. Byrjum á því að setja eina pönnuköku og 2-3 msk. af fyllingu og svo koll af kolli. Ekki skal setja fyllingu á efstu pönnukökuna en þar stráum við vel af kakói yfir með sigti.

Passið að leyfa kökunni að vera í kæli í að minnsta kosti klukkustund áður en hún er borin fram.

Það á einhver eftir að prófa þessa tertu um helgina.

Banoffe-baka

Salthnetu- og súkkulaðibotn

200 g sykur

200 g salthnetur

110 g smjör, brætt

50 g súkkulaði

Toffee-karamella

150 g sykur

100 g smjör

250 g niðursoðin mjólk

100 ml rjómi

½ tsk. sjávarsalt

Skreyting

200 ml rjómi

100 ml jurtarjómi

3 bananar

30 g súkkulaði

30 g karamellukurl

Byrjið á því að bræða sykur á pönnu þar til hann er allur bráðinn og orðinn dökkbrúnn á lit. Þá er salthnetunum bætt út í ásamt sykrinum, hellt á silíkonmottu eða bökunarpappír og látið kólna í um það bil 20-30 mínútur.

Smjörið er brætt í potti. Því næst brjótum við hneturnar niður og setjum í matvinnsluvél. Gott er að mylja hneturnar ekki alveg niður heldur leyfa nokkrum bitum að vera aðeins stærri. Síðan hrærum við smjörinu, hnetunum og súkkulaðinu saman og setjum í hringform eða smelluform. Mér þykir best að nota plastborða eða bökunarpappír meðfram forminu svo auðveldara sé að ná kökunni úr. Svo setjum við botninn í kæli meðan við græjum fyllinguna.

Toffee-karamella

Við byrjum á því að bræða sykurinn í potti þar til hann verður dökkur. Næst bætum við smjörinu út í í teningum og hrærum stöðugt. Svo fer niðursoðna mjólkin, rjóminn og saltið út í.

Leyfum karamellunni að malla þar til hún þykknar og hylur bakhlutann af skeið. Hún er látin kólna aðeins áður en henni er hellt ofan á hnetubotninn.

Samsetning

Skerið banana í meðalstórar sneiðar og raðið ofan á karamelluna. Næst stífþeytum við jurtarjómann og rjómann. Þá fer rjóminn ofan á bananana, ég notaði rósastút til að sprauta rjómanum. Að lokum er kakan skreytt með karamellukurli og súkkulaði.

Frábær desert sem alltaf gerir lukku.

Fylltar marengsskálar

150 g eggjahvítur, við stofuhita

300 g sykur

Súkkulaði ganache

90 g Omnom lakkrís-súkkulaði

45 g rjómi

Fylling

250 ml rjómi, þeyttur

10 stk. jarðarber

Hitið ofninn í 180°C. Dreifið úr sykrinum á bökunarpappír og setjið á ofnplötu. Sykurinn fer inn í ofn í 8-10 mínútur eða þar til hann byrjar aðeins að bráðna á köntunum. Þegar ca. mínúta er eftir af sykrinum í ofninum byrjum við að þeyta eggjahvíturnar í hrærivél. Því næst bætum við heitum sykrinum 1-2 msk. í einu út í eggjahvíturnar meðan vélin þeytir. Þegar allur sykurinn er kominn út í fer matarlitur í blönduna ef þið viljið hafa skálarnar í lit.

Næst er skálunum sprautað á bökunarpappír, ég notaði stút nr. 2D. Byrja á því að sprauta rós og fer svo 2-3 umferðir meðfram köntunum ofan á rósinni. Síðan fara skálarnar inn í ofn 95°C í ca 1 klst. og 15 mín.

Súkkulaði ganache

Byrjum á því að saxa súkkulaðið. Svo setjum við rjómann í pott og hitum upp að suðu. Því næst hellum við rjómanum yfir súkkulaðið, leyfum að bíða í 2-3 mínútur og hrærum svo vel saman. Leyfum blöndunni að kólna og þykkna.

Samsetning

Fyrst fara 1-2 tsk. af súkkulaði ganache í skálarnar. Næst skerum við jarðarber í litla bita og setjum ofan á. Svo þeytum við rjómann og sprautum ofan á. Að lokum skreytum við skálarnar eftir smekk. Ég notaði bláber, jarðarber og fersk blóm.