Tónleikarnir ÖGNUN fara fram 9. júlí næstkomandi í Tjarnarbíói kl. 20.00 þar sem frumflutt verða sex ný og spennandi verk eftir ung tónskáld. Í lok sumars heldur hópurinn á aðalhátíð Ung nordisk musik í Tampere í Finnlandi.

Ung Nordisk Musik (UNM) er samnorræn tónlistarhátíð sem skipað hefur sér sess sem einn af mikilvægustu vettvöngum ungra tónskálda og tónlistarflytjenda innan tónlistarsenunnar á Norðurlöndum, verandi reynslumiðlandi á samstörf flytjenda og tónskálda, tengsla tónskálda við kollega sína á Norðurlöndunum sem og skapað sterk menningartengsl milli landanna.

Hildur Elísa Jónsdóttir, tónskáld og myndlistarmaður, Tinna Þorsteinsdóttir, tónskáld og leiðbeinandi og flautuleikarinn er Björg Brjánsdóttir.
Mynd: Patrik Ontkovic
Katrín Helga Ólafsdóttir vinnur að verkinu Bind-yndi
Mynd: Patrik Ontkovic

Hátíðin hefur verið starfrækt árlega frá árinu 1946 og ferðast á milli landanna sem að hátíðinni standa; Noreg, Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi og Danmörku.

Verkin voru unnin í vinnusmiðjum UNM í byrjun árs í samstarfi við hljóðfæraleikara og undir leiðsögn tónskáldanna Tinnu Þorsteinsdóttur og Þráins Hjálmarssonar.

Á Ögnun má búast við fjölbreytilegum verkum; allt frá kammer- og hljóðfæraverkum til rafverka, gjörninga og meira að segja tölvuleikja. Tónskáldin sem eiga verk á Ögnun eru Áslaug Magnúsdóttir, Gulli Björnsson, Hildur Elísa Jónsdóttir, Katrín Helga Ólafsdóttir, Krõõt-Kärt Kaev, Pétur Eggertsson og Örnólfur Eldon.

Gulli Björnsson frumflytur verkið Úr heljar ofni.
Mynd: Patrik Ontkovic

Skapandi lausnir vegna samkomutakmarkanna

Verkin verða tekin upp og birt vikulega í netdagskrá eftir frumflutning fyrir þá sem ekki komast í leikhúsið. Sum verkanna kanna netmiðla sérstaklega og skapandi lausnir með aðgengi að listum á tímum samkomutakmarkanna, líkt og verk Péturs Eggertssonar, Chamber Music III: Secrets of Tonality. Verkið er sérstaklega aðlagað netmiðlum og fjarfundarbúnaði fyrir viðburðinn.

Ögnun hefst með myndbandsverki Hildar Elísu Jónsdóttur, Nú erum Torvelt, sem verður í sýningu í Tjarnarbíói frá klukkan 16:30 - 19:00.

Klukkan 20:00 hefst lifandi flutningur.

Hópurinn í vinnusmiðju.
Mynd: Patrik Ontkovic

Efnisskrá:

Áslaug Magnúsdóttir: tttttear/s

Gulli Björnsson: Úr heljar ofni

Katrín Helga Ólafsdóttir: Bind-yndi

Krõõt-Kärt Kaev and Örnólfur Eldon: conduit/einsundzweiunddreiundvierund