Heldur tóm­legt er um að litast í dalnum í Heima­ey núna eftir að hætta þurfti við Þjóð­há­tíð í Vest­manna­eyjum annað árið í röð vegna CO­VID far­aldursins.

Skipu­leggj­endur Þjóð­há­tíðar hafa þó gert það besta úr stöðunni og munu setja upp veg­lega há­tíðar­dag­skrá í dalnum á morgun sem verður streymt í beinni út­sendingu á vegum Senu Live. Ís­leifur B. Þór­halls­son, fram­kvæmda­stjóri við­burða hjá Senu, lofar mögnuðu sjónar­spili og ekta Þjóð­há­tíðar­stemningu.

„Við erum hérna í Dalnum uppi á sviðinu að setja þetta upp í fullri stærð, bara allar græjurnar sem áttu að verð, LED skjáirnir og ljósa­búnaður, og það er bara fyrir kameruna á morgun. Dalurinn verður girtur af og engum hleypt inn en það er bara full show fyrir kameruna. Þetta er eigin­lega alveg magnað!“

„Það verður bara fyrir­huguð dag­skrá, meira að segja búið að bæta að­eins við hana. Það er svaka prógramm á milli 9 og 11, Alba­tross og full af gestum, Pálmi Gunnars og Ragga Gísla, svo er bara brekku­söngur klukkan 11 og þá setjum við textann yfir skjáinn og allir geta sungið með heima hjá sér,“ segir Ís­leifur og hlær.

Magnús Kjartan Eyjólfs­son, söngvari Stuðla­bandsins, mun sjá um brekku­sönginn þetta árið eftir að Ingó veður­guð var gert að taka pokann sinn eins og frægt er.

Starfsmenn Senu Live vinna nú hörðum höndum að því að setja upp Þjóðhátíðarsviðið.
Mynd/Anna Thorsteinsson

Engum hleypt inn í dalinn

Ís­leifur segir að í ljósi sam­komu­tak­markana verði engum gestum hleypt inn í dalinn, ekki einu sinni Eyja­mönnum.

„Nei, við gátum ekki opnað fyrir það, lög­reglan hafði á­hyggjur af því að fólk myndi streyma að. Þannig við þurftum að láta alla vita að það er ekkert að sjá, ekkert að heyra og ekkert hljóð út fyrir sviðið. Við verðum meira að segja með gæslu til að vísa fólki frá ef það reynir að koma. Eina leiðin til að horfa á þetta er að kaupa sér miða og horfa í streymi. Þetta er hundrað prósent gert fyrir kameruna, fyrir fólk sem er heima hjá sér eða í sumar­bú­stað eða í tjaldi,“ segir Ís­leifur.

Hann lofar þó ekta Þjóð­há­tíðar­stemningu og segir þau hjá Senu ætla sér að taka þetta alla leið.

„Við erum að fara alla leið til að búa til Þjóð­há­tíðar­stemninguna. Við erum í Dalnum, uppi á sviðinu, með alla dag­skrá og allar græjur. Allt sem var planað er að fara að gerast á morgun eins og það átti að gerast. Við erum að taka þetta alla leið, það verður ekkert dregið undan til að reyna að búa til þessa Þjóð­há­tíðar­stemningu og koma henni heim til fólks,“ segir Ís­leifur að lokum.

Hægt er að nálgast frekari upp­lýsingar um við­burðinn á heima­síðu Senu Live.

Horft yfir tómann dalinn frá Þjóðhátíðarsviðinu.
Mynd/Anna Thorsteinsson