Liðin eru 100 ár frá útgáfu fyrstu íslensku útleggingarinnar á Bókinni um veginn.

Síðan hefur ritið verið þýtt fjórum sinnum til viðbótar, þar af einu sinni úr frummálinu, en fyrsta endursögnin eftir bræðurna Jakob J. Smára og Yngva Jóhannesson hefur þó ávallt notið mestrar hylli, líklega einkum og sér í lagi eftir að Halldór Kiljan Laxness skrifaði formála að 2. útgáfu hennar sem út kom fyrir 50 árum eða árið 1971.

Í tilefni þessara tímamóta er efnt til málþings í Auðarsal, Veröld – húsi Vigdísar, í dag, 16. október, kl. 10.00-15.00.

Í átta erindum verður einkum fjallað um áhrif heimspeki daoismans á verk Halldórs og túlkanir hans sjálfs á hugmyndum hennar, en jafnframt verður leitað fanga víðar í íslenskri bókmenntasögu og grafist fyrir um annars konar dulspekileg áhrif á Nóbelsskáldið.