Brynjar stundar meistara­nám í rit­list í Há­skóla Ís­land og er á loka­metrunum í því námi. Þessa dagana vinnur hann hörðum höndum að meistara­verk­efninu sínu.

„Ég var að klára að skrifa ljóða­bók bara í síðustu viku sem ég geri ráð fyrir að komi út í haust eða á næsta ári. Ég þarf svo bara að klára að skrifa greinar­gerð og ég út­skrifast svo í lík­lega haust,“ segir Brynjar en vill ekkert gefa upp um inni­hald ljóða­bókarinnar að svo stöddu.

Brynjar hefur alla tíð haft á­huga á skrifum en hann fór í námið fyrst og fremst vegna á­huga á ljóðum. Þegar hann var að byrja í náminu langaði hann að vinna að ein­hverju verk­efni sem væri hans eigið. Ein­hverju fyrir utan skóla­verk­efnin. Þannig kom það til að hann gaf út eina ljóða­bók á mánuði í eitt ár.

„Hver bók var 13 síður og gefin út í 48 ein­tökum. Ég braut allar bækurnar um sjálfur og bjó til bóka­kápurnar. Ég hannaði kápurnar á öllum bókunum nema einni. Mig langaði að læra á fleiri hliðar í bóka­heiminum. Ég sá líka að það var ekki raun­hæft að fá ein­hvern til að setja upp tólf svona bækur svo þess vegna á­kvað ég að gera það bara sjálfur,“ segir Brynjar.

Dvaldi við skrif í Kraká

Þegar Brynjar vann að ljóða­bókunum tólf fór hann út í resi­densíu í Kraká. Þar skrifaði hann eina af bókunum sem heitir ein­fald­lega Kraká.

„Þetta er prógramm sem skáld og rit­höfundar geta sótt um. Ég fékk flug og gistingu og fór og var þarna úti í einn mánuð við rit­störf. Þessi resi­densía var á vegum Reykja­víkur bók­mennta­borgar og Kra­kár í Pól­landi, sem er líka bók­mennta­borg. En þarna úti kynntist ég slóvensku skáldi og pólskum rit­höfundi sem voru í resi­densíu á sama tíma í sömu byggingu svo ég var ekki alveg einn þarna. Við höfum haldið smá sam­bandi og spjöllum alltaf annað slagið. Það er mögu­leiki að ég fari út á bók­mennta­há­tíð í Bratislava í Slóveníu en það á bara eftir að koma í ljós.“

Brynjar segir að hann geti vel hugsað sér að skoða það að fara aftur út í resi­densíu. Hann hafði að vísu planað að fara með kærustunni sinni til Ung­verja­lands í resi­densíu í júlí en vegna CO­VID-far­aldursins verður ekkert úr því að þessu sinni.

Föt til að hlaupa í eftir strætó

Brynjar er lit­skrúðug týpa en við rit­störfin klæðist hann yfir­leitt lit­ríkum í­þrótta­fötum og reyndar notar hann oftast í­þrótta­galla við flest til­efni.

„Ég er svo­lítið hrifinn af heil­göllum. Það mætti segja að ég hrífist af fötum sem sjö ára mér fannst töff. Mér finnst hrífandi að vera í lit­ríkum fötum.“

Brynjar er hrifinn af notuðum fötum og í­þrótta­gallarnir hans eru flestir keyptir á nytja­mörkuðum og búðum sem selja notuð föt.

„Ég kaupi samt stundum eitt­hvað nýtt líka. Það bættist svo­lítið í fata­skápinn þegar ég var í resi­densíunni í Kraká. Ég á mikið af lit­ríkum í­þrótta­göllum og líka af í­þrótta­peysum og það bætist reglu­lega við. Stundum fæ ég líka eitt­hvað gefins þegar vinir mínir eru að losa sig við dót. Þá er oft hægt að finna eitt­hvað flott.“

Brynjar notar í­þrótta­galla líka við fínni til­efni eins og árs­há­tíðir sem dæmi.

„Ég á fjólu­bláan og græn­bláan krumpu­galla sem ég nota oft við spari­legri til­efni,“ segir hann.

Meiri­hlutinn af því sem Brynjar klæðist er eitt­hvað sem er hentugt að vera í þegar hlaupið er á eftir strætó. Hann segir á­huga sinn á í­þrótta­göllum því bæði koma til vegna þæginda, út­lits og nostalgíu.

„Þetta er svo þægi­legur fatnaður. Í­þrótta­gallar eru oft í skærum litum með flott mynstur og henta líka mjög vel til að fara út að dansa í.“

Brynjar klæðist jogginggöllum við flest tilefni. Þessi fjólublái og blái krumpugalli er notaður við hátíðleg tækifæri.
Fréttablaðið/Anton Brink

ég skal mála allan heiminn elsku mamma

ég skal hvítta borðstofuborðið

og panelinn

hvítta eldhúsinnréttinguna

og sigurbogana

og hvítta tennurnar

hvítta fótsporin

ég skal hvítta skuggann þinn mamma

ef þú getur bara aðeins verið kyrr

ég skal hvítta gasgrillið

ég skal hvítta í þér augun elsku mamma

Úr ljóðabókinni Stríð fjórðu bókinni í tólf ljóðabókaröð Brynjars.

Íþróttagallana kaupir Brynjar oftast notaða á nytjamörkuðum eða í búðum sem selja notuð föt. Derhúfan er með áprentaðri mynd eftir Brynjar sjálfan.
Dálæti Brynjars á íþróttagöllum er tilkomið vegna þess hve þægilegir og litríkir þeir eru. Þeir veita andagift við ritstörf en svo má líka dansa í þeim.
Fréttablaðið/Anton Brink