„Þegar ég var sjö ára bað kennarinn okkur að skrifa ritgerð um menningu annarra landa, sem heimaverkefni fyrir helgina,“ segir Séamas O'Reilly, írskur verðlaunahöfundur sem hefur skrifað fyrir The Guardian, The Irish Times, Observer og fleiri og hlaut An post bókmenntaverðlaunin fyrir ævisögu sína.

Séamas upplýsti þetta á Twitter og greindi í samtali við Fréttablaðið í framhaldinu frá því að hann langaði einhvern daginn að kíkja til Dalvíkur á Fiskidaginn mikla.

„Ég mundi eftir þessu seint um kvöld á sunnudegi, og í örvæntingunni bjó ég til eitthvað sem ég kallaði „Íslensku fiskihátíðina“ og taldi að umræddur kennari yrði einskis vís,“ segir Séamas.

„Systir Veronica var einn af mínum eftirlætis kennurum. Hún var nunna frá Glasgow sem gekk með spelku á fætinum eftir að hafa veikst af mænusótt í æsku, og hún sagði okkur allt um það. Hún var fyndin og ljúf og var alltaf að hvetja mig áfram í ritstörfum. Svona heimavinna var alveg dæmigerð í hennar tilfelli,“ skrifar hann.

Hitti Íslandskonung

„Ég ætlaði sko ekki að valda henni vonbrigðum. Ég vakti alla nóttina til að tryggja að ritgerðinni yrði skilað á réttum tíma. Ég varð frakkari eftir því sem leið á nóttina og bætti við útúrdúrum og fyrstu persónu frásögnum. Ég minnist þess að hafa vitnað í „konung Íslands“, eins og hann hefði talað við mig í eigin persónu,“ segir Séamas.

„Ég man ekki margt um sjálfa hátíðina, en ég man að ég sagði hana standa yfir í fjóra mánuði og fela í sér að allir skyldu borða fisk og klæðast fiskibúningum. Sumt var skrifað í nútíð. Var ég á hátíðinni? Fór ég á hverju ári? Því var ekki svarað. En þetta var átta blaðsíðna langt.“

Séamas segir kennaranum hafa verið virkilega skemmt þegar hann skilaði ritgerðinni. „Fyrir því lágu tvær meginástæður. Annars vegar var þetta fullkomlega geðbiluð ritgerð, um mjög augljóslega skáldaða hátíð, sem ég afhenti lafmóður og bjartsýnn,“ skrifar hann.

„En það var ekki það eina. Á sama augnabliki, bókstaflega sama andartaki og ég afhenti henni ritgerðina, áttaði ég mig á því að hún hafði alls ekki beðið okkur um að skrifa þetta. Mig hafði dreymt það allt.“

Uggvænlegur upplestur

Séamas heldur áfram: „Ég hafði þá skrifað og afhent þessa átta blaðsíðna löngu endurminningagrein um íslensku fiskihátíðina algerlega að ástæðulausu. Án þess að vita almennilega í hvorn fótinn hún átti að stíga, brosti kennarinn og sagðist ætla að lesa ritgerðina fyrir bekkinn.

Ég bað hana að vinsamlegast gera það ekki. En hún gerði það nú samt. Og meira að segja þau – fullt herbergi af norður-írskum sjö ára börnum – svo hæðin að það jaðrar við illsku, virtust einlæglega uggandi yfir andlegri heilsu minni.“

Séamas segist undanfarin 30 ár hafa hugsað reglulega til þessarar hjartagóðu nunnu lesa upp setninguna: „Vá, þessir Íslendingar elska svo sannarlega fiskinn sinn,“ með hikandi Glasgow-hreim, yfir skólastofu sem ólgaði af áhyggjum og skelfingu.

Séamas O’Reilly notaði heldur frumlega leið til að koma sér úr klípu aðeins sjö ára að aldri.
Mynd/Getty Images