Brynja Hjálmsdóttir og Brynjólfur Þorsteinsson senda frá sér fyrstu ljóðabækur sínar um þessi jól. Brynjólfur hlaut í byrjun þessa árs Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Gormánuður. „Það var mikil hvatning. Ég er ekki viss um að ég hefði gefið þessa bók út án þeirrar viðurkenningar. Ég hafði varla kallað mig ljóðskáld áður en ég fékk stafinn og var ekki að yrkja neitt af viti,“ segir hann. Aðspurður segist hann eiga í skúffum smásagnasafn og drög að skáldsagnahandriti. „Hann er frábær smásagnahöfundur,“ skýtur Brynja inn í.

Samfelld upplifun

Ljóðabók Brynjólfs nefnist Þetta er ekki bílastæði. „Bókin skiptist í þrjá hluta sem eru Gormánuður, Ýlir og Mörsugur sem eru gamlir vetrarmánuðir. Ég kem víða við, en veturinn er áberandi og kvíðinn fyrir myrkrinu fram undan. Það er mikill kvíði í samfélaginu þessa dagana, loftslagsváin vegur þar þungt og ég held að það hafi haft áhrif á ljóðin. Mér varð líka hugsað til fortíðarinnar við skrifin, þegar tengsl fólks við náttúruna voru öðruvísi, nánari. Það er mikið um dýr í bókinni og umhverfið leikur stórt hlutverk.“

Okfruman er heiti á bók Brynju. „Þetta er samfelldur ljóðabálkur sem segir sögu tiltekinnar manneskju. Mér var mikið í mun í að þarna yrði til ein samfelld upplifun sem væri hægt að sökkva sér ofan í.“ Spurð hvort þarna sé byggt á eigin reynslu segir hún: „Ljóðin eru að hluta til persónuleg en ekki hundrað prósent sjálfsævisöguleg. Ég held að hið persónulega verði ekki umflúið í ljóðagerð yfirleitt.“

Bunkar af ljóðabókum

Brynja og Brynjólfur stunduðu ritlist í Háskólanum og bæði starfa sem bóksalar, hann í Bókabúð Máls og menningar og hún í Eymundsson. „Það er óskaplega skemmtilegt að vera bóksali í jólabókaflóði,“ segir Brynja. Spurð hvort þau hafi afgreitt eigin ljóðabækur svara þau því játandi. „Bæði til fólks sem maður þekkir og annarra sem maður þekkir ekki neitt og það er mjög forvitnilegt,“ segir Brynja.

Þau eru spurð hvort þau séu miklir ljóðaunnendur. „Ég las vísur þegar ég var krakki og í lok menntaskólans fór ég að lesa ljóðabækur.“ Spurð um eftirlætisskáld nefnir hún Óskar Árna, Kristínu Eiríksdóttur, Eirík Örn Nordal, Stein Steinarr og Sigurð Pálsson.

„Ég las ekki mikið af ljóðum fyrr en ég byrjaði í ritlist. Fram að því las ég aðallega skáldsögur og smásögur,“ segir Brynjólfur. Spurður um eftirlætishöfunda nefnir hann Braga Ólafsson. „Það fer svo eftir vikum hvaða ljóðskáld eru í mestu uppáhaldi. Ég er alltaf með bunka af ljóðabókum á náttborðinu.“