Víkingur Heiðar Ólafsson heldur útgáfutónleika í Eldborg næstkomandi laugardag, 13. október, og sunnudaginn 14. október. Báðir tónleikar hefjast kl. 20 en tilefnið er útgáfa hljómdisks frá Deutsche Grammophon með verkum eftir Bach. Á útgáfutónleikunum leikur Víkingur Heiðar verk af diskinum og sömuleiðis Pathetique sónötuna eftir Beethoven.

Breytti viðmiðum

Blaðamaður náði tali af Víkingi Heiðari sem þá var staddur í Þýskalandi. Hann var fyrst spurður hvort tónlist þessara tveggja risa tónlistarsögunnar ætti eitthvað sameiginlegt. „Ef Bach hefði ekki lifað þá hefði tónlist Beethovens orðið allt öðruvísi,“ segir hann. „Öll stóru tónskáldin sem komu á eftir Bach urðu með einum eða öðrum hætti fyrir miklum áhrifum frá honum. Hann breytti viðmiðunum. Beethoven hafði þrotlausan áhuga á Bach og eyddi til að mynda miklum tíma í að reyna að skrifa fúgur í anda Bachs. Það gekk reyndar aldrei neitt sérlega vel.

Jafn fullkominn og Bach var sem arkitekt í tónlistinni þá sé ég hann fyrst og fremst sem skáld allra skálda. Og það er vegna óviðjafnanlegrar skáldgáfunnar sem hann laðar okkur alltaf til sín, hverja kynslóðina á fætur annarri. Á diskinum og á tónleikunum er ég að fást við hann sem meistara hins knappa forms. Það er mjög spennandi því það sýnir margar hliðar á honum sem eru kannski svolítið óvenjulegar: Hinn ögrandi Bach, ærslafulli Bach, íhuguli Bach, tregafulli Bach og áhyggjulausi Bach. En hjá honum snýst þetta reyndar ekki um hans persónulegu tilfinningar. Þetta er ekki spurning um hans einstaka harm eða gleði heldur frekar sammannlega reynslu. Hann er kosmískur en Beethoven að sama skapi jarðneskur. Beethoven gerir skýlausa kröfu um að maður stígi inn í hans heim og tilfinningalíf, alltaf algjörlega á hans forsendum. Maður gefur sig honum á vald á meðan Bach gefur manni kannski meira frelsi til að vera maður sjálfur. Þetta er kannski stærsti munurinn á þessum tveimur mestu arkitektum tónlistarsögunnar.“

Á tónleikunum í Eldborg mun Víkingur Heiðar sjálfur kynna verkin sem hann spilar. „Ég prófaði þetta þegar ég hélt útgáfutónleika í Eldborg með verkum Philips Glass. Þótt Eldborg sé 1.600 manna salur finnst mér hann aldrei stór heldur persónulegur og hlýr. Ég verð með míkrófón á sviðinu og tala um samband mitt við Bach og gerð plötunnar og verð með litla fróðleiksmola og hugleiðingar um verkin sem ég spila.“

Sérstök spenna

Víkingur Heiðar hefur verið á miklu tónleikaferðalagi þetta árið. Í síðustu viku hélt hann fimm tónleika á sex dögum í Tókýó og hefur síðasta mánuðinn komið fram í Kaupmannahöfn, Gautaborg, Berlín, London, Finnlandi, Færeyjum og Tyrklandi. „Ég hef mikið verið að spila verk af Bach-diskinum. Þetta er blanda af mjög þekktum verkum sem ég myndi ekki hafa tekið upp nema af því að mér finnst ég hafa eitthvað nýtt fram að færa í túlkun á þeim, en svo eru þarna líka snilldarverk sem mun færri þekkja. Frægir píanistar hafa sagt mér að þeir hafi ekki þekkt þó nokkur af verkunum á diskinum. Það gleður mig raunar. Bach samdi ótrúlega mörg gullfalleg verk en við höfum tilhneigingu til að spila einungis 20 prósent, eða þar um bil, af því sem hann samdi.“

Víkingur Heiðar er spurður hvort það sé öðruvísi að spila fyrir Íslendinga hér heima en útlendinga úti í hinum stóra heimi. „Það er óneitanlega öðruvísi. Kannski ætti mér að finnast það vera meiri pressa að spila í Berlín, New York, London og Tókýó en á heimavelli á Íslandi. En ég er alltaf spenntastur fyrir tónleikum heima. Ég kem mun sjaldnar fram á Íslandi núorðið, þetta eru til að mynda einu tónleikarnir hjá mér á þessum vetri, en það er alltaf einstök tilfinning fyrir mig og sérstök spenna.“

Engin formúla til

Blaðamaður spyr Víking Heiðar hvort hann óttist aldrei að sér mistakist á tónleikum. „Það veltur á því hvernig maður skilgreinir mistök,“ segir hann. „Þar sem ég vinn sleitulaust að undirbúningi hverra tónleika er ég alla jafna ekki með sviðsótta. Þessi vissa, að maður hafi gefið allt sitt í undirbúninginn og æfingarnar, er það eina sem getur gefið manni styrk þegar á hólminn er komið. En eftir því sem ég kem fram á fleiri tónleikum verður mér þó æ ljósara að ekki er hægt að ganga að neinu vísu. Ég hef kannski verið í flugvél í tólf tíma og fer á svið daginn eftir og á kannski mína bestu tónleika í langan tíma. Svo get ég verið í kjöraðstæðum þar sem allt er með mér en er kannski svekktur eftir tónleikana. Það er engin formúla að ógleymanlegum tónleikum. Það eru töfrarnir við þetta. Um leið og maður verður of sjálfsöruggur er manni undantekningarlaust kippt niður á jörðina. Það er sennilega eins gott.“

Tveimur dögum eftir tónleikana hér heima fer Víkingur til Hamborgar og síðan liggur leiðin til London og Detroit. „Svona gengur þetta fyrir sig, en ég fæ tveggja vikna frí í nóvember. Það er í fyrsta sinn í langan tíma sem ég get verið heima dögum saman að æfa mig, drekka kaffi og lesa bækur,“ segir hann.