Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, tók í dag á móti stórri sendingu frá útlöndum. Hann gerði það rólegur enda átti hann von á sendingunni og vissi hvert innihaldið var, ólíkt því sem gerðist um miðjan janúar. Þá tók hann á móti óvæntum pakka og var umleið handtekinn með látum og færður til yfirheyrslu.

 „Þetta eru skákklukkur og fleira sem við áttum von á þannig að þetta var ekkert grunsamlegt,“ segir Gunnar sem ætlar ekki að taka aftur á móti óvæntum sendingum til Skáksambandsins.

Algjörlega grunlaus

 „Síðast átti ég ekki von á neinum kassa en tók við honum þar sem öll gjöld höfðu verið greidd. Ég var svo grunlaus að það hvarflaði ekki að mér að það væri verið að plata mann svona. Ég myndi ekki gera þetta aftur þótt búið væri að borga allt.“

Gunnar segir að ekki hafi farið um hann þegar sendingin barst í dag.  „Nei, nei. Við vorum nýbúin að panta þetta þannig að þetta er nú bara fyndið,“ segir Gunnar sem brá á leik og birti mynd af kassanum á Facebook með textanum:   

„Þessi grunsamlegi pakki, með skákvörum, barst til skrifstofu Skáksambandsins í dag. Klukkutíma eftir móttöku hans geng ég um sem frjáls maður.“

Pollrólegur með nýja löglega dótið

Gunnar segir handtökuna í janúar vissulega hafa verið sjokk en hann er löngu búinn að jafna sig og kominn það vel yfir áfallið að hann er byrjaður að geta grínast með uppákomuna.

„Ég er löngu búinn að jafna mig. Það tók mig samt örugglega viku. Ég kom þessu ekki út úr hausnum á mér og var alltaf að hugsa um þetta.“

Fíkniefnin sem send voru til Skáksambandsins tengjast Malaga-málinu sem hefur verið í hámæli og meðal annars kallað „Skáksambandsmálið“. Gunnar segir tengingu fíkniefnamálsins við sambandið ekki trufla sig.

„Nei, það gerir það ekki vegna þess að það vita allir hvernig í þessu liggur. Eftir að það náðist í gegn þá truflar þetta mig ekki en þetta truflar suma. Ég get alveg sagt þér það, hið svokallaða „Skáksambandsmál,“ segir forseti Skáksambandsins, pollrólegur með fullt af nýju og fullkomlega löglegu skákdóti.