Að sögn útvarpsmannsins Ólafs Páls Gunnarssonar, eða Óla Palla eins og hann er kallaður, kom innblásturinn að Skagamönnum að syngja inn jólin, frá Hvergerðingum.

„Hlédís var stödd í Hveragerði fyrir jólin 2019 og lenti þar í Hvergerðinga-jólapartíi,“ segir Óli Palli. Þau ákváðu í framhaldinu að hrinda sambærilegum viðburði í gang á Skaganum fyrir jólin 2020, en vegna heimsfaraldurs varð ekki úr þeirri hugmynd.

„Svo voru Hlédís og Heiðar Már að vinna saman að sjónvarpsþáttum hjá N4,“ segir Óli Palli. „Þá datt Heiðari í hug að breyta þessu í dagatal á netinu, en þá höfðum við fengið styrki til verkefnisins frá Akraneskaupstað og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi,“ segir hann.

Jóladagatalinu er nú slegið upp í þriðja sinn. „Það eru þúsundir manna sem horfa á þetta daglega, í svartasta skammdeginu,“ segir Óli Palli. „Þetta er birt á morgnana klukkan sjö alla daga, og það eru margir sem byrja daginn sinn á því að tékka á þessu.“

Allir tónlistarflytjendurnir eru Akurnesingar sem leika ásamt hljómsveit sem sérstaklega var sett saman fyrir verkefnið. „Við fengum til þess hljómsveitarstjórann Birgi Þórisson, sem er reyndar Borgnesingur og er aðstoðarskólastóri Tónlistarskólans og hljómborðsleikari í Stuðlabandinu.“

Að sögn Óla Palla hefur dagatalið gengið einstaklega vel það sem af er desember. „Í fyrradag voru tvær 85 ára gamlar tvíburasystur að syngja, sem eru búnar að syngja og spila á gítar síðan þær voru stelpur. Þær hafa ekki mikið verið að troða upp fyrir almenning, aðallega bara hjá Félagi eldri borgara. Svo var fullorðinn maður á laugardaginn sem hefur aðallega verið að syngja fyrir sjálfan sig og konuna sína. Svo var ég sjálfur þarna fyrsta daginn,“ segir Óli Palli sem segist hafa stokkið til vegna forfalla. „Þarna eru margir sem koma á óvart. Ég fæ oft svona komment: Já, ég vissi ekki að þessi væri að syngja!“

Aðspurður segist Óli Palli vera mikill jólamaður. „Mér finnst þetta voðalega skemmtilegur tími yfirleitt, og þetta smellpassar við mig. Ég er sérstakur áhugamaður um jólamúsík og það er svo margt fólk sem segir við mig, af því að ég er að vinna í útvarpi, að það sé ekki kveikjandi á útvarpinu þegar það er kominn desember. Þar sé ekkert nema einhver jólalög,“ segir hann.

Óli Palli ítrekar að jólatónlist sé fjölbreytt. „Það svo ótrúlega mikið til, og ég er búinn að segja þetta svo oft. Þessi áhugi minn kviknar út af útvarpinu, til þess að koma með eitthvert svar við þessu. Það er til svo ótrúlega mikið af jólamúsík sem er ekki eitthvað: Það verður svo gaman á jólunum þegar ég er með þér, og svona,“ útskýrir útvarpsmaðurinn. „Þetta er bara músík sem passar inn í þennan árstíma,“ útskýrir hann. „Fyrsta íslenska jólalagið sem er ekki sálmur er hin fyrstu jól eftir Ingibjörgu Þorbergs 1954. Þetta er ekki bara Ég hlakka svo til.“

Óli Palli bætir við að Sena hafi á sínum tíma gefið út tvær jólaplötur sem hann sjálfur setti saman, Jól í Rokklandi, sem að vísu eru ekki til á Spotify í dag.