„Við hjá Orku náttúrunnar framleiðum gríðarmikla raforku sem við seljum og erum með hleðsluþjónustu sem við erum sífellt að byggja undir. Við bjóðum upp á hraðhleðslu við þjóðveginn og víðar, hverfahleðslu fyrir sveitarfélög víða um land og hleðslu fyrir heimili einstaklinga, fjölbýli og við fyrirtæki,“ segir Guðjón Hugberg Björnsson, tæknistjóri hleðsluþjónustu Orku náttúrunnar. „Með því að kaupa hleðsluþjónustu í áskrift getur fólk einfaldlega fengið hleðslustöð fyrir utan hjá sér og þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort stöðin virki eða sé uppfærð með nýjustu tækni, heldur sjáum við bara um þetta allt saman fyrir fólk.“

Einbeitt að orkuskiptum

„Þegar við byrjuðum að setja upp hleðslustöðvar árið 2014 var þetta ákveðið frumkvöðlastarf og það voru eiginlega engir rafbílar á landinu. Við ruddum veginn með því að setja upp hleðslustöðvar um allt land svo það væri hægt að fara allan hringinn á hraðhleðslu,“ segir Guðjón. „Svo komu rafbílar í kjölfarið og sterkar ívilnanir frá ríkisstjórninni svo boltinn fór að rúlla. Núna veitum við þjónustu víðs vegar um landið og höfum byggt upp sterkt og áreiðanlegt net til að til að tryggja ánægju viðskiptavina okkar.

Allt okkar starf snýr að orkuskiptum og við höfum ekki tekjur af neinum öðrum orkugjöfum en raforku, svo við höfum engan hag af því að bensín og dísill séu enn í umferð. Við erum með mjög skýran fókus á meðan aðrir á markaðnum eru að fóta sig á þessum nýja markaði og hafa enn tekjur af eldri orkugjöfum,“ segir Guðjón. „Þannig að við erum einbeittari að þessu en aðrir og höfum líka verið að þessu lengur.“

Ísland í öðru sæti í orkuskiptum

„Það skiptir gríðarlegu máli fyrir umhverfið að Ísland skipti um orkugjafa og við höfum fullt tækifæri til þess. Orka náttúrunnar er sterkt fyrirtæki með marga viðskiptavini sem gera síauknar kröfur og fyrir vikið erum við alltaf að beita okkur af meiri krafti,“ segir Guðjón. „Við tökum verkefni okkar alvarlega og þetta er sá markaður í orkusölu sem stækkar hraðast. Raforkusala og þjónustan sem við bjóðum upp á fellur líka vel saman og það þarf sterkan aðila til að beita sér á þessum markaði og nýta þessi risastóru viðskiptatækifæri.

Nú er Ísland í öðru sæti í heiminum þegar kemur að orkuskiptum. Noregur er í fyrsta sæti og við erum fast á hæla þeim og langt á undan landinu sem er í þriðja sæti. Í nýlegri úttekt á því í hvaða borgum í Evrópu væri best að vera á rafbíl var Reykjavík líka í fyrsta sæti, enda eru hleðslustöðvar alltaf í innan við 500 metra fjarlægð,“ segir Guðjón. „Meirihluti allra seldra bíla til einstaklinga er líka rafbílar og fólk er alveg hætt að spyrja hvort þeir séu framtíðin. Það hefur því náðst gríðarlega mikill og góður árangur.“

Þörf á skýrri stefnu fyrir innviði

„Ég myndi segja að við séum komin yfir fyrsta hjallann. Næst myndi ég vilja sjá skýra stefnu stjórnvalda um hvernig umhverfið í kaupum á rafbílum verður til frambúðar, til þess að þróunin haldi áfram á sömu braut og þjónustuaðilar eða þeir sem eru að setja upp innviði geti gert sér betur grein fyrir þörfum fram í tímann,“ segir Guðjón. „Ef það hægist mikið á fjölgun rafbíla þá hægist einnig á uppbyggingu innviða því sú uppbygging er kostnaðarsöm. Það er hröð þróun í hleðslubúnaði svo fyrirtæki eru ekki endilega til í að setja upp mikið af búnaði sem verður svo lítið notaður og mögulega orðinn barn síns tíma þegar eftirspurnin er orðin nægilega mikil. Þannig að það skapast ákveðinn eltingaleikur sem er helsta áskorunin núna.

Fjölgun rafbíla hefur þann kost að markaðurinn stækkar og það eru fleiri leikendur og þjónustuaðilar á honum. Meiri samkeppni þýðir meiri og hraðari uppbygging á innviðum og það gerir markaðinn skemmtilegri og meiri spennandi,“ segir Guðjón. „Gallinn við fjölgunina er hins vegar þessir vaxtarverkir og að mögulega náum við kannski ekki alltaf að anna eftirspurn, en við gerum okkar besta.“

Hleðsla í áskrift einfaldar málin

„Við vorum að skipta um þjónustukerfi fyrir örfáum vikum og það var gríðarlegt stökk fram á við og gerir okkur kleift að bjóða breiðara vöruframboð. Við breikkum það svo enn frekar í haust,“ segir Guðjón. „Við erum líka komin með app sem gerir viðskiptavinum kleift að greiða fyrir þjónustu, sjá stöðuna á hleðslu og annað slíkt. Það gerir viðskiptavinum kleift að þjónusta sjálfa sig betur en áður.

Heimahleðsla í áskrift er líka frekar nýtilkomin og það átta kannski ekki allir sig á kostum þess að geta verið með svona hleðsluþjónustu þar sem séð er um öll tæknileg atriði, eins og hvaða stöð á að velja og hvaða búnaður er bestur,“ segir Guðjón. „Við erum sérfræðingar í þessu og sjáum um þetta allt saman. Það er líka engin binding fólgin í þessu, sem er til dæmis þægilegt fyrir fyrirtæki í leiguhúsnæði. Áskriftarþjónustan gerir það að verkum að það þarf ekki að hugsa neitt um þetta, það er bara séð um allt, hvort sem það er fyrir fyrirtæki, heimili eða fjölbýli.“