Mark Harmon, sem farið hefur með aðal­hlut­verkið í þáttunum NCIS um margra ára skeið, er hættur í þáttunum. Þættirnir hafa verið sýndir frá árinu 2003 og notið nokkuð stöðugra vin­sælda.

Þættirnir segja frá rann­sóknar­deild innan banda­ríska sjó­hersins og fór Harmon með hlut­verk Leroy Jet­hro Gibbs, yfir­manns deildarinnar, í þáttunum.

Það kom mörgum á­horf­endum á mánu­dags­kvöld í opna skjöldu þegar per­sóna Harmons í þáttunum til­kynnti sam­starfs­manni sínum, eftir að hafa leyst verk­efni í Alaska, að hann ætlaði sér að verða þar eftir.

Ekki hafði verið til­kynnt um brott­hvarf Harmons fyrir sýningu þáttarins – eins og stundum er gert – og því kom þetta á­horf­endum nokkuð á ó­vart.

Í um­fjöllun AP kemur fram að Harmon, sem er orðinn sjö­tugur, hafi ekki úti­lokað að koma fram í ein­staka þáttum síðar meir en þá í auka­hlut­verki.

Sem fyrr segir hafa NCIS-þættirnir notið mikilla vin­sælda undan­farin ár, sér­stak­lega í Banda­ríkjunum þar sem þeir hafa verið vin­sælustu drama­þættirnir í ellefu af síðustu tólf árum. Harmon hefur verið með frá upp­hafi og komið fram í alls 418 þáttum.